Misskilningur um anarkisma

Það er algengt að fólk haldi að anarkismi merki engar reglur, að yfirvaldsleysi merki stjórnleysi og að afnám ríkisvalds merki afnám samfélags. Ég þekki engan heilvita mann sem heldur að það sé æskilegt eða einu sinni gerlegt að hafa engar reglur. Þetta er hinsvegar spurning um hvernig á að setja reglur og hvernig á að framfylgja þeim. 

Þótt lýðræði sé meira á Íslandi en í þriðja heiminum hefur samt glögglega komið í ljós á síðustu árum að sum lög þjóna beinlínis hagsmunum stórfyrirtækja og almenningur líður fyrir það. Sjáðu húsnæðismarkaðinn. Fjöldi manns hefur misst heimili sín í hendur bankanna. Á sama tíma hefur leiguverð rokið upp. Hvar er hinn frjálsi markaður?

Frelsið er ekki meira en svo að bankarnir komast upp með að eiga húsnæði sem þeir eru ekki að nota og hafa heldur engar tekjur af. Afleiðingin er sú að þeir halda húsnæðisverði í hámarki. Lögmálið um framboð og eftirspurn er nefnilega ekkert lögmál heldur er því kippt úr sambandi um leið og auðvaldinu hentar. Ef eignarréttur án takmarkana yrði afnuminn væri húsnæðisvandinn úr sögunni og lífskjör láglaunafólks myndu batna.

Það er heldur ekki hægt að reka samfélag án þess að gera ráð fyrir að sumir fari ekki eftir reglunum. Það er hinsvegar óþolandi að löggan komist upp með að skipa fólki fyrir þegar það er ekki að brjóta nein lög og að menn sem hafa farið offari í starfi skuli bara sitja áfram. Það væri hægt að afnema þetta yfirvaldseðli lögreglunnar með því að koma á stofnun sem gæti fyrirfaralaust krafist allra gagna og hafið sjálfstæða rannsókn.