Lýst eftir vitnum

mbl.is Mótmælt á Austurvelli

Æ Hörður

 Mikið tala menn þessa dagana um friðsamleg mótmæli og eiga þá venjulega við fundi þar sem fámennur hópur skipuleggur dagskrá og setur fjölanum reglur um það hvernig hann eigi að hugsa og hegða sér. Þeir sem ganga lengra en að klappa á réttum stöðum og hugsanlega halda ræðu þar sem réttar skoðanir eru settar fram af ákveðni, sem þó er ekki fylgt eftir með gjörðum, eru þar með andstæðingar hinna friðsömu.

Aðgerðasinnar, fólkið sem trúir því ekki að árangur náist með því að horfa á Alþingishúsið eða skamma ráðamenn í fjarveru þeirra, fólkið sem hefur hugrekki og frumkvæði til að raska ró þeirra sem verið er að mótmæla, hljóta þar með að vera ófriðarsinnar og ofbeldismenn. Tekið skal fram að aldrei hafa aðgerðasinnar fordæmt hefðbundna mótmælafundi, heldur mæta þeir í stórum hópum á Austurvöll á laugardögum, þrátt fyrir að þar sé ekkert nýtt að heyra, til þess eins að sýna samstöðu. Það er hálf sorglegt að talsmaður fjöldans skuli hafa það í sér að fordæma aðgerðir annarra, ég hefði haldið að það ætti bara að vera nóg fyrir hann að reyna að stjórna 7000 manns sem vilja láta stjórna sér og láta þessar 300 hræður, sem vilja það ekki, í friði.

Ég hef ríflega 40 ára reynslu af því að vera jaðarmanneskja. Eða eins og margir myndu kalla það ‘öfgamaður’, ‘geðsjúklingur’ eða ‘stór furðuleg’. Það er auðvitað ekkert normalt við það að spyrja óþægilegra spurninga eða gera það sem aðrir láta sér nægja að hugsa. Ég get alveg fullvissað ykkur um að það getur tekið á taugarnar að hafa skoðanir sem meðaljóninn hefur ekki velt fyrir sér og athyglin sem undarleg viðhorf og uppátæki hafa í för með sér getur bæði orðið óþægileg og eins er hætt við að sérstakur karakter fái meiri athygli en skoðanir hans og gjörðir.

Ástæðurnar fyrir því að margir aðgerðasinnar hylja andlit sitt við mótmælaaðgerðir eru tvær:

  1. Þeir vilja ekki persónugera skoðanir eða aðgerðir. Þeir vilja ekki að fólk líti á þá sem leiðtoga eða hlusti ekki á það sem þeir hafa að segja af því að þeir séu ekki í réttum búningi. Þeir vilja líka vera lausir við bögg eins og hótunarsímtöl og rúðubrot.
  2. Þeir vilja geta ögrað ramma laganna í baráttu sinni gegn valdhöfum sem hafa allan rétt sín megin, hversu illa sem þeir misbeita valdi sínu, án þess að það leiði í öllum tilvikum til þess að þeir verði handteknir og hugsanlega barðir.

Nú reynir sá góði maður Hörður Torfason að fá aðgerðasinna sem bera grímur til að taka þær niður. Ég veit að það er af góðum hug. Hörður er að reyna að afla sinni ópólitísku byltingu (hvað sem það nú er; nýtt fyrirbæri í mannkynssögunni) fjöldafylgis, og hann telur að meintir ofbeldismenn hindri fólk í að lufsast niður á Austurvöll til að hlusta á endalaust tilbrigði við sömu ræðuna.

Ég segi nú bara, ef fólk er svo hrætt við almenningsálitið að það getur ekki látið sjá sig á Austurvelli af ótta við að einhver haldi að það sé sérlegir stuðningsmenn grjótkasts og skemmdarverka, þá er lítið gagn í því að hafa slíkt fólk í liði með sér. En ég hef náttúrulega aðra sýn á pólitík en Hörður, og ég hef ekki trú á því að fólk sem er svo vitlaust að halda sig heima á þeirri forsendu, kjósi yfir okkur hæft fólk og skynsamlega stjórnarhætti hvort sem er. Mig grunar líka að Hörður hafi orðið fyrir miklu skítkasti vegna aðgerða aktivista og jafnvel vegna þessa steins sem á að hafa lostið lögreglumann á gamlaársdag og sé að reyna að bregðast við af ‘ábyrgð’.

Annar augljós hvati að ósk Harðar er ótti um að eftir því sem fleiri bera grímu, því auðveldara verði að fremja ofbeldisglæpi og komast upp með það. Ég skil þann ótta en rökin eru slæm. Þetta er alveg eins og að segja að menn ættu ekki að aka mótorhjólum með hjálm á hausnum af því að þá geti glæpamenn sem einnig eru á hjólum blandað sér í hóp þeirra og framið glæpi í skjóli búningsins.

Hörður er ekki, frekar en ég, þú eða nokkur annar einstaklingur, fulltrúi þjóðarinnar. Fólk sem stendur í pólitísku andófi er ekki ráðið eða kjörið til þess. Mótmælendur eru ekki fulltrúar neins nema sjálfs sín og bera ekki ábyrgð á neinum nema sjálfum sér. Hörður Torfason hefur ekkert vald yfir öðru fólki og þ.a.l. ber hann enga ábyrgð á hegðun þess heldur. Hörður Torfason getur ekki gefið skipanir, og því getur hann ekki komið í veg fyrir að óeirðir brjótist út, hversu mikið sem hann finnur til ábyrgðarkenndar.

Hörður hefur sennilega ekki hugsað út í það að um leið og hann biður aðgerðasinna að taka niður grímuna, er hann að biðja þá að setja sjálfa sig í þá aðstöðu að geta aldrei tekið áhættu á að vera einir á ferð í myrki. Hann hugsar líklega ekki út í það að grímulausir aktivistar geta þurft að leyna dvalarstað sínum og símanúmeri. Mér finnst það með ólíkindum þar sem ég veit að Hörður sjálfur, sem þó hefur ekki gengið fram af nokkrum manni með harklegum aðgerðum eða öfgakenndum skoðunum, hefur oft orðið fyrir ónæði af völdum vitleysinga.

Hörður hefur sennilega ekki hugsað út í það heldur að eftir því sem aðgerðir verða róttækari, því eðlilegri verður hugmyndin um að standa með skilti á Austurvelli (ja eða regnhlíf) en það er ekki langt síðan það þótti bara kjánalegt.

Aðgerðasinnar munu ekki taka niður grímurnar. Það er engin ástæða til þess. Þvert á móti ættu allir sem styðja aðgerðir þeirra að verða sér úti um dökka peysu og góðan klút eða lambhússhettu til að bera á mótmælum, bara til að sýna samstöðu, enda þótt þeir ætli sér ekki að gera neitt sem gæti verið á gráu svæði.

Annars langar mig að lýsa eftir vitnum og sönnunum fyrir atriðum sem mér finnst undarlegt hvað lítið heyrist um.

Voru einhver vitni að því þegar mótmælendur við Hótel Borg veittust að hagfræðingi Seðlabankans og bróður hans á gamlaársdag?

Eru til einhverjar myndir af öllu þessu slasaða starfsfólki Stöðvar 2 sem Sigmundur Ernir talaði um? Eða var það kannski jafn mikið slasað og myndavélarnar?

Sá einhver mann eða konu kasta múrsteini í andlit lögreglumanns? Eru til myndir af því atviki? Eru til myndir af áverkanum?

Ég tek fram að ég hef samúð með hverjum þeim sem verður fyrir líkamsárás og aldrei hef ég mælt grjókasti bót. En mér finnst einkennilegt hvað lítið hefur heyrst um þetta mál og að mér læðist sá grunur að fleira hangi á spýtunni.

Er hugsanlegt að grjótkastið tengist pólitík ekkert eða lítið? Átti grjótkastarinn eitthvað sökótt við umræddan lögreglumann (ekki svo að skilja að það réttlæti neitt, ég er bara að leita skýringa)? Veit löggan eða einhver fjölmiðlamaður hver kastaði steininum en hefur hagsmuni af því að halda því leyndu? Var múrsteinninn moldarköggull? Mig langar mikið að vita þetta allt.

 

One thought on “Lýst eftir vitnum

  1. ——————————————————————————-

    Eins og þú lýsir þér sjálfri ertu óstabil. Og ef það er eitthvað sem við þurfum íslendingar þá er það stabilitet. Með fullri virðingu fyrir þér þá finnst mér þú ótrúverðug. Sé ekki að aðferðafræði þín eða þinna séu að virka.

    Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 21:55

    —————————————————

    Ég hef aldrei lýst sjálfri mér sem óstapilli, enda er ég ákaflega samkvæm sjálfri mér. Ég hef hinsvegar skoðanir sem miðjumoðarar eiga oft erfitt með að kyngja.

    Fólk sem segir sannleikann þykir ekki trúverðugt, allra síst þegar sá sannleikur er umbúðalaus. Dæmi um fólk sem þykir trúverðugt, svo trúverðugt að því hefur verið treyst fyrir æðstu embættum landsins eru t.d. Geir Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Árni Matt.

    Eva Hauksdóttir, 3.1.2009 kl. 22:01

    —————————————————

    Hérna…  Hallgerður, hvar lýsir Eva sér sem óstabili??? Og af hverju finnst þér hún ótrúverðug? Bara smá forvitni í mér 

    Hvað hefurðu líka fyrir þér í því að aðferðafræði þeirra sé ekki að virka??? Ég er bara ekki alveg  með á nótunum hérna 

    Hulla Dan, 3.1.2009 kl. 22:03

    —————————————————

    ´Hvað er að vera góður mótmælandi…..Hvað skiptir máli í mótmælum….jú að þau hafi áhrif. Áhrifaríkustu mótmælin fram að þessu eru mótmælin við Hótel Borg. Þar hafa því verið að verki góðir mótmælendur.

    Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 22:07

    —————————————————

    Já ég er „kind of“ sammála þér Eva. Fundirnir við Austurvöll eru að verða full einhæfir.

    Vissulega á Hörður Torfason heiður skilinn fyrir frumkvæðið. En það virkar ekki vel til lengdar að mæta, klappa og þegja til skiptis. Auðvellt að sitja það af sér.

    hilmar jónsson, 3.1.2009 kl. 22:08

    —————————————————

    Eva, þakka þér fyrir þennan góða og umhugsunarverða pistil.María Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 22:28

    —————————————————

    Gallinn við Hörð er aðallega sá að hann hefur nákvæmlega enga SÝN. Hann steytir hnefann og heimtar burtrekstur. Hann markar enga stefnu, skapar enga nýja sýn. Eva hefur heldur engin áhrif að öðru leyti en því að í sjálfu sér má líta á hana og allt hennar dót sem einn allsherjar listrænan gjörning – eða conceptlist, vilji menn vera flottir á því. Nú hefði verið gott ef við ættum leiðtoga sem brygði upp fyrir okkur framtíðarsýn til að sameina þjóðina. Því er ekki að heilsa.

    Baldur Hermannsson, 3.1.2009 kl. 22:33

    —————————————————

    Baldur, er það Harðar að marka stefnu og skapa nýja sýn ?. Afrek Harðar felst fyrst og fremst í því að hann hefur náð að þjappa fólki saman, og sýna því fram á að samtakamáttur þess má sín einhvers. Þar á eftir er það væntanlega undir okkur komið hvaða sýn og stefnu við viljum til framtíðar..

    hilmar jónsson, 3.1.2009 kl. 22:56

    —————————————————

    Sæl Eva,

    árásirnar á þitt fyrirtæki fordæmi ég og þær valda mér kvíða yfir framtíðinni.

    Að Hörður skyldi minnast á andlitshulurnar í dag voru mistök hjá honum. Við skulum reyna að gera sem minnst úr því í bili til að valda ekki sundrung. Hingað til hef ég verið hreinræktaður smáborgari. Þar sem konan var veik á gamlársdag komst ég ekki á mótmælin, er það ekki hámark smáborgaraháttseminnar? Aftur á móti hef ég verið virkur í Borgarfundunum. Þar hef ég ekki falið andlit mitt. Fengið einstak háðsglósur en fengið miklu meir af hrósi og jákvæðum viðbrögðum.Þeir sem hylja andlit sitt fara á mis við allt hrósið, því finnst mér meðal annars að menn eigi ekki að hylja andlit sitt. Þar að auki fylgir því stolt að mótmæla og sýna andlit sitt. Því mæli ég með því að mæta á mótmæli með andlitið líka. Ef þú sínir andlitið þá færðu örugglega fleiri til liðs við þig.

    Að gjaldfella laugardagsmótmæli Harðar sem samkomur eða eitthvað slíkt eru mistök. Í skóli þess afls sem þau mótmæli veita hefur öðrum gengið betur að mótmæla. Það hefðu aldrei mætt svona margir á gamlársdag ef ekki væru fyrir hans mótmæli. Laugardagarnir hafa á vissan hátt lögleitt mótmæli, það er í lagi að mótmæla. Eftirköst gamlársdagsins hefðu aldrei verið jafn jákvæð ef ekki væri fyrir laugardagsmótmælin. Í raun er hans brautryðjendastarf í mótmælum gegn ástandinu forsenda annarra sem mótmæla.

    Þegar sumir tala um sömu ræður aftur og aftur og stefnuleysi og skort á sýn hjá Herði er greinilega um að ræða vissa óskhyggju og kröfu um að hlutirnir séu matreiddir ofaní okkur. Hörður hefur í sjálfu sér nóg með sitt. Ef einhverjir vilja skapa flokk eða stefnu þá geri þeir það bara, gjöri svo vel.

    Að lokum, ef þú lest Gúttóslaginn þá þarft þú ekki að hafa áhyggjur af aktivistum þegar fólk mun ekki eiga fyrir salt í grautinn.

    Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2009 kl. 23:42

    —————————————————

    Hilmar Jónsson, þú segir: „Afrek Harðar felst fyrst og fremst í því að hann hefur náð að þjappa fólki saman, og sýna því fram á að samtakamáttur þess má sín einhvers. “

    Hörður hefur engan veginn sýnt fram á að samtakamáttur fáeinna manna undir hans forystu megi sín einhvers. Hreint út sagt – hann hefur nákvæmlegu engu áorkað.

    Baldur Hermannsson, 3.1.2009 kl. 23:53

    —————————————————

    Æ Gunnar, ég er búin að tyggja það svo oft að ég er eiginlega komin með ógeð; aðgerðasinnar eru ekki að reyna að afla sér fjöldafylgis. Það er ekki okkar hlutverk, enda erum við ekki stjórnmálaflokkur.

    Það skortir ekkert á stolt aktivista eftir vel heppnaða aðgerð. Maður þarf ekki að sýna andlit sitt til að vera stoltur. Ég hef heldur ekki orðið þess vör að skortur á hrósi hafi dregið úr tíðni eða krafti aðgerða. EINA ástæðan fyrir því að sýna andlit sitt í pólitískum aðgerðum er sú að þóknast hugmyndum smáborgarans um eðlilega hegðun.

    Ég er Herði Torfasyni þakklát fyrir laugardagsfundina, þeir henta vel til að efla samkenndina, en þeir eru bara ekki nóg.

    Eva Hauksdóttir, 3.1.2009 kl. 23:54

    —————————————————

    Það er sorglegast í þessu öllu að þeir sem í raun hafa sameiginlegan málstað skuli nú vera komnir í hár saman vegna aðferðafræði.

    Nú ganga brigslyrði um „okkur“ og „hina“. Eva talar eins og aktívistarnir sem beita „beinu aðgerðunum“ séu á einhvern hátt betri eða sannari mótmælendur en „meðalmennin“ sem vilja „þegja og klappa til skiptis“ svon ég vitni beint í hennar orð.

    Þetta er ekki til samstöðu fallið.

    Ólína Þorvarðardóttir, 3.1.2009 kl. 23:55

    —————————————————

    Samstöðu um hvað Ólína ?hilmar jónsson, 4.1.2009 kl. 00:00

    —————————————————

    Ólína, mér finnst Hörður fyrst og fremst hundleiðinlegur, sjálfhverfur sperrileggur, þá hef ég meiri samúð með Evu og þessum aðgerðasinnum eins og þeir kalla sig, þeirra sprengikraftur kemur allur innan frá – en samúð minni lýkur samstundis þegar þeir byrja að meiða fólk. Þá segi ég: í steininn með þá.Baldur Hermannsson, 4.1.2009 kl. 00:03

    —————————————————

    Aktivistar eru ekki betra fólk en hver annar, líklega erum við töluvert verri, en aðferðir okkar skila árangri og það hlýtur að vera tilgangurinn með mótmælaaðgerðum.Eva Hauksdóttir, 4.1.2009 kl. 00:03

    —————————————————

    Ólína, ég held að þú sért að misskilja.

    Eva er ekki að segja að Hörður eigi að hætta.  Hún vill hinsvegar að Hörður sýni aktivistum þá virðingu að skipta sér ekki af því hvort þau mótmæla með grímur eða ekki.  Eftir árás þrjár nætur í röð á Nornabúðina skil ég alla þá sem mæta á mótmæli með grímur.

    Aktivistar skipta sér ekki af því hvernig Hörður mótmælir.  Þeim finnst bara að það þurfi að gera meira en að standa á Austurvelli og það sem meira er.. þaugera meira í stað þess að væla yfir af hverju engin annar gerir það.

    Við erum öll í sömu súpunni.  Gerum þetta bara allt!  Með eða án grímu.  Mótmælum á alla mögulega vegu og fólk staðsetur sig þar sem því líður best – hjá Herði ef það vill passíf mótmæli, hjá aktivistum ef það vill action. Það er engin sem bannar fólki að skunda einhvert með skilti uppúr þurru ef það hefur áhuga á því, þarf ekki aktivistahreyfingu til!

    Þetta er einfalt og það þarf ekkert að rífast um þetta.

    Kjarni málsins er: ef þú vilt þessa stjórn í burtu og ef þú vilt einhverjar breytingar, taktu þá þátt.

    Rakel (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 00:36

    —————————————————

    Mig langar að bæta einni spurningu í safnið þitt Eva.

    Hún brennur á mér og er svona í nokkrum liðum.

    Getur einhver sýnt það og sannað að einhverjir „hettuklæddir hryðjuverkamenn“ hafi komið í veg fyrir að Geir Harði skyldi komast að gnægtaborði Sigmundar Ernis í Kryddsíldarþættinum súra á gamlársdag?

    Sá þetta einhver eða myndaði?

    Kom karlálftin á staðinn og þorði ekki í „krakkahelvítisskrílinn“ ?

    Voru það kannski „kommúnistadrullusokkar“ sem hótuðu honum?

    Eða voru það Seðlabankahagfræðingar og svæfingarlæknar á Lansanum sem vildu kemba svæðið fyrir hann fyrst og leist ekki á blikuna??

    Sjálfa grunar mig að hann hafi bara verið að Haardera í áramótaræðuupptökunni viljandi og viljað koma Sollu sinni í smá smjörklípu í leiðinni.

    Guggan (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 00:55

    —————————————————

    Sæl Eva,

    takk fyrir að svara athugasemd minni. Þú verður að að gera þér grein fyrir að fólk er að koma inn í mótmælin á öllum tímum og á öllum aldri. Það er ekki sjálfgefið að allir þekki sögu mótmæla og aktivista jafn vel og þú. Því skaltu forðast að tala um að þú fáir ógeð við að boða málstað þinn.

    Ég tel enn að við búum ekki í lögregluríki og því tel ég það vænlegra til árangurs að sýna andlit sitt, sorry, þetta er bara mín skoðun.

    Gunnar Skúli Ármannsson, 4.1.2009 kl. 01:14

    —————————————————

    „Ég tel enn að við búum ekki í lögregluríki […]“ Þarna er hundurinn grafinn; þú trúir því að lögreglan fari að lögum, en misnoti ekki vald sitt og búning. Því miður, þá búum við hér við meira „lögregluríki“ en fólk gerir sér grein fyrir. Ég styð hvern þann aðgerðarsinna sem vill hylja andlit sitt – og skil vel ástæðurnar sem þar liggja að baki. Bæði gagnvart lögreglu og almenningi.Skorrdal (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 03:45—————————————————

    Neibb, sá ekki neitt af þessu sem þú nefnir. Sérstaklega Klemenssynina. Það var enginn sem ógnaði þeim en þeir fóru froðufellandi í gegnum mannfjöldann. Eina sem fólk notaði voru pirringsorð í þeirra garð.Ari (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 04:20—————————————————

    Ég tel að öll mótmæli séu af hinu góða og sértaklega þegar ráðamenn finna fyrir þeim á eigin skinni.

    Það væri ekki svo vitlaus hugmynd að halda vöku fyrir ráðamönnum með því að keyra framhjá húsinu þeirra um miðjar nætur að óþörfu og flauta fyrir utan eða gefa hraustlega inn.

    Kveðja Skattborgari.

    Skattborgari, 4.1.2009 kl. 04:38

    —————————————————

    Skorrdal.

    Í 15. gr. lögreglulaga segir m.a.    Ef uggvænt þykir að óspektir verði á mótmælafundi, í kröfugöngu eða á annarri slíkri samkomu á opinberum stað er lögreglu heimilt að banna að maður breyti andliti sínu eða hylji það eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar sem er til þess fallið að koma í veg fyrir að kennsl verði borin á hann.

    Við búum ekki í meira lögregluríki en svo að lögreglan sé farin að banna grímurnar.  Við gætum reyndar séð það fljótlega því að þeir sem bera grímurnar eru oftast nær að valda mestum spjöllunum.

    Hin Hliðin, 4.1.2009 kl. 06:51

    Takk fyrir ágæta umræðu. Rakel kemur með áhugaverðan punkt. Fólk þarf nenfilega ekki að bíða eftir að einhver annar geri eitthvað eða safna í kringum sig hópi. Skiltamaðurinn sem hefur dag eftir dag staðið fyrir utan Landsbankann er gott dæmi um mann sem hefur frumkvæði og hugrekki til að drífa bara í hlutunum. Ég mæli með því að hver sem hefur áhuga á táknrænum, fullkomlega friðsömum aðgerðum, setji sig í samband við hann því hann hefur ekki bara helling af hugmyndum heldur líka drifkraft til framkvæmda.Eva Hauksdóttir, 4.1.2009 kl. 12:08—————————————————

    Sagan mun dæma þig, og annað hvort verður þú hetja eða skúrkur. Það hefði nú verið svolítið skondið að sjá Hörð Torfa koma úr felum með hulið andlit, hefði ekki gengið upp. það er alveg hreint hellingur af fólki á íslandi sem kýs að leyna heimilisfangi sínu og símanúmeri, ekkert nýtt það. Og það að reyna að sanfæra mig eða okkur að það sé í lagi að brjóta sumar rúður enn ekki aðrar sé ok gengur bara ekki upp, og að kanski hafi steinnin sem hent var í löggunna og slasaði smá bara verið mold! það er reyndar fínt fyrir löggunna að þið viljið ekki vera Með Herði Torfa og viljið ekki láta þekkja ykkur að þá verður auðveldara fyrir þá að þekkja ykkur út úr hópnum, allir með grímu, sítrónu og mjólk. ég ætla ekki að dæma þig en langar til að myndgera skoðun mína á þér. Ef þú værir bóndi þá værir þú úti á túni að toga upp grasið, bara af því þú getur ekki beðið eftir því að það vaxi.

    Kær kveðja.

    Benedikt Jónnso (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 13:47

    —————————————————

      Þetta er áhugaverð umræða og örugglega þörf að vissu leyti þó hún taki á. Mín afstaða er lík Ólínu og Gunnars Skúla og þá sérstaklega vegna þess að með því að dulbúa sig við mótmæli er kominn farvegur fyrir þá sem vilja eyðileggja og skapa uppnám og fordæmingu (eins og t.d Ólafur Klemenzon ofl.) að mæta með grímur eða annað sem dulbýr þá og etja fólki á mótmælum móti hvort öðru með ýmsum hætti. Ég styð ekki slíkt. Mér fannst svolítið áhugavert á mótmælunum í gær að þar var saman kominn hópur stráka milli tvítugs og þrítugs sem greinilega höfðu verið á fylleríi saman og ætluðu að vera rosalega sniðugir. Þeir mættu með voðalega aumingjalegt og illa skrifað skilti sem á stóð Hættið þessu væli! (beint til mótmælenda) og svo hinum megin – áfram Geir!

    Fólkið var ekki að fjargviðrast yfir þessu horfði með glotti á spjátrungana sem smám saman létu sig hverfa skömmustulega úr þvögunni (þetta var bara greinilega ekki alveg að virka hjá þeim blessuðum!) Ef hinsvegar að mótmælendur hefðu í blindri reiði ráðist að þeim – er mjög líklegt að uppistandið hefði vakið athygli – neikvæða athygli!

    Anna Karlsdóttir, 4.1.2009 kl. 15:01

    —————————————————

    Eva:Það er gaman að sjá hvað þú vekur sterk viðbrögð. Það þarf sterk bein til að vera í framvarðarsveit í hvaða baráttu sem er. Mér finnst þú standa þig vel. Vona að baráttan fari samt ekki útí einhverja vitleysu. Það er engin þörf á byltingu á Íslandi í dag þó vissulega sé þörf á gjörbreytingu.

    Frábært að sjá að Gunnar Skúli sé virkur pólitískur aktívisti. Verst að vera svona illa landfræðilega staðsettur, annars hefði ég gjarna komið með þér á fundi félagi.

    Ólína: Við sem munum hvernig vinstrimenn skipuðu sér flokka og að lokum í örfylkingar vegna ágreinings um leiðir að sameiginlegu markmiði sjáum bara söguna endurtaka sig. Því miður!

    Baldur: Af hverju fer Hörður Torfa svona í pirrurnar á þér? Mér finnst hann bara ágætur í þessu hlutverki kallinn. Þó mætti hann gjarna taka fram gítarinn oftar og kyrja baráttusöngva.

    Ásgeir Rúnar Helgason, 4.1.2009 kl. 16:36

    —————————————————

      Anna,

    ég skil ekki alveg hvaða ályktanir þú ert að draga. Heldurðu að þeir hefðu verið barðir ef fólk hefði verið á mótmælunum með grímur? Það *var* fullt af fólki þarna með grímur og enginn barinn. Þegar Ólafur Klemenz gekk fram með hótunum var honum ekki svarað með ofbeldi heldur sagt að drulla sér burt. Það var fullt af grímuklæddum mótmælendum í nágrenninu.

    Það er viss hætta á að fólk fari í fölsku yfirskini meðal mótmælenda og stuðli að ofbeldi, en fólk þekkir hvort annað þrátt fyrir grímurnar. Það er ekki jafnauðvelt að hleypa upp aðgerðum og maður gæti ímyndað sér. Ég hef séð mótmælendur tala niður bálreitt fólk, sem var að fara að gera eitthvað sem það hefði séð eftir, og hefði vafalaust skaðað málstaðinn.

    Nonni, 4.1.2009 kl. 16:44

    —————————————————

    Ég tók upp slatta af efni og  hef sett það saman í vídeó. Á einum stað má sjá tryllta aðgerðarsinna beygja sig eftir einhverju (mold?) fyrir framan hið svonefnda öryggishlið og kasta inn í portið. Þetta var eftir að löggan hafði rýmt portið og gusað piparúða á liðið. Sjá hérna http://www.esjan.net/kryddsild/ogongur/ogongur.html

    Annars er ég hinn eini sanni þolandi ofbeldishótana svartálfaliðsins  meðal vegfarnenda eins og ég hef lýst í blogginu Skríllinn mun eiga síðasta orðið

    Hérna er mynd af  fólkinu  sem jós yfir mig fúkkyrðum og hótaði að rífa af mér myndavélina og hæddist að mér á ýmsan hátt – aðallega af því fólkið virtist tengja mig við bróður minn og fannst ég tjá mig eitthvað öðruvísi en það vildi á minni „viðbjóðslegu vefsíðu“ svo notað sé það orðalag sem fólkið hreytti í mig. Ég átta mig ekki alveg á því hver var tilgangurinn með þessari uppákomu. Þetta var alla vega mjög lítilsvirðandi og frekar óþægilegt. Ég held nú reyndar alveg mínu striki í minni tegund af aktívisma þó ég verði fyrir svona aðkasti.

    Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.1.2009 kl. 00:14

    —————————————————

    Ég hef verið í svartálfaliðinu eins og þú kýst að kalla það, og mér finnst mjög leiðinlegt að heyra þetta Salvör. Mér finnst þú svo sem ekkert hafa verið neitt sérlega jákvæð í garð þeirra sem gera annað en að halda á skiltum á blogginu þínu, en mér finnst það ekki afsaka þessa framkomu. Það er alveg á hreinu að bróðir þinn á ekki upp á pallborðið hjá þeim sem mótmæla og ég get mér þess til að fólk hafi verið nojað yfir að láta taka mynd af sér eftir aðför lögreglu og einhverjir vírar skollið saman 🙁  Ég hefði örugglega ekkert heldur viljað láta taka svona nærmynd af mér þó ég voni að ég hefði brugðist öðruvísi við.

    Nonni, 5.1.2009 kl. 00:44

    —————————————————

    Mér þykir leitt ef þú hefur orðið fyrir óverðskulduðum dónaskap Salvör.

    Ég gafst nú upp á því að skoða þetta band sem þú tengir á á esjunni, það ætlar  bara ekkert að hlaðast upp en á blogginu þínu fann ég myndband sem ég held að sé bútur úr þessu.

    Og þar sést já, mikið rétt, maður henda einhverju. Hvort það er múrsteinn, mold, vettlingur eða eitthvað annað, það treysti ég mér ekki til að segja um.  Nema hvað, þessi maður er bara alls ekkert með neina grímu.

    Getur verið að það séu ekki ‘svartálfarnir’ sem eru líklegastir til ofbeldisverka?

    Eva Hauksdóttir, 5.1.2009 kl. 02:00

    —————————————————

    Eva þú finnur slatta af upplýsingum um þá bræður og þá sem urðu fyrir aðkasti á bloggi sem var tengt við fréttina. Gunnar setti beina linka í það sem hann vissi um inn á http://truth.is/?p=870

    Birgitta Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 05:48 

Lokað er á athugasemdir.