Kynjaðir kúlupennar

kort

Ilmvatn handa henni.
Skór handa henni.
Sérstök dömurakvél handa henni.

Af hverju ekki alveg eins bleik verkfærataska handa henni, hello kittý riffill handa henni, vetrardekk handa henni og kúlupennar handa henni?

Nú er nokkuð augljóst að í menningu okkar er hefð fyrir því að konur klæðist og ilmi á annan hátt en karlar, við hrökkvum ekkert við þótt fatnaður og snyrtivörur séu markaðssett fyrir hvort kynið um sig. Öðru máli gegnir um verkfæri. Konur halda ekkert öðruvísi á skrúfjárni en karlmenn og ekkert bendir til þess að tiltekið dekkjamynstur henti aksturslagi kvenna betur en karla. Reyndar bendir ekkert til þess að kynbundinn munur sé á aksturslagi, sem val á dekkjum hafi minnstu áhrif á. Af hverju er þá verið að markaðssetja aðskiljanlegustu hluti sérstaklega fyrir konur? Ber þessi markaðssetning vitni um vilja til að viðhalda staðalmyndum kynjanna? Gætir kvenfyrirlitningar í auglýsingum sem eiga að selja konum verkfæri? Afhjúpar þessi markaðssetning þá undirliggjandi skoðun að algeng áhöld þjóni fyrst og fremst þörfum karla? Ellen DeGeneres kemst allavega að þeirri niðurstöðu:

Það verður að teljast ólíklegt að meðvitaður tilgangur með því að markaðssetja vörur fyrir konur sé pólitískur. Markmið flestra fyrirtækja er að skila hagnaði og til þess að auka hagnað þarf að stækka hóp viðskiptavina og bjóða upp á vöru og þjónustu sem þeir eru ánægðir með. Og hvort sem það er lært eða eðlislægt þá eru það aðeins aðrir þættir sem höfða til kvenna en karla. Kannski eru konur líklegri til að kaupa ýmis verkfæri ef þau eru aðlaðandi í útliti. Ég man þegar ég sá fyrst „dömurakvél“. Mér þótti það hálfasnalegt því mér hafði aldrei dottið í hug að það þyrfti eitthvert annað verkfæri til að skafa hár af fótleggjum kvenna en úr andliti karla, en dömurakvélarnar voru flottari í laginu og í fallegum stelpulitum og þótt ég notaði alltaf vax sjálf og hefði ekkert með sköfu að gera, langaði mig eiginlega pínulítið í hana. Líklega hafa markaðsmenn fyrirtækisins áttað sig á því.

Ég tók fáa persónulega muni með mér þegar ég kom til Glasgow og það fyrsta sem ég keypti, strax daginn eftir að ég kom hingað, var stílabók (falleg stílabók), tússpennar og trélitir. Auðvitað átti maðurinn minn nóg af ritföngum sem ég á ekki í neinum vandræðum með að nota, en hans pennar voru allir með svörtu og dökkbláu bleki og ekkert flottir í útliti. Ég rissa stöðugt, skreyti innkaupalistana mína með blómasveigum og mig langaði bara meira að nota litpenna og krota í  fallegar bækur. Þessi ritfangaárátta mín er ekkert ný. Fallegir pennar með lituðu bleki hafa verið á markaðnum í mörg ár, ég skoða ritföng mér til ánægju þótt mig vanti ekki neitt og ég kaupi yfirleitt fleiri en einn penna í einu. Ég get vel trúað því að konur séu líklegri til þess en karlar að vilja eiga úrval af pennum og þar með sjái ritfangafyrirtæki tækifæri í því að selja konum marga penna saman í pakka. Ég gæti best trúað því að karlar séu síður líklegir til þess að kaupa marga penna í einu nema það sé hagstæðara.

En bíddu nú aðeins við, hvað er þetta?

http://www.youtube.com/watch?v=8c23dUWATaY&feature=player_embedded

Stelpan dekurspillt prinsessa sem getur ómögulega notað „venjulega penna“ og strákarnir flykkjast að henni til að gera henni til hæfis. Hún fellur fyrir „Bic boy“ af því að hann skilur sérþarfir hennar og útvegar henni „Bic pens“. Og svo engum detti nú í hug að auglýsingastefna BIC sé sú að sýna konur sem fávita er álíka bjánalegri auglýsingu ætlað að höfða til drengja:

Ég hef keypt ósköpin öll af marglitum tússpennum, sanseruðum kúlupennum og stílabókum með fallegum myndum framan á. Ég vil líka frekar nota nett hnífapör og fíngerða kaffibolla, En málið er að ég sé alveg sjálf hvort penni er bleikur og hvort gaffallinn höfðar til mín. Það þarf ekki að segja mér að þessir hlutir séu sérhannaðir fyrir bjána til þess að ég kaupi þá. Auk þess velti ég því fyrir mér hversvegna markaðurinn sjái ekki þörf fyrir að gera „kvenleg“ verkfæri, svosem heimilistæki og búsáhöld „karlmannlegri“. Vinkonu minni varð það einu sinni að orði, eftir að karlmaður hafði sagt henni að hann kynni ekki á þvottavél að það eina sem þyrfti að gera til að karlmenn lærðu á þvottavélar væri að merkja ræsirofann með „play“ í stað „on“. En ég hef ekki orðið vör við að neitt slíkt sé nauðsynlegt til þess að selja körlum heimilistæki.

Nú bíð ég bara eftir því að sjá auglýsingar um hrærivél sem er sérhönnuð handa honum, heklunálar með karlmannlegu gripi handa honum og glussaklósettbursta með innbyggðum mp3 spilara með leiðbeiningum, handa honum. Fyrirtækjum sem selja þessar vörur hlýtur að vera jafn mikið í mun að bæta við sig viðskiptavinum og þeim sem selja kúlupenna og skrúfjárn.