Neyðum stelpur til að vera eins og strákar

kort

Setjum sem svo að í ljós komi að mjög lágt hlutfall fólks yfir fertugu hafi áhuga á rapptónlist. Væri það vandamál? Þyrfti að grípa til sérstakra ráðstafana til að þröngva fólki yfir fertugu til að hlusta á rapp?

Hvað ef kæmi í ljós að fáir Íslendingar hafi ferðast til Ameríku þrátt fyrir að eyða háum fjárhæðum í ferðalög og taka amerískt afþreyingarefni fram yfir evrópskt. Ætti þá að reyna með öllum ráðum að fá fólk til að ferðast til Ameríku?

Getur einhver útskýrt fyrir mér hversvegna það er vandamál að fáar stúlkur hafi áhuga á að taka þátt í nauðaómerkilegum spurningaleikjum? Ég heyri nefnilega af og til umræðu um það hvernig sé hægt að fá fleiri stúlkur til að taka þátt í Gettu betur og nú er umræðan líka farin að snúast um stúlknaskort í Popppunkti. Gekk fram af mér þegar ég sá svar Höllu Sverrisdóttur við þessari færslu Dr. Gunna.  Semsagt, ef stelpur mæta ekki af sjálfsdáðum, þá á bara að hálfþvinga þær í gegnum eitthvert próf sem þær hafa ekki áhuga á að taka. M.ö.o. það á ekki að treysta stúlkum til að meta það sjálfar hvort þær hafi áhuga á að taka þátt í spurningakeppni eða ekki. Á ekki bara líka að neyða þær til að borða grænkál ef þær vilja ekki smakka það? Geta konur yfirhöfuð tekið nokkra ábyrgð á sjálfum sér?

Ég skil reyndar ekki hvaða þörf er á því að fleiri stelpur setji hraðamet í því að spýta út úr sér þekkingu sem gagnast þeim ekkert í daglegu lífi og er hvort sem er aðgengileg á netinu. Ef stúlkur vantar tækifæri til að flíka þekkingu sinni og viðbragðshraða í fjölmiðlum, væri þá ekki nær að spyrja stelpur hvaða fyrirkomulag hugnist þeim og reyna svo að mæta þeim óskum? Og ef fáar stúlkur hafa þessa þörf, væri þá ekki ráð að spyrja þær hvað annað þær gætu hugsað sér að gera við frítímann sinn? Það finnst mér en ég er líka sérdeilis andfeminiskur jafnréttissinni.

Jafnrétti merkir nefnilega að hver og einn fái að blómstra án tillits til kynferðis. Kvenhyggja (feminismi) merkir hinsvegar að kynjamun beri að afmá, jafnvel þótt til þess þurfi að þvinga konur til að líkja eftir körlum og karla til að hegða sér eins og konur.