Nú verður ekki aftur snúið

Skólagjöldin greidd og nú verður ekki aftur snúið.

Ég er dauðfegin að vera ekki að fara í framhaldsnám í HÍ en um leið lafhrædd við skólann úti. Veit ekkert hvernig námsmatið er, hvort er mikið um hópvinnu eða fyrirkomulagið að öðru leyti. Hrædd um að ég verði svo lengi að lesa lögfræðitexta á ensku að ég komist ekki yfir efnið (komst aldrei yfir að læra neitt almennilega í HÍ þótt efnið sé nánast allt á íslensku). Hrædd um að ég fúnkeri ekki í hóp breskra unglinga (sem hljóta náttúrulega að vera allt öðruvísi en þessir íslensku sem ég fúnkeraði bara alveg ágætlega með). Hrædd um að alþjóðleg lögfræði sé miklu flóknari en hin séríslenska snilld (enda þótt ég viti vel að dómar MDE eru mun betur skrifaðir og framsettir en flestir íslenskir dómar). Hrædd um að ég ráði ekki við þetta (þótt ég hafi ráðið við þetta hingað til).

ALLIR segja mér að hætta þessari vitleysu. Þetta geti ekki verið verra en á Íslandi.
„Þú rúllar þessu upp“ er viðkvæðið. Það er bara þvæla, ég hef aldrei rúllað neinu upp, alltaf þurft að hafa fyrir námi. Mér finnst út af fyrir sig ánægjulegt að fólk hafi svona mikið álit á mér en satt að segja er ég ekki eins klár og ég lít út fyrir að vera og mér þætti vandræðalegt ef kæmi svo á daginn að allt þetta ágæta fólk hafi ofmetið mig. Ég gæti samt alveg dílað við það en mér finnst verri tilhugsun að ráða ekki við þetta og sitja uppi með þá tilfinningu að ég hafi brugðist einhverjum eða öllum eða heiminum eða sjálfri mér.

Einar heldur því fram að ég sé haldin „impostor syndrom“ á alvarlegu stigi. Ég trúi reyndar ekki á „impostor syndrome“, held annarsvegar að það sé fullkomlega eðlilegt að efast um eigin getu og að hafa áhyggjur af því að aðrir annaðhvort ofmeti mann eða vanmeti, og hinsvegar held ég að flestir sem þjást af meintu heilkenni séu raunverulega að fást við erfiðari hluti en hæfileikar þeirra bjóða upp á og hafi því einmitt góða ástæðu til að hafa áhyggjur af því að öðrum verði það ljóst.

Ég kannast alveg við ákveðin einkenni hjá sjálfri mér, eins og það að taka ekki nema hóflegt mark á hrósi en ég fellst nú samt ekki á að það sé neitt „syndrom“ þar sem ég tek heldur ekkert mark á ósanngjarnri gagnrýni. Það getur alveg komið út eins og maður vanmeti sjálfan sig akkúrat þegar maður er kvíðinn en í mínu tilviki er það frekar almenn vantrú á dómgreind mannanna enda fátt sem bendir til þess að fólk sé skynsamt, svona almennt. Ég held t.d. ekki að fólk sé óheiðarlegt þegar það lýsir yfir trú sinni á því að ég „rúlli þessu upp“ en ef myndin hérna efst væri með öfugum hlutföllum (flesir vita ekki hvað þeir eru að tala um og restin lýgur) þá ætti hún alveg við mig. Og vá hvað ég tengi við þessa mynd hér til vinstri. En ég trúi því ekki að það sé neitt óeðlilegt við þessar hugmyndir, ef út í það er farið þá erum við alltaf að feika eitthvað, ekki endilega meðvitað heldur af því að við viljum að aðrir hafi álit á okkur, það er bara mannlegt. Hjá sumum kemur það fram í því að birta myndir af fullkomnu fjölskyldulífi á FB þótt allt sé í steik á heimilinu, hjá öðrum kemur það fram í því að gefa viljandi eða óvart þá mynd af sér að maður sé hæfari en maður í raun er.

Það er pínulítið sorglegt að hlakka ekki til vetrarins. Ég segi ekki að það sé engin eftirvænting í mér en áhyggjurnar eru yfirsterkari. Ég sé alveg kosti þess að taka mark á hrósi en mér gengur ekkert rosalega vel að trúa því að ég sé alveg að fara að „rúlla þessu upp“. Svo finnst mér líka hálfgerður tvískinnungur að taka mark á hrósi en ætla svo að leiða neikvæð ummæli hjá sér enda þótt ég myndi ráðleggja öllum öðrum einmitt það – svona er maður nú tvöfaldur í roðinu.

Maður ætti að geta verið sjálfum sér samkvæmur og besta leiðin til þess er sú að taka hvorki mark á lofi né lasti. En sú vitneskja breytir því ekki að ég hef (algerlega óþarfar) áhyggjur af því að fólk sem skiptir mig máli hafi óraunhæfar hugmyndir um mig.