Píslarhetjurunk

Endur fyrir löngu harðneitaði ég að nota lyndistákn í samræðum á netinu. Fannst þau óþörf og asnaleg. Vinum og vandamönnum þótti þessi sérviska mín óþægileg. Oft fannst fólki geta leikið vafi á því hvort ég væri að tala í alvöru, hæðast að einhverjum eða geta góðlátlegt grín. Mér fannst það reyndar kostur en ég var víst ein um þá skoðun.

Að lokum lét ég undan og nú klíni ég brosköllum, hjörtum og regnbogum hvar sem því verður við komið. Sem betur fer þekki ég ekkert kaldhæðnistákn enda missir kaldhæðni marks ef maður tekur fram að eitthvað sé sagt í kaldhæðni en fólk heldur þó allavega ekki að ég sé að atast í því ef ég sendi kyssikall eða hjarta með athugasemd.

Lyndistákn og aðrar smámyndir þjóna þannig tilgangi og það sama á við í þessum efnum og flestum öðrum – fleiri valkostir gleðja marga. Mér finnst ekki jafn bjánalegt að nota lyndistákn nú og mér þótti fyrir 10 árum og allt að því skemmtilegt að geta notað púka. Mig langar ekki að segja „þetta segi ég nú í kerksni“ eða „rétt í þessu glotti ég út í annað“ ef er hætta á misskilningi. Það er gott mál að sem flestar smámyndir standi netverjum til boða og fínt að fá myndir af rauðhærðum, gráhærðum og sköllóttum í safnið.

Þegar ég sá þessa umfjöllun, fyrir nokkrum vikum, leið mér samt eitthvað í þessa átt …

 

Rauðhærða lyndistáknið er semsagt áfangi í „málefnum rauðhærðra“ og einhver sjálfskipaður „talsmaður rauðhærðra“ heldur því fram að það sé „mannréttindabarátta að vera með í emoji táknunum“ því hingað til hafi rauðhærðir helst „samsvarað sig“ [svo] við trúðinn.

Ég kann ekki orð, og því síður þekki ég lyndistákn, sem lýsir þeirri tilfinningu sem greip mig. Hneykslun, ógeð, fáránleiki, vorkunnsemi, fyrirlitning … þetta er svo ömurlegt og aumkunarvert að ég veit ekki hvort ég ætti frekar að hlæja eða gráta. Í fyrsta lagi lýsir þetta algeru skilningsleysi á mannréttindahugtakinu. Í öðru lagi lýsir þetta skilningsleysi á tilgangi lyndistákna. Þeim er nefnilega ætlað að sýna hvernig viðkomandi er stemmdur þá stundina. Ef maður ætlar að birta sjálfsmynd er hentugast að nota ljósmynd enda mun skærgult fólk með hringlaga andlit vera mjög lítill minnihlutahópur.

Það er í tísku að hafa áhuga á mannréttindum og félagslegu réttlæti. Það er út af fyrir sig frábært og veitir ekki af því að sem flestir láti mannréttindi til sín taka. Stórir hópar fólks um víða veröld búa við kerfisbundna mismunun og hrein og klár mannréttindabrot eru stórt vandamál. Víða er samkynhneigð refsiverð, barnaþrælkun látin afskiptalaus og fólk er fangelsað án þess að réttað sé yfir því.

Rauðhært lyndistákn er væntanlega fyrir fólk sem „líður rauðhært“. Nema ætlunin sé að nota það sem prófílmynd en þá skulum við vona að notandinn sé ekki burstaklipptur.

 

Til allrar hamingju er lítið um svæsin mannréttindabrot á Íslandi en við erum ekkert alsaklaus. Hæstiréttur dæmdi manni nýlega bætur vegna vanvirðandi meðferðar í fangelsi, nú er verið að reka vegalaus börn úr landi, sem samræmist engan veginn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Reyndar er stefna Íslendinga í málum hælisleitenda og framkvæmd hennar hreint ekki í anda virðingar fyrir mannréttindum. Fatlaðir búa við mismunun, Áslaug Ýr Hjartardóttir tapaði máli fyrir héraðsdómi í sumar og þarf nú að standa í málaferlum fyrir Hæstarétti til þess að reyna að knýja fram rétt til þjónustu sem Hæstiréttur hefur þegar viðurkennt að daufblindir eigi rétt á. Þegar það fæst viðurkennt verður það auðvitað orðið of seint fyrir hana að nýta sér þá þjónustu, í það minnsta í þeim aðstæðum sem hún ætlaði upphaflega.

Því er líkast sem fólk sem verður fyrir ofsóknum þyki á einhvern hátt göfugra fyrir vikið. Mannréttindafrömuðir komast ekki hjá því að höfða til samúðar almennings með þeim sem brotið er gegn og það hjálpar til að sýna brotaþola í jákvæðu ljósi – gera fórnarlambið að píslarhetju sem við finnum til með en dáumst líka að. En rauðhærðir eru ekki ofsóttir og búa ekki við neina mismunun. Þeir eiga ekki á hættu að vera synjað um tækifæri eða þjónustu vegna útlits síns. Rautt hár er frekar sjaldgæft og staðalmyndir verða alltaf til um þá sem skera sig úr fjöldanum. Krökkum er ekki strítt vegna þess að þeir séu rauðhærðir heldur er sjaldgæft útlitseinkenni notað sem afsökun fyrir stríðninni. Ef fórnarlambið væri með skolleitt hár myndu hrekkjusvínin bara nota nafn barnsins, göngulag eða önnur sérkenni til að stríða því. Í heimi hinna fullorðnu þykir rautt hár eftirsóknarvert ef eitthvað er eins og „talsmaður rauðhærðra“ bendir sjálfur á í þessari þversagnakenndu umfjöllun um rauðhærða lyndistáknið.

Ég skil vel þá sem vilja láta að sér kveða í mannréttindabaráttu og því miður er enginn skortur á tækifærum til þess, ekki einu sinni á Íslandi. Ég dái fólk sem píslum hrjáð rís gegn ofsóknum og kúgun, Malala Yousafzai er slík hetja. Það er hinsvegar enginn stuðningur við mannréttindi að klína hugtakinu „mannréttindabarátta“ á viðleitni fólks til þess að uppræta fordóma eða slæma framkomu hvort sem hún beinist gegn rauðhærðum, feitum eða fólki sem hefur ekki áhuga á kynlífi. Svokölluð „réttindabarátta“ fólks sem enginn hefur brotið gegn er fyrst og fremst löngun sjálfskipaðra talsmanna í viðurkenningu út á það að tilheyra eða tengjast jaðarhópi. En slíkt fólk verður aldrei Malala og málflutningur þess er ekki mannréttindabarátta heldur píslarhetjurunk.