Lýðræðishúmbúkk

kosningar

Margir líta á kjördag sem einhverskonar hátíð. Voða spenntir og jafnvel í sparifötum.

Ég er alltaf sjóðandi af reiði á kjördag. Kjördagur er dagurinn þegar þorri almúgans gleypir við þeirri villukenningu að hann hafi áhrif á það hvaða ákvarðanir eru teknar.

Þetta svokallaða lýðræði okkar er húmbúkk. Kosningar snúast ekki um málefni eða traust kjósenda heldur um sölumennsku. Það er hægt að selja kjósendum hvaða fávitagang sem er, ef frambjóðandinn hefur efni á því að ráða nógu snjalla sölumenn.

Ég þekki dæmi um fjármálaráðgjafa sem eru með allt niður um sig í fjármálum, sölumenn sem hafa aldrei notað vörurnar sem þeir selja öðrum og stjórnmálamenn sem kunna ekki einföldustu félagsfræðihugtök. Maður þarf ekki að hafa hundsvit á því sem maður selur, maður þarf heldur ekki að hafa neina trú á því. Maður þarf bara að vera sæmilegur lygari.

Við getum ekki einu sinni treyst því að þeir sem selja okkur pólitíska sannfæringu, þennan eina dag á tveggja ára fresti, hafi þessa sömu sannfæringu sjálfir. Það eina sem við getum verið viss um er að flestir hafa ekki hundaskítsáhuga á merkilegra lýðræði en því að fá að setja einn kross á blað. Á fjögurra ára fresti fyrir sveitarstjórnarmálin. Á fjögurra ára fresti fyrir landsmálin.

Kátínu minni yfir þeim stórfenglegu mannréttindum er stórlega ábótavant.