Með veikleikann að vopni

as-usual-there-is-a-great-woman-behind-every-idiot-3

Valdatengsl kynjanna eru áhugavert rannsóknarefni því þau eru sannarlega til staðar þótt feministar gangi full langt í hugmyndum sínum um „kynjakerfið“. Samkvæmt þeim hugmyndum er samfélagið allsherjar samsæri karla gegn konum. Valdatengsl virka auðvitað líka í hina áttina og endurspeglast m.a. í orðatiltækjum á borð við „á bak við hvern mikinn karl er mikil kona“.

download-11Sú hugmynd að konur geti vafið körlum um fingur sér gerir oft lítið úr körlum. Fyrir nokkrum árum vann ég með þverum og einþykkum yfirmanni sem fannst mikilvægt að hafa það á hreinu hver réði.  Einhverju sinni vildi starfsfólkið koma á ákveðinni hagræðingu en talið var ólíklegt að hann tæki vel í hugmyndina. Og þá kom spurningin; „Eva getur þú ekki sjarmerað kallinn?“ Ég var ekki beðin að hafa orð fyrir hópnum, vegna þess að yfirmaðurinn væri líklegur til þess að taka mark á mér (enda hlustaði hann hvorki á mig né strákana) heldur átti ég að blaka augnhárunum og „manipulera“ hann til að láta þetta eftir mér því að ég sem lítil, varnarlaus kona, þyrfti á vernd hans að halda. Og það gerði ég. Og brosti flírulega. Mér hefði þótt betra ef ég hefði getað reiknað með að orð mín hefðu vægi án þessa leikaraskapar en þegar allt kom til alls hafði ég yfirhöndina.

Ég skil mæta vel hvern þann karl sem gnístir tönnum yfir slíkum frásögnum. Þeir hljóta að vera jafn pirraðir á þessari ímynd og ég sjálf á þeim skilaboðum að konur séu ósjálfstæðar en þessi valdatengsl eru nú samt til staðar. Karlar stjórna konum og konur körlum, hvorttveggja í krafti þeirrar hugmyndar að konan sé veikara kynið.

Þótt hið formlegt kynjakerfi sé hvergi til nema í höfðum feminista lifa kynjaímyndir ennþá góðu lífi. Ég hef ekki áhyggjur af bleikum og bláum leikföngum en ég hef hinsvegar áhyggjur af ímyndinni um karlinn sem skúrk og konuna sem fórnarlamb. Ímyndinni um konuna sem getur ekki hugsað, hvað þá skrifað nema með hjálp karlmanns. Ímyndinni af karlinum sem er of mikill þurs til að hlusta á konur en missir bæði vilja sinn og greindarvísitölu umsvifalaust niður í næstu brjóstaskoru sem fyrir honum verður. Þessar ímyndir hjálpa okkur ekkert, um það er ég alveg sammála feministum, en málið er bara að feministar eru alls ekkert að uppræta þessar hugmyndir heldur að staðfesta þær.