Níðst á ljósmæðrum

Á baráttudegi verkalýðsins náði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að toppa sjálfa sig í andstyggilegheitum sínum gagnvart launþegum. Ljósmæðrum er nú tilkynnt að þær „hafi ekki val um hvort þær vinni yfirvinnu eða ekki“.

Þetta er ekki bara með eindæmum ósmekklegt heldur líka rangt. Að sönnu gera starfsmannalög ráð fyrir því að hægt sé að skikka fólk til yfirvinnu sbr. 2. mgr. 17. gr.:

Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma.

Þessi heimild takmarkast þó vitanlega af öðrum lögum, þ.á.m. 68. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um bann við nauðungarvinnu. Meginregla í hverju lýðræðisríki er sú að fólk eigi að njóta frelsis og ráða tíma sínum sjálft og rétturinn til þess að berjast fyrir bættum kjörum er ein af grundvallarstoðum samfélags sem byggir á jöfnuði og frelsi.  Hugmyndin á bak við 17. gr. starfsmannalaga er sú að þegar mikilvægir hagsmunir þjóðarinnar liggi við og ekki sé hægt að tryggja þá með vægari aðgerðum geti verið réttlætanlegt að skikka fólk til að vinna yfirvinnu. Þeir hagsmunir ríkisins að hafa launþega undir hælnum af tómu viljaleysi til að semja um kaup og kjör geta aldrei orðið ríkari en hagsmunir hvers manns af því að ráða frítíma sínum. Það er því ekki lögleg fyrirskipun um starfið að krefjast þess að ljósmæður vinni yfirvinnu heldur er þetta hrein og klár misnotkun á heimild sem er hugsuð sem neyðarráðstöfun.

Þessi misbeiting á ríkisvaldi er sérlega hryggileg í ljósi þess að leiðandi flokkur í ríkisstjórn hefur gefið sig út fyrir að vera kvennabaráttu sérstaklega hliðhollur og fáar stéttir ef nokkur er jafn dæmigerð kvennastrétt og stétt ljósmæðra. Ekki svo að skilja að það komi mér beinlínis á óvart að fá staðfestingu á því að femínismi vinstri grænna er lítið annað en kjötkatlapólitík – en það er jafn ömurlegt fyrir það.