Mær um Mey

Íslendingar eru svo lánsamir að njóta leiðsagnar sér viturra fólks í flestum efnum. Þannig hefur blessað yfirvaldið t.d. á að skipa nefnd sérfróðra manna sem hefur þann starfa að hafa vit fyrir sauðmúganum þegar hann gefur börnum sínum nöfn. Það er líka eins gott því ef mannanafnanefndar nyti ekki við má ætla að fólk myndi nota tækifærið til að niðurlægja börnin sín með því að nefna stúlkur Íngismey Flatlús og drengi Jónabdullah Facebook Fiðrildareður.

Þessi var allavega raunin fyrr á öldum á meðan engin mannanefnanefnd hafði vit fyrir heimskingjum. Stjórnlaus lýðurinn tók upp allskyns útlenskar vitleysur. Eftir að þjóðsögur Gyðinga komu út á íslensku varð t.d. gríðarlega vinsælt að nefna börn eftir söguhetjum þeirra og Íslendingar glíma enn við hin skaðlegu áhrif Riddarasagnananna. Sumu tókst að útrýma en enn þykir við hæfi að gefa íslenskum börnum ævintýranöfn á borð við Sara, Marta, Lárus og Kristófer. Hætt er við að með því stjórnleysi sem áður ríkti myndu íslensk börn fá asnaleg nöfn á borð við Apríl og Hannadís.

Mannanafnanefnd kom á sínum tíma blessunarlega í veg fyrir að systurdóttir mín fengi nafnið Villimey. Enda er það engin íslenska. Systur minni var bent á að sækja um nafnið Villmær í staðinn enda væri Villimey, þ.e.a.s. ef nafnið teldist á annað borð hæfa manneskju, beygingarmynd af Villimær.

Þetta var auðvitað hárrétt athugað hjá mannanafnanefnd, mær er nefnifall, mey þolfall. Ég meina hver þekkir ekki ljóðlínurnar:
„Björt mær og hrein
mér unni ein“

Já og eins og hvert mannsbarn veit er mamma Jesúsar (í íslensku beygist Jesús eins og Magnús) oftast kölluð María mær. Það væri þannig hrein og klár móðgun við íslenska nafnahefð að láta fólk komast upp með að nota aðra beygingarmynd sem nefnifall mannsnafns.

Systir mín maldaði í móinn en hún hafði náttúrulega ekkert vit á nöfnum og niðurstaðan varð sú að hún sætti þessari kærleiksþjónstu mannanafnanefndar með takmörkuðu þakklæti og telpan var látin heita því alíslenska nafni Lena.

Ég ætla nú rétt að vona að yfirvaldið haldi áfram að hafa vit fyrir fólki sem vill láta börn sín heita asnalegum nöfnum. Þó þætti mér við hæfi að leyfa nafnið Mær. Mér þætti nefnilega ömurlegt ef synir mínir mættu láta börn sín heita Ara Fróða og Þorlák Helga en ekki Maríu Mey. Ég gæti m.a.s. trúað að það stríði gegn janfréttislögum.

1 thought on “Mær um Mey

 1. ——————————————

  Ég las fyrir meira en 20 árum umfjöllun um þetta í Þjóðviljanum. Þar kom fram að Baltasar Samper vildi heita Egill Skallagrímsson en fékk það ekki. Hinsvegar voru ýmis nöfn samþykkt eins og Sigríður Panamaskurða sem var getin á skipsfjöl í þeim skurði. Tvíburasysturnar Æska og Elli máttu heita það og fleira stórmerkilegt. Ripley var nýlega samþykkt þar sem Laufey og Draumey eru þegar leyfð.

  Posted by: Valdís | 7.10.2011 | 16:17:24

  ——————————————

  Góð, en samt setjum samt sem svo að einhver skíri barnið sitt Íngismær Flatlús. Á þá bara að leyfa það?

  Posted by: Stebbinn | 7.10.2011 | 16:17:33

  ——————————————

  Það á ekkert að þurfa að leyfa eða banna, það á bara að leggja þessa nefnd niður, allavega sem úrskurðarvalds.

  Það gilda barnaverndarlög í landinu og sjálfsagt að grípa inn í ef fólk niðurlægir börnin sín. Það þarf ekkert að banna fólki sérstaklega að láta börnin sín ganga með asnaeyru, við bara gerum þá kröfu til foreldra að þeir hafi sómakennd.

  Posted by: Eva | 7.10.2011 | 16:36:45

  ——————————————

  Valdís: Ertu með einhverjar heimildir um þessa Sigríði? Nú er engin ‘Panamaskurða’ eða ‘Panamaskurður’ í Íslendingabók, og netið finnur ekkert handa mér :/

  Posted by: Tinna | 8.10.2011 | 13:55:55

  ——————————————

  Það er engin Sigríður Panamaskurða í Íslendingabók. I call bs.

  Posted by: Tinna | 8.10.2011 | 14:12:36

  ——————————————

  Fyrstu kynni mín af því að skýra börn eftir getnaðarstað voru (eins og örugglega hjá mörgum jafnöldrum) þegar Douglas Adams notaði það sem brandara í „So long and thanks for all the fish“. Hún Fenchurch, ástin í lífi Arthurs Dent er sumsé skírð þannig, en Fenchurch ku vera lestarstöð. Foreldrarnir gefa þá skýringu að það sé með ólíkindum hvað sé leiðinlegt í biðröðinni stundum.

  Mær og mey pælingin þín er hinsvegar rothögg, Eva. Ef sérfræðingarnir og lögin eru svona glórulaus er tvímælalaust betra að reka þá og afnema þau.

  Posted by: Toggi | 8.10.2011 | 14:45:07

  ——————————————

  Ég fann greinarnar í Þjóðviljanum, mjög skemmtilegar, hér er tengillin á þá seinni, nóg að smella svo á viku fyrr í dagatalinu til hliðar. Ekker er minnst á Panama, ef mér skjöplast ekki: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=225905&pageId=2921957&lang=is&q=Baltasar%20Egill%20Skallagr%EDmsson

  Posted by: Kristín | 9.10.2011 | 2:02:24

  ——————————————

  Hér er betri tengill, og sést að Davíð Oddsson var kallaður Beysi, í æsku, gaman að því: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2922031

  Posted by: Kristín | 9.10.2011 | 4:39:31

  ——————————————

  Sammála, starfsemi mannanafnanefndar er mannréttindabrot.

  Posted by: Birnuson | 14.10.2011 | 19:55:03

  ——————————————

  Hér er skrítlan um Sigríði Panamaskurðu:
  http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1329558

  Posted by: Birnuson | 14.10.2011 | 19:57:50

Lokað er á athugasemdir.