Kynvillingar og Epalhommar

Þann 14.12. 2017 sakfelldi Hæstiréttur tvo menn fyrir hatursorðræðu. Hugtakið hatursorðræða er reyndar ekki notað í lögum en með því er vísað til 233. gr. a. í almennum hegningarlögum. Hún hljóðar svo:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Hatursorðræðan fólst í því að nota orðið kynvillingur og kynvilla á samfélagsmiðlum.

Orðið kynvillingur var notað til að smána samkynhneigða og var í þessu tilviki í boði Carls Jóhanns Lilliendahl sem notaði það til að lýsa yfir vanþóknun sinni á hinsegin fræðslu í skólnum. Hinn maðurinn sem var sakfelldur, Sveinbjörn Styrmir Gunnarsson, hafði vísað til samkynhneigðar sem kynvillu. Þriðji maðurinn, sem hafði  tjáð nákvæmlega sömu skoðun á hinsegin fræðslu, en án þess að nota þessi skelfilegu orð, var sýknaður.

Þann 3, janúar 2018 tilkynntu Ríkisútvarpið, Árnastofnun og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, að orð ársins 2017 væri Epalhommi. Þetta orð var ekki notað til að smána alla samkynhneigða, heldur aðeins lítinn hóp samkynhneigðra; þá homma sem handhafar kennivalds pólitísks rétttrúnaðar hafa skilgreint sem forréttindahóp. Orð ársins var í boði Hildar Lilliendahl.

Þetta tvöfalda siðgæði sem birtist í afstöðu ríkisins og almennings til tiltekinna orða er tímanna tákn. Þeir sem hafa áhyggjur af tjáningarfrelsinu hafa stundum spurt hvort megi ekki bara gefa út lista um hvað megi segja og hvað ekki en það er ekki það sem málið snýst um. Það sem skiptir máli er ekki hver verður fyrir misalvarlegum glósum eða á hvaða vettvangi, heldur hver talar. Það er ekki sama hvort það er Carl Lilliendahl eða Hildur Lilliendahl.

Næstu árin mun baráttan gegn tjáningarfrelsinu ekki aðallega snúast um það hvað má segja, heldur hver má segja það. Hugsanlega verður bannað að nota húðsjúkdóma til að gera grín að Miðflokknum þar sem samtök exemsjúklinga móðguðust yfir einu atriði í áramótaskaupinu. Slíkar hömlur verða ekki settar vegna þess að grínið sé ljótt, (atriðið var ekki á kostnað exemsjúklinga heldur voru húðsjúkdómar notaðir til þess að gera grín að listabókstaf stjórnmálaflokks) heldur vegna þess að sjúklingar tilheyra „réttum“ minnihlutahóp. Sjúkdómar falla ekki undir ákvæði hegningarlaga um hatursorðræðu svo höfundar skaupsins og RÚV eiga ekki á hættu að verða sakfelld fyrir hatursorðræðu en við getum reiknað með að í því andrúmslofti heilagrar vandlætingar sem ríkir meðal handhafa kennivaldsins, muni Ríkisútvarpið taka fordæmingu samtakanna alvarlega og framvegis forðast grín þar sem sjúkdómar koma við sögu.

Það er í sjálfu sér enginn missir að því þótt lélegir og/eða ósmekklegir brandarar verði ekki áberandi í sjónvarpi allra landsmanna en það er hinsvegar óhugnanlegt að tilteknir hópar fólks geti stjórnað því hvaða tjáning er umborin. Ef ekki má grínast með það sem getur sært eða móðgað einhvern er næsta skref takmörkun á gagnrýninni umfjöllun. Það er nefnilega dálítið til í þeim frasa að pólitískur rétttrúnaður sé ekkert annað en fasismi dulbúinn sem mannasiðir. Góðu fréttirnar eru þær að Ríkisútvarpið mun ekki ritskoða þá sem nota uppnefnið Epalhommi, heldur hampa þeim. Vondu fréttirnar eru þær að það er ekki merki um stuðning við nýyrðasmíð eða umburðarlyndi gagnvart gagnrýni heldur þjónkun við ákveðið kennivald.

Tjáningarfrelsið sem slíkt er ekki í stórkostlegri hættu ennþá, pólitískur rétttrúnaður vinnur hægt og rólega. Áhrifafólk verður enn um hríð að þola að gert sé grín að því og stjórnmálamenn munu ekki geta stjórnað efni gamanþátta bara með því að móðgast enda eru þeir augljóslega í forréttindastöðu. En hvað með hópana sem hvorki njóta sérstakra forréttinda né eru augljóslega í viðkvæmri stöðu? Verður tekið tillit til þess ef þrifasnapparar móðgast yfir skaupinu? Hvað með ungmenni, túrista, íbúa tiltekins sveitarfélags eða hverfis, grasrótarsamtök, starfsstéttir og fleiri hópa? Fólk með húðsjúkdóma býr ekki við ofsóknir eða mismunun. Hugsanlega upplifa einhverjir exemsjúklingar fordóma en það getur átt við flesta hópa fóks. Ef út í það er farið geta húsmæður haldið því fram að störf þeirra hafi alla tíð verið vanmetin og því sé ljótt að grínast með húsráð og heimilsþrif. Umhverfissinnar og aðrir sem vilja vera siðlegir neytendur geta með réttu haldið því fram að um háalvarlegt mál sé að ræða og ef ekki má grínast með alvarleg mál þá má augljóslega ekki pota í þá sem fordæma neysluhyggju.

Það verður áhugavert að fylgjast með því á næstu árum hverra (en ekki hvaða) ummæli verða skilgreind sem hatursorðræða í daglegu tali og hverjum Ríkisútvarpið og aðrar stofnanir á vegum hins opinbera veita viðurkenningu fyrir að atast í minnihlutahópum. Sennilega veltur það á því hvaða hópum tekst að kynna sig sem sérstök fórnarlömb hverjir munu stíga næstu hænufet í átt til fasisma. Það er ansi langt í það að sjúklingar eða kattþrifnar húsmæður standi í vegi fyrir lýðræðslegri umræðu en á hinn bóginn er ekkert ógurlega langt síðan femínistar voru áhrifalaus minnihlutahópur. Í dag stjórna þær allri umræðu um kynjamál, hafa ítök í öllum valdastofnunum landsins og hafa Ríkisútvarpið og Árnastofnun í rassvasanum. Á sama tíma dæmir Hæstiréttur menn til refsingar fyrir hatursorðræðu. Ekki valdafólk eða áhrifamenn sem eru í aðstöðu til að mismuna hinsegin fólki eða skaða það á nokkurn hátt, heldur tvo kjána sem enginn málsmetandi maður tekur mark á. Dæmigerða vandlætara sem svo sannarlega tilheyra minnihlutahópi og eru töluvert aumkunarverðari en nokkur þeirra vandlætara sem iðka nákvæmlega hið sama undir merkjum réttlætisbaráttu í þágu hinna og þessara fórnarlamba og með virkum stuðningi ríkisstofnana.