Kvað hún brotaþola hafa uppfyllt öll skilyrði …

maxresdefault

Haustið 2009 var lögreglumaður á Suðurnesjunum kærður fyrir nauðgun. Hann var síðar ákærður en sýknaður. Hann segir sögu sína hér. Ég veit ekki hvar málið er statt. Finn allavega ekki dóm í dómasafni svo sennilega er ekki búið að dæma í því.

Það sem mér finnst athyglisverðast við þetta myndskeið sem ég tengdi á hér að ofan er einbeittur vilji starfsmanns Neyðarmóttöku og réttargæslumanns til að trúa því að „brotaþoli“ hafi sagt satt enda þótt engin gögn styðji framburð hennar og framburði hennar og manninum hennar beri ekki saman. Í þeirra huga er það sem skiptir máli að „brotaþoli“ sýnir öll einkenni þess að hafa verið nauðgað. Eyrún segir m.a.s. fullum fetum að sýknudómur sé ekki staðfesting þess að maðurinn sé saklaus. Það er andskotanum erfiðara að hreinsa sig af röngum sökum ef þetta er almennt viðhorf en nú vilja nokkrir þingmenn ganga skrefinu lengra. Þeir vilja semsagt gefa hverri þeirri konu sem getur æst sig upp í grátkast, hniprað sig saman og lýst því að hún sé „dofin“, tækifæri til að koma manni í fangelsi að eigin geðþótta.

Hér eru nokkur brot úr dómnum yfir lögreglumanninum (leturbreyting mín.)

Um framburð hjúkrunarfræðings Neyðarmóttöku:

Brotaþoli hafi grátið og átt erfitt með að segja frá og lítið munað. Hún hafi verið greinilega undir áhrifum áfengis og liðið mjög illa. Hún hefði kastað upp nokkrum sinnum hjá þeim og fundist mjög erfitt að vera hjá þeim. Hún hefði fundið fyrir dofa og fundist þetta óraunverulegt.

Um framburð sálfræðings:

…hefði brotaþoli verið í miklu krísuástandi en þegar hún talaði um meint kynferðisbrot hefði hún verið mjög „streitt“  og dofin. Brotaþoli hefði lokið meðferð 15. mars sl. Kvað hún brotaþola hafa uppfyllt öll skilyrði áfallastreituröskunar og sýnt öll einkenni fórnarlamba kynferðisofbeldis, ofsaótta og hræðslu, endurupplifun og forðun. Úr einkennum hafi dregið verulega og í dag uppfylli hún ekki skilmerki áfallastreituröskunar þó svo að einhver einkenni séu til staðar en hún hafi lært að stjórna viðbrögðum sínum og trufla þau nú ekki daglegt líf hennar eins og þau gerðu á meðan hún var í meðferð hjá henni. Hún hafi forðast að fara út úr húsi af ótta við að hitta meintan geranda, óttaðist að hann kæmi og óttaðist að svara í síma. Úr þessu hafi verið unnið. Aðspurð um það hvort brotaþoli hafi upplifað atburðinn í meðferðinni kvað Sjöfn svo hafa verið. Brotaþoli hefði fengið svokallað „flashback“ þegar þær töluðu um atburðinn, þar sem henni hefði fundist sem atburðurinn væri að gerast. Brotaþoli hafi verið með mikil forðunareinkenni sem hefði þurft að vinna á, auk doða sem brotaþoli upplifði.“

Þar sem andlegt ástand „brotaþola“ kemur heim og saman við andlegt ástand fórnarlamba nauðgana hlýtur nauðgun að hafa átt sér stað er það ekki? Jú, maður trúir því allavega að „eitthvað“ hafi gerst, alveg þar til maður skoðar mál þar sem rangar sakargiftir hafa sannast. Margar konur sem bera menn röngum sökum, sýna nefnilega einkenni sem bera vott um að þeim líði mjög illa og hafi jafnvel orðið fyrir þungu áfalli. Það hefur líka gerst á Íslandi. Þetta er eina dæmið um sektardóm í rangfærslumáli sem ég fann í dómasafninu, svo það er ekki úr miklu að moða en skoðum samt aðeins ástandið á „brotaþola“ eftir að henni hafði ekki verið nauðgað og hvernig hún tjáði sig um þessa nauðgun sem hún varð ekki fyrir.

Segir í skýrslu að hún hafi virst vera í miklu uppnámi, hún hafi grátið og átt erfitt með að tjá sig um málsatvik.

Hún myndi síðan lítið eftir því sem gerðist nema að X hefði náð niður um hana buxunum…

…hún sagðist ekki gera sér grein fyrir hvort hann hefði komið fram vilja sínum eða hvort hún hefði verið neydd til munnmaka.

Hún er í uppnámi þegar hún skýrir frá, því sem gerðist ekki og minnið gloppótt. Alveg eins og hjá alvöru fórnarlömbum. Ætli lögreglu og starfsfólki slysamóttöku hafi þótt nokkur ástæða til að efast um söguna?

Þessi stúlka sá að sér og gerði hreint fyrir sínum dyrum af sjálfsdáðum. Saga hennar er dæmigerð; hún ætlaði ekki að láta þetta ganga svona langt, en um leið og lygin var farin af stað, missti hún tökin. Við höfum enga hugmynd um hversu hátt hlutfall þeirra sem bera menn röngum sökum, hafa kjark til þess að snúa við. Við höfum heldur enga hugmynd um hversu hátt hlutfall þeirra heldur áfram að gráta og sýna uppnámseinkenni hjá sálfræðingi.

Frumvarp um endurskilgreiningu nauðgunar (við skulum bara kalla gjörninga þingmanna sínum réttu nöfnum) lyktar allt af því að slakað skuli á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum. Nái það fram að ganga má reikna með að hætt verði að gera þá kröfu til brotaþola að nokkurt vit sé í frásögn hans, þar sem „eðlileg einkenni“ eru m.a. sundurlaus frásögn og minnisleysi. Af anda frumvarpsins verður það helst ráðið að líta beri svo á að þessi einkenni styrki frásögn brotaþola ef eitthvað er. Þannig er það talinn galli á núgildandi lögum að það sé metið til vafa ef konan geti ekki sagt frá því sem gerðist;

Fyrstu viðbrögð þolenda nauðgana einkennast oft af doða, tómleika og óraunveruleikatilfinningu, brengluðu tímaskyni, spennu og öðrum áfallseinkennum. Erfitt er fyrir þolendur að átta sig á hvað hafi gerst í raun og veru og frásögn þeirra af atburðinum er oftar en ekki samhengislaus.

Ef þessi einkenni verða skoðuð sem sönnunargögn í sakamálum getum við reiknað með að mikill fjöldi saklausra missi mannorð sitt og taki út þungar refsingar. Þegar við bætist greinileg tilhneiging sálfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks til að trúa „brotaþola“ hversu ótrúverðug sem sagan er, er full ástæða til að efast um réttmæti þess að líta á greiningar sérfræðinga á áfallastreituröskun sem áreiðanleg sönnunargögn.