Ó, pabbi minn

40Þetta vefsvæði á norn.is er tileinkað elskulegum föður mínum, Hauki Geirssyni, sem án nokkurs vafa er besti pabbi í heimi. Hann var yndislegur pabbi þegar við vorum litlar, alltaf sanngjarn, alltaf rólegur, yfirvegaður og skapgóður og gaf okkur allan þann tíma, ást og umhyggju sem við þurftum. Hann talaði aldrei illa um annað fólk (a.m.k. ekki í okkar návist) og hafi hann einhverntíma verið þreyttur á okkur lét hann okkur ekki finna það. Hann hafði frjálslega afstöðu til barnauppeldis, ætlaðist til að við kæmum heim á umsömdum tíma, vöruðumst hættur og hegðuðum okkur almennt þokkalega en reyndi ekki að stjórna okkur að öðru leyti. Við máttum alltaf bjóða krökkum inn til að leika og þegar kom að „drekkutíma“ var vinkonunum boðið að fá sér nýsteiktar lummur, súkkulaðikex og annað góðgæti með okkur.

Eftir að við skriðum úr hreiðrinu hefur hann líka á allan hátt staðið með okkur. Ég hef tvisvar sinnum flutt inn á hann þegar ég var í húsnæðishraki og hversu oft höfum við ekki leitað til pabba þegar þurfti að gera við eitthvað, flytja eða redda einhverju? Ennþá býðst hann alltaf til að sækja mig út á flugvöll þegar ég kem til landsins.

Pabbi varð 75 ára núna í maí og í tilefni af því ákváðum við systur að fara með hann í óvissuferð. Hulla stakk upp á því að fara með hann til Afríku en þrátt fyrir gríðarleg auðæfi okkar töldum við Borghildur það kannski ekki alveg raunhæft. Lendingin varð sú að gera einmitt það sem hann sjálfur gerði þegar við vorum litlar; að fara í ferð innanlands, leggja áherslu á góða samveru en steypa okkur ekki í skuldir. Við fórum því í 3ja daga ferð um Suðvesturlandið sem pabbi þekkir reyndar inn og út eins og aðra landshluta en hefur samt alltaf ánægju af að sjá aftur.

Hér verða birtar myndir og frásagnir úr þeirri ferð næstu dagana. Hver færsla birtist kl 11 f. hádegi, sú fyrsta á morgun, 23. júní.  Vonandi verður svo tilefni til að birta eitthvað meira síðar.

En áður en ferðasagan hefst skulum við skoða nokkrar myndir sem ég tók traustataki af netinu,