Paradísarfugl handa Ragnari Þór

paradísarfuglRagnar Þór Pétursson vekur athygli á tengingu Paradísarfugls Megasar við  Brúðarnótt Davíðs frá Fagraskógi. Og ég má bara til að ræða þetta aðeins.

Texti Davíðs:  Brúðarnótt
Í rökkri hvarf hún inn um dómsins dyr,
í dögun sérhver fugl á greinum þagði,
og hún, sem minnti menn á engil fyr,
var myrt og vakin upp og gerð að flagði.

Svo djöfullegum dólgi var hún gift
að dýrið báðum tveim í sorpi velti,
og meðan hún var sakleysinu svipt,
og sviðin eldi beit hann eða gelti.

Þá var hún mörkuð dólgsins dökku rún
og dæmd til þess að ala hann og flærnar.
Ég fer í bíti, Satan, sagði hún,
en Satan hló – og beit af henni tærnar.

Texti Megasar: Paradísarfuglinn
Í dögun hvarf hún innum aðrar dyr
mig óraði ekki fyrir því sem skeði
en fyrren varði – fyrirgefiði
mér feimnina – hún gjörðist veik á geði
hún gjörðist veik
hún gjörðist veik á geði

Þeir gáfu henni truntusól og tungl
og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli
en hann sem vissi allt var ómálga
– afsakiði meðanað ég æli
meðanað ég æli
meðanað ég æli
en paradísarfuglinn fló og gelti
mér finnst því líkast sem ég sé í svelti

Loks kvað hún uppúr innri mann með sinn
og æpti: ég vil heim í hass og sýru
– og basa
þeir glottu útað eyrunum í spíss
og önsuðu: þú hefur gervinýru
– og vasa
þú hefur nefnilega fengið
risagervinýru – með vasa
og paradísarfuglinn fló og gelti
ég fíla mig eins og ég sé í svelti

Megas býður oft upp á marga túlkunarmöguleika svo það má áreiðanlega lesa margt út úr textanum en ég skil hann sem ádeilu á sjúkdómsvæðingu kvenna sem hafa lent í hremmingum.

Kvæði Davíðs má skilja sem örlagasögu konu sem er neydd undir karlmann, hefur ekkert um það að segja og er um leið gerð að flagði (eða druslu.) Vitanlega má einnig skilja dýrið sem aðrar aðstæður sem manneskja ræður ekki við en kynferðisofbeldi er nærtækasta túlkunin. Þegar hún ætlar að koma sér úr þeim aðstæðum er hún hindruð í því. Að bíta tær af manneskju er fullkomin andstæða við þann virðingarvott að kyssa tær en auk þess hlýtur lesandinn að skilja að hún fer ekki langt fótlama. Semsagt bjargarleysi og skömm í einum pakka. Megas leggur út af þessu kvæði, skrifar framhald.

Paradísarfuglinn er ekki bara puntudúkka, heldur miklu þýðingarmeira tákn. Á 16. öld þóttu  uppstoppaðir paradísarfuglar frá Nýju Gíneu fínir í Evrópu. Þeir voru stoppaðir upp án fóta og sú alþýðuskýring varð til að þeir ættu að tákna fornsögulegan fugl sem væri dæmdur til að vera á stöðugu flugi. Vegna stöðugrar nálægðar sinnar við himininn var paradísarfuglinn guðdómlegur. Mun hafa fylgt sögunni að þar sem fuglinn gæti ekki hvílst ætti hann líka erfitt með að nærast. Væri alltaf hálfsoltinn en fengi viðurværi sitt frá sjálfum guðdómnum. Hann varð þannig tákn eirðarleysis og hungurs en um leið upphafinn.

Megas fer með hina tábitnu úr mykri í birtu, inn um aðrar dyr, sem liggja samt ekkert síður að einhverskonar dómi. Hún er eins og paradísafuglinn, friðlaus og í einhverskonar svelti. Minnir á manneskju í neyslu eða öðru rugli.

Í fyrsta erindi afsakar hann „feimnina“. Þetta er paródía því þegar fólk segir „fyrirgefið framhleypnina“ er það venjulega dálítil hræsni, fólk sem segir þetta er oft stolt af því að þora að segja það sem hinir láta sér nægja að hugsa og vill kannski allt eins vekja athygli á framhleypni sinni. Og framhleypni Megasar (eða ljóðmælanda ef við viljum endilega vera „fræðileg“) felst í því að tala um að konan „gerist“ veik á geði. Vandamál hennar eru útskýrð sem sjúkdómur af samfélagi hennar. Skýringin verður flóttaleið, aðferð til að komast hjá því að takast á við hlutina og kannski gengst hún jafnvel upp í sjúkleikanum.

Lyfjum er troðið í manneskjuna en sá sem þekkir hana veit hvað raunverulega er að. Hann veit að hún er ekki geðveik fyrir fimm aura en hann getur ekki komið því til skila. Það er semsagt verið að búa til sjúkling í stað þess að leysa vandamál og það er jafnvel snobbað dálítið fyrir meintri geðveiki – afsakið mig meðan að ég æli. Paradísarfuglinn; fíknin, rennur saman við dýrið í kvæði Davíðs, hin sterka þátíð sagnarinnar að fljúga, fló, er um leið eintala nafnorðsins flær, en flærnar leggjast á konuna í kvæði Davíðs.

Á endanum springur hún og vill ekkert láta lækna sig. Þá er búið að útvega henni gervinýra. Nýrað er hreinsunarbúnaður og gervinýrað er með vasa. Hvern ætli þessi gervilausn hafi svo í vasanum framvegis? Okkur öll eða kannski bara eigandann?

Þannig að já, ég skil Megas þannig að hann sé að deila á sjúkdómsvæðingu kvenna. Konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi þurfa auk afleiðinganna af því að díla við botnlaust sálarmorðskjaftæði. Ef þær eru með persónubresti eða drekka og dópa of mikið þá er það útskýrt sem sjúkdómur af völdum feðraveldisins, allt illt sem hendir þær er rakið til gamalla áfalla. Umræðan verður stundum eins og það séu bara örlög þeirra að vera paradísarfuglar og þær eru dálítið upphafnar í sjúkleika sínum.