Löggan átti ekkert með að fjarlægja Ástþór

Mér skilst að lögreglan hafi fjarlægt Ástþór og föruneyti hans. Þeir áttu auðvitað ekkert með það. Ástþór hefur alveg sama rétt á að mótmæla og annað fólk og hann má alveg ráða því hvar og hvenær. Að vísu var bæði bjánalegt og ósmekklegt af honum að velja þessa stund og þennan stað en lögreglan átti samt ekkert með að fjarlægja hann.

Ég skil lögguna alveg því ef þeir hefðu ekki stöðvað þessa uppákomu hefðu mótmælendur gert það og hugsanlega hefði komið til átaka. En löggan hafði samt ekki neinn rétt til þess að skipta sér af þessu. Reyndar, ef þeir væru sjálfum sér samkvæmir, hefðu þeir átt að sjá til þess að Ásþór fengi að halda sinn fund óáreittur. Og þá hefði nú aldeilis orðið líf í tuskunum.

mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli

One thought on “Löggan átti ekkert með að fjarlægja Ástþór

  1. ———————————————————–

    Hafi lögreglan fjarlægt Ástþór hefur hún örugglega haft ástæðu/r til þess því annars hefði það einfaldlega ekki verið gert.  „Líf í tuskunum“ … segir þú, meinar þú slagsmál og læti?  Hefðir þú fagnað slíku?

    Katrín Linda Óskarsdóttir, 17.1.2009 kl. 18:13

    ———————————————————–

    Æ ég veit það ekki. Var eitthvað föruneyti með honum ?

    Hefði kannski frekar verið við hæfi að sjá menn í hvítum sloppum, frekar enn lögreglu fara með hann.

    hilmar jónsson, 17.1.2009 kl. 18:14

    ———————————————————–

    Ástþór Magnússon er geðbilaður maður sem þjáist af Manic Obsessive Selfworship disorder og rétt er það sem Hilmar bendir á hér að ofan. Hann á hvorki heima í fangaklefa né við völd í landinu. Hans heimili á að vera lokuð geðdeild.

    Geðlæknirinn (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 18:25

    ———————————————————–

    Þetta með lífið í tuskunum átti að vera írónía Katrín. Og jú, ég get lofað þér því að hann Ástþór hefði verið fjarlægður ef hann hefði ætlað að þagga niður í atvinnulausu konunni sem var að tala á þeim tíma sem hans hópur ætlaði að hefja fund. Ég veit um marga tugi manna sem vildu hlusta á hana og voru tilbúnir til að fjarlægja hvern þann sem reyndi að trufla hana. Ég er fegin að kom ekki til þess en löggan átti samt ekkert með að stöðva ræðuhöld ‘nýrra radda’. Löggan hefur reyndar oft fjarlægt mótmælendur án þess að eiga nokkuð með það

    Eva Hauksdóttir, 17.1.2009 kl. 18:32

    ———————————————————–

    Geðlæknir: (já og Hilmar þú mátt líka taka þetta til þín)

    Það á enginn neitt með að sjúkdómsgreina Ástþór Magnússon opinberlega. Jafnvel þótt hann væri snargeðveikur, (sem ég efast reyndar um, enda hef ég ekkert séð sem bendir til þess ennþá) þá hafa geðsjúkir bara ekkert minni rétt en annað fólk til að halda fram pólitískum skoðunum sínum.

    Ástþór Magnússon er óvinsæll maður og hefur sérstakt lag á að vera pirrandi en ekkert bendir til þess að hann sé hættulegur. Fundarmönnum sem ekki líkar framganga hans, ætti að vera í lófa lagið að losa sig við hann hjálparlaust þegar hann treður upp á opnum fundum.

    Eva Hauksdóttir, 17.1.2009 kl. 18:39

    ———————————————————–

    Eva: óþarfi að fara með klisjur. Enginn að tala um að geðveikir hafi minni rétt en aðrir.

    Það er hins vegar dapurlegt, að Ástþór virðist gera sér sérstakt far um að gera uppákomur annara að sínum, á þann hátt að leiðindum og truflunum veldur.

    hilmar jónsson, 17.1.2009 kl. 18:44

    ———————————————————–

    Sammála því. Tilgangurinn virðist vera sá að rísa gegn þeim rísa gegn yfirvöldum.

    Eva Hauksdóttir, 17.1.2009 kl. 18:51

    ———————————————————–

    Ástþór er ekkert annað en fjölmiðlatrúður.  Vilji hann og hans félagar mótmæla þá er það sjálfsagt og eðlilegt. Hins vegar eiga þeir að finna sér annan stað en þann þar sem fyrir eru mótmæli. Nóg er af lausum svæðum.

    Svona upphlaup af hans hálfu er ekkert annað en skrum sem er ömurlegt og bara til leiðinda en engm til framdráttar.

    Kristján G. (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 19:30

    ———————————————————–

    Hann var ekki með tilskilin leyfi….sem er írónískt í sjálfu sér,þ.e.a.s að sækja um leyfi til að mótmæla

    En persónleg óbeit mín á manninum gerir það að ég gleðst yfir því þegar komið er í veg fyrir að hann fái að vaða uppi með þann eina tilgang að koma sjálfum sér á framfæri

    Heiða B. Heiðars, 17.1.2009 kl. 20:21

    ———————————————————–

    Hann þarf ekki leyfi. Það þarf enginn leyfi til að halda mótmælafund og í dag boðaði Hörður einmitt mótmælafund á sama stað og sama tíma og Alþingi fundar.

    Eva Hauksdóttir, 17.1.2009 kl. 20:42

    ———————————————————–

    Að sjálfsögðu á Ástþór rétt á að tala. Sérstaklega um það þegar hann flúði skuldir sínar á Íslandi og kennitölur. Kom svo sem „frelsandi engill“ með vasa fulla af peningum. Guðfaðir útrásarinnar á að tala og segja okkur sannleikann.

    Rúnar Sveinbjörnsson, 17.1.2009 kl. 21:13

    ———————————————————–

    Athyglisverður punktur Rúnar.

    hilmar jónsson, 17.1.2009 kl. 21:15

    ———————————————————–

    Ég get ekki krafist þess að fá að tala á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eða útifundi hjá Röddum fólksins ef þeir sem standa fyrir þeim vilja mig ekki sem ræðumann. Ég get hinsvegar talað á þeim fundum sem ég boða til sjálf og það sama á við um Ástþór og hans félaga.

    Eva Hauksdóttir, 17.1.2009 kl. 21:20

    ———————————————————–

    Þessi linkur svarar mörgum spurningum í þessu máli:

    STJÓRNSÝSLUKÆRA vegna Lögreglunnar í Reykjavík

    Ástþór Magnússon Wium, 18.1.2009 kl. 00:38

    ———————————————————–

    Mér skilst að það þurfi að tilkynna lögrelgu um væntanleg mótmæli. Þá séu komin tilskilin leyfi.

    Sólveig Þóra Jónsdóttir, 18.1.2009 kl. 02:07

    ———————————————————–

    Hörður er búinn að segja frá því í sjónvarpi að hann ætli að gera nákvæmlega það sama og Astþór ætlaði að gera. Hörður er höfundur að þessari mótmælaaðferð Ástþórs.

    Hörður ætlar að vera með fund til að trufla annan fund á sama stað á sama tíma. Þessu lýsti hann yfir í sjónvarpi um daginn.

    Nú er lögreglunni skylt að gæta jafnræðis borgaranna og því verður hún, samkvæmt kröfu Harðar Torfasonar, að koma í veg fyrir mótmælafund Harðar Torfasonar á Austurvelli þegar boðaðir þingfundir eru.

    Landfari, 18.1.2009 kl. 02:31

    ———————————————————–

    Ég get ekki séð að neinn, hvorki Nýjar raddir né aðrir, séu að reyna að „eyðileggja“ mótmæli Harðar Torfa einsog hann segir í DV. Ég held að mörgum finnist einfaldlega ekki mjög lýðræðislegt að það sé Einn maður (Hörður) sem handvelji hverjir fái að tala og hverjir ekki – og að vinstri slagsíðan sé þar að auki heldur mikil. Held að menn vilji bara fá fleiri raddir í kórinn. Það er allt og sumt.

    Sverrir Stormsker, 18.1.2009 kl. 02:55

    ———————————————————–

    Ég hef þjáðst af geðsjúkdómum og vill taka það fram að það er engin móðgun við mig eða mína að benda á að Ástþór sé hjálparþurfi þó hann haldi öðru fram þessa stundina. Ekki taldi ég mig þurfa hjálp á sínum tíma. Ég óska honum bara alls hins besta í framtíðinni.

    grimuklaeddur (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 03:11

    ———————————————————–

    Æ þetta er orði ömurlegt, ég held að þessi maður sé á mála hjá sjálfstæðismönnum við að eyðileggja mótmæli almennings. Og því miður fengið með sér kjána sem fylgja honum í einhverri vindmyllureið sem Don Kikode væri stoltur af. Ég á minn þátt í þessu stoppelsi og viðurkenni það alveg.  Mér fannst það út úr korti að menn væru að stela annara manna mótmælum.  Auðvitað mega allir mótmæla og ef Ástþór hefði viljað í raun og veru koma mótmælum á framfæri, hefði hann haft fundinn kl. 16.15 en ekki ofan í boðaðan fund hjá öðrum.

    Þannig að í mínum huga var alveg ljóst að þetta var ekkert annað en skemmdarstarfsemi.  Þetta er ekki sirkus eða skemmtiatariði athyglissjúklinga heldur alvara lífsins, þar sem fullt af fólki er að missa allt sitt.  Þá er þolinmæði gagnvart svona fíflagangi ekki liðin.  Svo einfalt er það bara.

    Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.1.2009 kl. 03:35

    ———————————————————–

    Það er alveg stórfurðulegt hvað margir virðast eiga erfitt með að sjá hlutina í stærra samhengi. Halda menn virkilega að það sé hægt að leysa vandamál sem koma upp í tengslum við erfiða einstaklinga, með því að láta lögguna brjóta gegn mannréttindum þeirra?

    Nú er Hörður Torfason búinn að boða til mótmælafundar á þriðjudaginn, á sama stað og tíma og þingfundur fer fram. Ef löggan má stöðva Ástþór í því að halda fund á sama stað og tíma og Hörður, þá hlýtur hún líka að mega stöðva Hörð í því að halda fund á sama stað og tíma og Geir Haarde.

    Fyrir mér er þetta ekki spurning um það hvort Ástþór fær að fokka upp fundi eða ekki, heldur hvort lögreglan kemst upp með valdníðslu. Mér finnst sjálfri að skársta leið löggunnar hefði verið að láta þetta afskiptalaust. Þá hefðu mótmælendur séð um að koma Ástþóri burtu og það hefði getað endað illa, en lögreglan hefði þá allavega ekki brotið mannréttindi á neinum.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 09:03

    ———————————————————–

    Þingfundir eru ekki utandyra, en þar eru mótmælafundir á vegum Harðar

    haldnir.

    Sigurður Þórarinsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 11:33

    ———————————————————–

    Hörður er að boða til fundar sem reiknað er með að verði mjög hávær og mun trufla störf Alþingis. Ástþór ætlaði ekki að nota sama svið og Hörður heldur setja upp ræðupall á öðrum stað á Austurvelli. Tilgangur Harðar er að trufla fund á Alþingi (sem ég styð fullkomlega), tilgangur Ástþórs var að trufla fund Radda fólksins (sem ég styð ekki þar sem sá félagsskapur er valdalaus með öllu). Þetta er því sambærilegt.

    Ég tek lögregluna ekki eiga neitt með að stöðva fundinn sem Hörður er búinn að boða til á þriðjudag og ef ég á að gæta samræmis og sanngirni, þá hlýt ég að álíta að Ástþór eigi að fá sömu meðferð og Hörður, þótt hann sé óvinsæll og þótt mér mislíki að hann skuli hafa ætlað að trufla útifundinn.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 13:53

    ———————————————————–

    Sennilega er hlutverk lögreglunnar erfitt.  Þeir þurfa að koma að ýmsum málum og þeim mörgum ógeðfelldum. Nú þegar mótmælendur brjóta lög og reglur samfélagsins, verða þeir að hlutast til. Við megum gagnrýna lögregluna, en við ættum að hafa í huga að þeir eru að vernda okkur í störfum sínum.

    Jón Halldór Guðmundsson, 18.1.2009 kl. 14:03

    ———————————————————–

    Eva: Ekki á sama stað, en á sama tíma. Fundur alþingis fer fram innandyra, en fólkið sem ætlar að mótmæla mun ( í stíl við ástandið í dag ) standa úti í kuldanum.

    Það er að mínu mati óhemju dapurlegt, að á sama tíma sem við erum að vakna til vitundar um samtakamátt okkar og læra að mótmæla, sannarlega er þörf á því nú, ef að við ætlum að fara að rífast innbyrðis hvernig á að mótmæla. Með því rýrnar einungis trúverðugleiki mótmælenda.

    Ástþór má finna sér stað og mótmæla að vild. Í raun væri bara meiri slagkraftur í kröfum fólks ef mótmælt yrði á fleiri en einum stað í einu.

    hilmar jónsson, 18.1.2009 kl. 14:06

    ———————————————————–

    ‘við ættum að hafa í huga að þeir eru að vernda okkur í störfum sínum’

    Hlutverk lögreglunnar er fyrst og fremst að verja völd örfárra manna. Nánar hér, seinni hluti greinarinnar.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 14:25

    ———————————————————–

    Eva hvers vegna tekur þú ekki Ástþór að þér?  Held að það myndi létta okkur hinum lífið.

    Einar Þór Strand, 18.1.2009 kl. 15:44

    ———————————————————–

    Eva, Lögreglan fjarlægði ekki Ástþór og hans föruneyti (sem ég held reyndar að sé hægt að telja á höndum annarar handar) heldur fjarlægði lögreglan sendiferðarbíl sem átti að nota sem svið.

    Það er alþekkt að lögreglan aðskilji mismunandi mótmæli til þess að tryggja að ekki komi til áttaka. Það að aðskilja mótmælendahópa er ekki brot á neinum mannréttindum. Ástþór hefði getað mótmælt á Ingólfstorgi eða Lækjartorgi, eða þá á Austurvelli eftir að hinum mótmælunum lauk, og það hefði ekki nokkur skipt sér að honum.

    Hins vegar var tilgangurinn hjá Ástþóri að eyðileggja mótmæli þúsunda Íslendinga sem hafa staðið í 15 vikur. Ef það hefði tekist að þá hefði hann verið að brjóta mannréttindi þeirra þúsunda.

    Ástþór hefði gjarnan viljað að nokkrir mótmælendur hefðu þaggað þarna niður í sér með valdi. Þannig hefði hann fengið mikla athygli fjölmiðla sem er það sem hann sækist helst eftir.

    Það hefði hins vegar haft mjög slæm áhrif og gert það erfiðara að byggja upp nýtt Ísland.

    Mótmæli gegn spilltu yfirvaldi er nauðsynlegt ef við viljum fá betra Ísland, og ef Ástþór telur sig geta mótmælt á betri hátt, þverpólitískt og allt það (þó stjórnarliðar verði líklega alveg jafn feimnir við að láta sjá sig þar), að þá styð ég það. Ef það er rétt hjá honum að þá þarf hann ekki að stela öðrum mótmælafundum til þess. Ef hans málstaður er raunverulega góður að þá koma mótmælendur á fundina hans. En líklega veit hann að svo er ekki.

    Ingólfur, 18.1.2009 kl. 16:46

    ———————————————————–

    Mikið finn ég til með ykkur greyin mín hvernig þið ranghvolfið þessu máli í ykkar litlu hausum. Er mjög erfitt að skilja þetta:

    1. Ég var ekki á Austuvelli í gær og það stóð aldrei til að ég myndi mæta þar

    2. Þetta mál snýst ekki um mig, þetta snýst um lýðræði og tjáningarfrelsi.

    3. Fjöldi annarra hafa lýst óánægju með að ræðumenn eru valdir með handahófskenndu einræði Harðar Torfa. Ég varð vitni að því þegar Hörður skellti símanum á Eirík Stefánsson hann spurði Hörð hversvegna hann kæmist aldrei að.

    3. Ég hef lagt til kerfi í síðuna http://kosning.austurvollur.is þar sem hægt er að velja ræðumenn með lýðræðislegum kosningum. Ég hef engin áhrif á hverjir eru valdir þarna, mitt nafn er ekki að finna í tillögum amk enn sem komið er, en þarna er að finna Hörð Torfason og tilnefning hans studd málefnalegum rökum. Ef Hörður verður síðan kosinn sem ræðumaður á sjálfsögðu að hafa samband við hann og bjóða honum að ávarpa fundinn.

    Nú skora ég bara á ykkur að hætta þessum illdeilum við mótmælendur, sameina kraftana með öllum sem vilja koma að þessum málum (ekki veitir af!!!). Taka upp lýðræðisleg vinnubrögð t.d. með því að nota kerfið sem komið er upp fyrir ykkur á slóðinni www.austurvollur.is til að velja ræðumenn með opinni og lýðræðislegri aðferð og þá hljóta allir að geta sáttir við unað og mótmælin magnast þegar allir leggjast á eitt.

    Ástþór Magnússon Wium, 18.1.2009 kl. 17:49

    ———————————————————–

    Auðvitað veit Ástþór að hann fengi ekki góða mætingu. Hann virðist vaða í þeirri villu að það sé bæði hægt að ganga fram af meðalmanninum og fá hann í lið með sér líka. Það sem er áhugavert við Ástþór er ekki fyrst og fremst hann sjálfur, heldur viðbrögð lögreglu og almennings við uppátækjum hans.

    Erfiðir einstaklingar gefa okkur mjög dýrmætt tækifæri til að skoða okkar eigin fordóma og það hlutverk sem við ætlum stofnunum samfélagsins að sinna. Í stað þess að nota þetta ágæta tækifæri til að skoða hugmyndir okkar um lýðræði og jafnrétti, virðast flestir taka þann pól í hæðina að vegna þess að Ástþór sé óþægilegur, þá eigi aðrar reglur að gilda um hann en vinsæla fólkið sem kann viðurkennda háttvísi.

    Einu almennilegu rökin sem ég sé gegn því að stöðva hávaðamótmælin sem Hörður Torfason hefur boðað til á þriðjudag, á nákvæmlega sömu forsendu og Ástþór ætlaði að trufla laugardagsmótmælin, eru þau að á þriðjudaginn verður aðgerðinni beint gegn valdníðslu ríkisstjórnarinnar en Ástþór ætlaði að beina mótmælum sínum gegn hreyfingu sem hefur ekkert vald. Að öðru leyti eru mótmælendur að sýna sambærilegan yfirgang og Ástþór. Þessi rök hef ég þó ekki séð hjá neinum öðrum. Fólki finnst almennt í lagi að stöðva Ástþór af því að hann sé óþolandi eða af því að hann sé geðveikur. Það segir heilmikið um þessa undarlegu skepnu almenning að hún skuli samþykkja valdbeitingu gegn óvinsælum manni en finnast það allt annað mál þegar ‘okkar maður’ á í hlut.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 18:02

    ———————————————————–

    Hvaða valdbeitingu ertu að tala um Eva ? Borgarafundinn ?

    hilmar jónsson, 18.1.2009 kl. 18:11

    ———————————————————–

    Eva, þetta er að þróast í áttina hjá þér, en mér finnst þú þurfir að leggja hausinn enn frekar í bleyti í þessu.

    Ef fólk ætlar að halda því fram að ég sé „geðveikur“, „erfiður“ eða „óþægilegur“ vegna þess að ég vilji standa vörð um sjálfsögð mannréttindi og tjáningarfrelsi og er tilbúinn að gera það fyrir opnum tjöldum án þess að vera grímuklæddur, er ég hræddur um að mótmælendur margir hverjir þurfi að líta í eigin barm.

    Það er ekki rétt hjá þér að t.d. Hörður sé valdalaus. Hann hefur tekið sér EINRÆÐISVALD yfir vali á ræðumönnum á fundum sem auglýstir eru sem „RADDIR FÓLKSINS“.  Hann vísar í burtu fólki sem honum er ekki þóknanlegt eftir eigin geðþótta meðan hann velur aðra margsinnis. HANN SEGIR í sjónvarpi að hann ari með míkrófón á Austurvöll og segi fólkinu að tjá sig. EN ÞAR SYNJAR HANN SÍÐAN AÐGENGI AÐ ÞESSUM MÍKRAFÓN. Vinnubrögðin eru nákvæmlega þau sömu og helstu stríðsherrar heims hafa viðhaft á meðan þeir hafa skipulagt byltingar í löndum sínum. Hörður er búinn að lýsa yfir framboði m.a. í útvarpinu ásamt Einari Már. Hann er semsagt búinn að blekkja fólkið á Austurvelli sem hefur verið boðað þangað á allt öðrum forsendum. Finnst þér þetta bara allt í lagi? Mér finnst það ekki í lagi og tel að ef haldið er áfram á þessari braut snúist mótmælin uppí andhverfu sína og verði að engu. Ég hef sjálfur hagsmuna að gæta að hreinsað sé út úr Alþingishúsinu og Ísland fái uppreisn æru. Ég er staddur í Hollandi í dag, og hér er ég beðinn að skipta um nafn á fyrirtækinu til að tengja það ekki lengur við Ísland. Það eru erfið spor að taka að verða við þeirri beiðni viðskiptavina okkar.

    Þeir sem hafa eitthvað annað en grautardrullu í höfðinu hljóta að sjá þann pól í þessu að ég er að biðja um lýðræðisleg vinnubrögð og jafnrétti. EKKERT ANNAÐ! Ég var borinn út af Opnum borgarafundi fyrir að biðja þar um lýðræðisleg vinnubrögð. Hörður og hans fólk hendir í mig ómálefnalegum glósum fyrir sömu sakir í stað þess að svara málefnalegu bréfi sem ég sendi.

    Þið þurfið að snúa ykkur að Herði og félögum til að fá þá inná braut lýðræðis og jafnréttis og þannig er hægt að samhæfa kraftana og allir leggist á eitt sem einn maður að koma spilltum stjórnvöldum frá völdum. Síðan þarf að koma hér í staðin beint og milliliðalaust lýðræði eins og t.d. er lagt er til á www.lydveldi.is. Í okkar litla þjóðfélagi er það eina lausnin sem mun virka til frambúðar AÐ VALDIÐ FÆRIST TIL ALMENNINGS – ÞAÐ ER ÖFLUGASTA LEIÐIN TIL AÐ MOKA ÚT SPILLINGUNNI.

    Ástþór Magnússon Wium, 18.1.2009 kl. 18:21

    ———————————————————–

    Ástþór hefur oft verið beittur valdi. Það er t.d. valdbeiting að fjarlægja græjur sem voru ætlaðar til að halda mótmælafung, ekki ofbeldi en valdbeiting engu að síður. Ég tek fram að ég styð almenning sem tekur málin í sínar hendur þegar yfirgangur ákveðinna einstaklinga fer yfir þolmörk þeirra. Ég er t.d. sannfærð um að ef jólasveinninn hefði tekið meira en 5-6 mínútur af borgarafundinum og erindið ekki þótt virkilega áhugavert, þá hefðu fundarmenn rekið hann út sjálfir. Og hefði hljóðkerfið farið í gang á miðjum fundi á Austurvelli, þá hefði verið klippt á kaplana, ósköp rólega og snyrtilega.

    Ég hef hinsvegar miklar efasemdir um að löggan eigi yfirhöfuð nokkuð að skipta sér af mótmælum, sama hvort það er Ástþór, Hörður eða einhver annar sem á í hlut.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 18:23

    ———————————————————–

    Ástþór:

    Hann er semsagt búinn að blekkja fólkið á Austurvelli sem hefur verið boðað þangað á allt öðrum forsendum. Finnst þér þetta bara allt í lagi?

    Ég held reyndar að Hörður hafi ekki blekkt fólk á Austurvöll í þeim tilgangi að ná pólitískum völdum. Ég held að þessi hugmynd um framboð hafi komið til eftir á. Það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort hann mætir á Austurvöll og/eða kýs Hörð Torfason og á meðan enginn hefur kosið hann á þing, þá hefur hann ekkert vald.

    Ástæðan fyrir því að þú færð ekki að tala á þessum fundum er einföld Ástþór minn, þú ert bara of óvinsæll. Það er enginn grundvöllur fyrir þig til að afla fjöldafylgis og þessvegna eru þessir fundir ekki rétti vettvangurinn fyrir þig.  Ef þú efast um að þetta sé ástæðan, prófaðu þá bara að efna til mótmælafundar sjálfur, t.d. kl 2 á laugardegi eða kl 4 og sjáðu hvort þú færð mætingu. Það er sama ástæða sem á við um hann Eirík. Flestum finnst hann bara þrautleiðinlegur og nenna ekki að hlusta á hann.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 18:39

    ———————————————————–

    Eva, hefurðu nokkuð spáð í það að það hafi ekki staðið til að tala ofaní neinn á Austurvelli? Þú ættir kannski að velta því fyrir þér hversvegna lögreglan var beðin að láta bílinn standa þarna án þess að sent yrði úr honum hljóð sem gæti truflað einhvert annað hljóð. Heldurðu að límbandið yfir munn Eiríks Stefánssonar og þeirra sem þarna voru með honum hafi bara dúkkað upp á einni mínútu?

    Málið er að þeir sem hafa staðið að Opnum borgarafundi og „röddum fólksins“ á Austurvelli eru of fljótir á sér að hlaupa upp til handa og fóta vegna þess að þeir eru hræddir við að tapa einræðisvaldinu sem þeir eru með á þessum samkvundum. Þeir eru að blekkja þjóðina eins og ég sagði hér að ofan. Það býr allt annað að baki þessu hjá þeim en ópólitísk breiðfylking eins og haldið er fram opinberlega. Þetta hygg ég að komi í ljós við framboð þeirra til Alþingis.

    Þessir aðilar eru að drukkna í eigin blekkingarvef og þessvegna eru þeir svona stressaðir að rokið er upp til handa og fóta af minnsta tilefni og stofnað til illdeilna við aðra mótmælendur.

    Ég ráðlegg þér Eva og öðrum sem hafa verið að skrifa um þetta að beina kröftunum að Herði Torfasyni og ræða við hann um lýðræðisleg vinnubrögð. T.d. með því að velja ræðumenn fyrir opnum tjöldum. Hér er ágæt leið:http://raddir.austurvollur.is

    Ástþór Magnússon Wium, 18.1.2009 kl. 18:52

    ———————————————————–

    Eva, það er bannað að trufla þingfund, þ.e.a.s. áheyrendur á þingpöllum mega ekki ekki trufla þingfund. Ef þeir gera það að þá eru þingpallarnir rýmdir.

    Hins vegar er hægt að komast í kring um þetta með því að mótmæla annarstaðar, sem sagt úti á Austurvelli. Ef Ástþór og félagar hefðu reynt að trufla fundinn frá Ingólfstorgi að þá hefði líklega ekkert verið hægt að gera við því, en þegar hann reynir að halda fund á sama tíma og á sama stað að þá finnst mér lögreglan hafa fullan rétt á að aðskilja hópana.

    Eða hvað finndist þér Eva, ef ungir Sjálfstæðismenn mundu ákveða að standa fyrir diskóteki á Austurvelli á laugardögum kl 15:00, þar sem allar græjur væru stilltar í botn? Finndist þér ekki verið að brjóta á rétti þínum til þess að mótmæla ef þú vildir vera á fundunum hjá Herði?

    Mér finnst Hörður Torfa hafa staðið sig frábærlega í að skipuleggja þessi mótmæli. Á Íslandi, þar sem flestir skammast sín fyrir að taka þátt í mótmælum, hefur hann fengið þúsundir til þess að koma í hverri viku. Og þegar hinn almenni mótmælandi skrópaði til þess að undirbúa jólin að þá stóð hann og kjarninn í kringum hann samt fyrir mótmælum til þess að þau dæu ekki út yfir hátíðarnar.

    Sem skipuleggjandi að þá er það hans á ákveða hvernig dagskráin er og hvaða áherslur eru settar, og aðal áherslurnar hjá honum eru friðsamleg mótmæli og kröfur um uppstokkun sem flestir geta tekið undir.

    Það að hann hafni Ástþóri og hanns helstu samstarfsmönnum er ekki aðeins í hans rétti, heldur er það líklega gert í þeim tilgangi að varðveita trúverðurgleika mótmælanna.

    Það er staðreynd að fólk vantreystir öllu sem Ástþór stendur að, jafnvel þó það séu stundum góðar hugmyndir. Þetta er kannski ósanngjarnt en hver segir að heimurinn sé sanngjarn.

    Það er skylda Harðar að velja og hafna með hagsmuni málstaðarins í huga og ég tel að hann geri rétt með því að hafna aðkomu Ástþórs. Enda hefur það sést á fundum þar sem Ástþór reynir að troða sér að að fundargestir vilja ekki sjá hann.

    En þarna er samt hvergi verið að brjóta á Ástþóri. Hann hefur enga kröfu á að vera hleypt að hjá öðrum hópum en hann má halda sína eigin fundi. Bara ekki á sama stað og aðrir eru að halda sinn fund. Og það gildir um Ástór jafnt sem aðra.

    Ingólfur, 18.1.2009 kl. 19:15

    ———————————————————–

    Ég vil ÍTREKA SEM ÉG SAGÐI HÉR ÁÐUR – ÉG VAR EKKI Á AUSTURVELLI OG ÞAÐ STÓÐ ALDREI TIL AÐ ÉG MYNDI MÆTA Á AUSTURVÖLL. ERU ÞETTA NÆGJANLEGA STÓRIR STAFIR TIL AÐ ÞIÐ SKILJIÐ ÞETTA???

    Nýjar raddir á Austurvelli, 18.1.2009 kl. 19:25

    ———————————————————–

    Ástþór það hvarflar ekki að mér að reyna að stjórna honum Herði Torfasyni. Hvað þá að beina kröftunum að honum. Ég þarf að beina kröftum mínum að alvöru valdníðingum og til þess fer ég bara þær leiðir sem ég tel réttar sjálf. Ef einhver vill vinna með mér þá er það bara fínt en glætan að ég standi í því að segja öðrum hreyfingum fyrir verkum.

    Ég veit að þú hlýtur að vera orðinn þreyttur á þessari spurningu en ég hef ekki séð þig svara henni enn: Af hverju býður þú ekki bara upp á lýðræðislega fundi sjálfur í stað þess að reyna að yfirtaka ólýðræðislega fundi annarra?

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 19:26

    ———————————————————–

    Eða hvað finndist þér Eva, ef ungir Sjálfstæðismenn mundu ákveða að standa fyrir diskóteki á Austurvelli á laugardögum kl 15:00, þar sem allar græjur væru stilltar í botn? Finndist þér ekki verið að brjóta á rétti þínum til þess að mótmæla ef þú vildir vera á fundunum hjá Herði?

    -Mér þætti það skítlegt af þeim en ég vildi samt að löggan léti það afskiptalaust. Ég vildi líka að hún léti mig afskiptalausa þegar ég klippti á kaplana hjá þeim. Að öðru leyti er ég sammála þér.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 19:30

    ———————————————————–

    Ástþór, þetta snýst kannski ekki aðallega um það hvort þú ætlaðir að tala eða einhver annar. Þú ætlaðir að taka stjórnina. Meirihlutinn er ósáttur við það.

    Eva Hauksdóttir, 18.1.2009 kl. 19:32

    ———————————————————–

    Þetta eru athyglisverðar umræður.  Mér finnst athyglisverðast hvering þær eru farnar að snúast um persónur en farnar að missa af markmiðum.

    Í áranna rás hefur akkúrat þessi venja í dialog Íslendinga orðið til þess að umræðan hefur aldrei orðið heiðarleg og kryfjandi. Menn sem hafa haft uppi varnarorð um frjálshyggju og spillingu hefur verið svarað með skætingi og aldrei með málefnalegum röku.

    Eða hvernig var það þegar Breska fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við Íslensk stjórnvöld um að verið væri að selja The National Bank of Iceland til stærsta þvottahús í Evrópu. Þá komu Geiri Hardi og Dabbi kóngur og gerðu lítið úr hæfni og vitneskuju breskra leyniþjónustu þeir þekktu nú sína menn þá Björgúlfa. Ef einhver á Íslandi vogaði sér að spurja réttlátra spurninga var hann strax úthrópaður öfundarmaður eða niðurrifsmaður, sérðu ekki maður hvað það er miklu betri rekstur á bönkunum eftir að þeir voru einkavæddir?

    Eða átti Bónusgrísin ekki fylgi hjá meirihluta þjóðarinnar vegna þess að þeir seldu svo ódýrt. Ef einhver leyfði sér að gagnrýna viðskiptasiðferði þeirra, siðleysi þeirra í samskiptum við byrgja, græðgi þeirra um að eignast, helst allt var sá maður ekki strax brennimerktur á enninu sem kvíslingur við heimilin í landinu sem loksins fengu ódýra matvöru skítt með að samkeppnisaðilar væru beittir rangindum og yfirgangi.

    Ég er ánægður með framtak Harðar Torfasonar og finnst allt í lagi að hann velji sér samstarfsmenn og þeir velji svo ræðumenn.  Ég er ekki alltaf sammála því vali og fannst t.d. frekar ósmekklegt að hleypa 8 ára barni að sem ræðumanni.  Það minnir mig á Birgi vin minn Andresson, vitring og listamann,  þegar hann kallaði ákveðinn trúboða barnanýðing þegar hann stillti börnunum sínum upp fyrir framan myndavél og lét þau kirja halelúja söngva með angistarsvip og líðan ungmennanna greinilega ekki á sama plani og föðursins, gítaristans og trúboðans. En þeir sem velja ræðumenninga á fund Harðar verða að eiga það við sína samvisku hvernig þeir velja ræðumenn, og ég get alveg unt þeim því að nenna ekki að hlusta á Eirík fyrrverandi verkalýðsleiðtoga, sem skipti um gír í góðæri og hlutabréfagræðgi  og fór að spila upp á eigin reikning.

    Já það eru allir leiðir á Ástþóri.  En hefur hann ekki líka fenigð sinn skammt af umræðu þar sem hann er tekinn óbíðum tökum mannorðsmorðssnillinganna sem kalla sig stjornmálamenn.

    Ég hef oft dáðst að uppátækjum hans og hann er að mínu mati betri maður núna en þegar hann flúði land með allt niðrum sig eftir Myndsýnarævintýrið.  Hann koma aftur með fullar hendur fjár eins og þeir Björgúlfar og held að hann hafi verið gert betri hluti.  Hann hefur bara tapað sínum peningum á þessu forsetabrölti sínu en Björgúlfarnir peningum sínum og annarra saklausra og líka gráðugra viðhlægjenda sinna.

    Mér finnst flott þegar Ástþór vildi mótmæla á Bessastöðum morðum Síonista í Palestínu,  það var þarft og þögn forseta lýðveldisins sem hefur gert sig út sem boðbera friðar er átakanleg.  Þar hefði mér fundist að fólk hefði átt að fjölmenna og fylgja Ástþóri því málefnið var gott og í anda jólasveinsins.

    Ástþór hefur líka húmor að mínu mati og skilur ironíuna í þögguninni sem hann er beittur.  En það er líka rétt að hann er soldið stubborn og mikill tuðari en er það ekki líka það sem mótmælendur þurfa að vera til að halda út.

    Æ hvað mig hefur oft langað til að mótmæla en bara ekki nennt því það er svo mikil vinna.  Í eðli mínu er ég latur maður, en ég er oft svo hjartanlega sammála þeim sem mótmæla og fólk sem hefur skoðanir og hefur kraft til að fylgja skoðunum sínum eftir þrátt fyrir að lenda í hringiðju mannorðsmorðingja á allan minn siðferðislega stuðning.

    Hörður Torfason er hetja og er ekki í fyrsta sinn að lenda í mannorðsmorðingjunum, Ástþór er búiinn að vera hetja undanfarin 12 ár og að mínu mati ættu margir að endurskoða álit sitt á honum með tilliti til þess sem hann hefur staðið fyrir en ekki því sem hann hefur verið ásakaður um.  Og Eva þú ert rökföst, vel máli farin og ég kann að meta skoðanir þínar á málefnum og vona svo sannarlega að þú standir af þér rógburð og rúðubrot þeirra sem helst vilja bara fylgja þeim sem eru vinsælir af eindæmum

    sigurður haraldsson

    Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 21:31

    ———————————————————–

    Jæja er ekki komin tími til að hrista af sér ruglið í kringum Ástþór, og snúa sér að alvöru málefnum.

    Sjáumst á þriðjudag kl 13.00 fyrir utan alþingishúsið..

    hilmar jónsson, 18.1.2009 kl. 22:24

    ———————————————————–

    Rúnar Sveinbjörnsson skrifaði hér að ofan: „Að sjálfsögðu á Ástþór rétt á að tala. Sérstaklega um það þegar hann flúði skuldir sínar á Íslandi og kennitölur. Kom svo sem „frelsandi engill“ með vasa fulla af peningum. Guðfaðir útrásarinnar á að tala og segja okkur sannleikann.“

    Ekki nóg með það, heldur lét aðra um að sitja í súpunni og borga skuldirnar.

    Björgvin R. Leifsson, 19.1.2009 kl. 14:33

    ———————————————————–

    Ég get nú að flestu tekið undir með Sigurði Haraldssyni í færslu hans hér að ofan.

    Hitt er annað að ég held að flestir þeir sem víla ekki fyrir sér að kalla Ástþór öllum illum nöfnum myndu hreinlega snappa sjálfir ef þeir lentu í því sem Ástþór hefur mátt þola af engu tilefni.

    Nú má vel vera að einhverjir eigi gamalla harma að hefna frá því hann fór í þrot með fyrirtækið sitt en það eru liðnir einhverjir áratugir síðan það var. Það hefur enginn fært nein rök fyrir því að hann hafi ekki einfaldlega farið „heiðarlega“ á hausinn eins fyrir getur komið þegar menn standa í rekstri. Því finnst mér það ansi lágt lagst að reyna að núa því honum nú um nasir.

    Menn standa nú á pöllum og mótmæla framkomu yfirvalda og ríkisns við almúgann en það má nokkuð ljóst vera að þeir eru fáir núlifandi Íslendingar sem hafa þurft að þola meiri tilefnislausa valdbeitingu af hálfu yfirvalda en Ástþór.

    Ég hef allavega ekki enn séð neina réttlætingu á því að stinga honum í steininn fyrir að benda á þau augljósu sannindi að vopnaflutnigur í íslenskum flugvélum í stríði gæti kallað á hættu fyrir aðrar íslenskar flugvélar.

    Ef þetta hefði gerst núna er mér nær að halda hundruðir manna hefðu flykkst niður á Austurvöll til að mótmæla. En af því að þetta var áður en almenningur vissi hvað mótmæli voru stóð kallinn einn í þessu og mótmælti á áhrifaríkan táknrænan hátt sem engann skaðaði og engu tjóni olli hafa margir talið manninn fífl hið mesta. Ef hann hefði gripið til ófrumlegara aðgerða eins og að kasta eggjum í Héraðsdóm hefði kanski einhverjir litið upp til hans sem byltingarforingja.

    Ég verð bara að segja að eins og mér fannst nokkuð til Harðar koma í upphafi þessara mótmæla þá finnst mér honum vera að fatast flugið núna.

    Eljan og dugnaðurinn við að standa vaktina helgi eftir helgi er því miður farin að snúast í valdníðslu og rétttrúnað í mínum huga. Hann er í vaxandi mæli farinn að beita þeim aðferðum sjálfur sem hann er að mótmæla að aðrir beiti. Ég held að þeir gætu báðir lært mikið hvor af öðrum, Hörður og Ástþór. Sameinaðir gætu þeir náð mun meiri árangri en hvor í sínu lagi.

    Landfari, 19.1.2009 kl. 16:02

    ———————————————————–

    Mér finnst að laugardagsfundir radda fólksins séu og eigi að vera þvert á alla mótmælendur.

    Við verðum að nota þessa fundi til þessa að efla samstöðu, samstöðu sem er að myndast, tek undir með Sturlu mætum öll á morgun kl 13,00 með súrmjólk í vatnsblöðrum.

    Okkar tími er núna gott fólk. NÚNA ekki seinna en strax á morgun.

    Ástþór er sennilega gerður út af stjórnvöldum til að sundra okkur.

    Morgun kl 13,00

    Vilbogi Magnús Einarsson (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 20:35

    ———————————————————–

    Það eru akkúrat menn eins og Sturla Hólm og Vilbogi Magnús sem eyðileggja fyrir þeim sem eru mættir þarna til að mótmæla í alvöru. Þeir reyna að nota þetta tækifæri til að vera með skrílslæti og koma óorði á á alvöru mótmælendur.

    Landfari, 19.1.2009 kl. 20:55

    ———————————————————–

    Landvari þótt ég sé sammála Sturlu með morgundaginn. þá er ég einn ötulasti talsmaður þess að fundir radda fólksins séu okkar sameiginlegi vettvangur.

    Það hefði enginn annar en Hörður Torfa haft þetta þrek og úthald.

    Svo þér til upplýsinga þá tek ég einungis þátt í friðsömum mótmælum.

    Ef ef einhverjir vilja gera eitthvað annað þá er það ekki mitt mál að stöðva það, og heldur ekki að fordæma það.

    Við nefnilega höfum öll okkar forsendur til að mótmæla, það eina og ég endurtek eina sem þarf er samstaða.

    Og gildir einu hverju fólk klæðist og hvernig fólk vill tjá sig.

    SAMSTAÐA ER ALLT SEM ÞARF

    Vilbogi Magnús Einarsson (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 22:29

    ———————————————————–

    Á ég að skilja þig þannig Vilbogi að súrmjólkin í vatnsblöðrunni sé bara nestið þitt í mótmælastöðunni.

    Ég bið þig forláts ef sov er því ég er svo illa innrættur að ég hélt að þú ætlaðir að kasta þessu í Alþingishúið og ég þyrfti að greiða kostnaðinn við þrifin. Staðan er nefninlega þannig hjá mér að ég má ekki við meiri útgjöldum. Bara húsnæðislánið hækkaði um tæpa milljón í síðasta mánuði og þá er yfirdrátturinn eftir.

    Ég er nefnilega þannig innrættur að ég reyni að standa við mínar skuldbindkingar fram í rauðan dauðann en krefst þess ekki að aðrir borgi mínar skuldir. Á sama hátt hef ég engann áhuga á að borga skuldir annara.

    Ég er sammála þér með Hörð Torfa og mikilvægi þess að þetta verði sameiginlegur vettvangur. Þess vegna verur hann að vera víðsýnni í vali ræðumanna. Eins og ég sagði áðan gæti hann náð mun meiri athygli og árangri ef hann kynni að nýta sér reynslu og hugmyndir manna eins og Ástþórs og fengi hann í lið með sér en ekki á móti.

    Landfari, 19.1.2009 kl. 23:55

Lokað er á athugasemdir.