Misskilningur varðandi endurupptöku Geirfinnsmálsins

Nokkur misskilnings gætir um tilgang þeirra sem krefjast endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Sumir spyrja hver tilgangurinn sé, nú þegar Sævar er látinn og margir láta í ljósi efasemdir um að verði mögulegt að fá nokkurn botn í þessi mál.

Enda þótt Sævar sé fallinn frá, er langt frá því að málið sé þar með dautt. Fjöldi manns á enn um sárt að binda vegna þessara mála. Fjölskylda Sævars og þeir sakborningar sem enn eru á lífi eiga rétt á því að vinnubrögð yfirvalda í rannsókn málanna og fyrir dómi verði rannsökuð og dómarnir endurskoðaðir.

Önnur ástæða til endurupptöku er krafan um að þeir sem beittu ólögmætum rannsóknaraðferðum verði látnir axla ábyrgð á því og sú þriðja er skilaboð til réttarkerfisins um að almenningur í landinu muni ekki umbera þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð.

Eflaust vildu flestir sjá þessi mál til lykta leidd, fá sannleikann um það sem raunverulega gerðist upp á yfirborðið. Það er rétt sem margir segja að sú krafa sé óraunhæf, kannski sé útilokað að komast að því rétta í málinu. En endurupptökukrafan snýst ekkert um hinn endanlega sannleika málsins. Með kröfu um endurupptöku er aðaeins farið fram á að gögn málsins verði endurmetin og skorið úr um það hvort réttlætanlegt hafi verið að sakfella menn á grundvelli játninga sem fengnar voru fram með ólögmætum og ómannúðlegum aðferðum. Þær játningar eru einu almennilegu sönnunargögnin í málinu. Engin lík fundust, ekkert blóð eða annað erfðaefni úr meintum fórnarlömbum, engir hlutir eða yfirhöfuð neitt annað sem bendir til þess að sakborningar hafi nokkurntíma átt neitt saman við þá að sælda.

Vinsamlegast undirritið þessa áskorun, líka þið sem urðuð fyrir barðinu á veskjaþjófum og álítið Sævar og félaga enga kórdrengi. Afbrotamenn eiga nefnilega eins og allir aðrir heimtingu á réttlátri málsmeðferð og þessi undirskriftasöfnun snýst ekki um að gera nokkurn mann að kórdreng, heldur að fá viðurkenningu á rétti manna til þess að vera ekki sakfelldir nema málsgögn bendi til sektar.

Krafan snýst um að sönnunargögnin; játningar sem fengust fram með ofbeldi og voru dregnar til baka fyrir dómi, verði endurmetin. Ekki um það hvað raunverulega gerðist, þótt það væri sannarlega áhugavert.