Krossapróf fyrir fjölbýlisfólk

Hæfileikinn til að búa í fjölbýli án þess að valda öðrum ama er greinilega ekki meðfæddur. Ég bjó til krossapróf sem ég legg til að allir sem búa í sama stigagangi taki svona til að kanna hvort þeir eiga saman sem nágrannar.

1. Þú setur óvarða kúkableyju í sorprennuna. Næst þegar vindur stendur upp á ruslageymsluna má reikna með að sameignin fyllist af:
a) rósailmi.
b) kúkalykt.
c) engum sérstökum þef.

2. Þú ert að ryksuga sameignina en kuskið fer ekki af gólfinu. Æskilegustu viðbrögðin eru:
a) að renna ryksugunni í fljótheitum yfir gólfið og láta þig árangurinn engu varða því það sem skiptir máli er að skila sameigninni af sér á réttum tíma.
b) að álykta að fyrst ryksugan sé biluð sé ekki hægt að ætlast til þess að þú þrífir sameigina en húsvörðurinn muni eflaust finna á sér að eitthvað sé að og redda því síðar af sjálfsdáðum.
c) að losa stífluna og/eða skipta um ryksugupoka og ljúka svo við verkið.

 

3. Þú hefur valið lið a við spurningu nr 2. Þegar næsti íbúi ætlar að ryksuga er ryksugupokinn svo úttroðinn að hann rifnar þegar ryksugan er opnuð. Reikna má með að nágranninn verði:
a) glaður yfir því að þú skulir nýta eignir húsfélagsins svona vel.
b) pirraður yfir því að þurfa að standa í óþarfa veseni.
c) þakklátur fyrir að fá tækifæri til að þroska þolinmæði sína.

4. Þú heldur dúndrandi partý minnst tvisvar í mánuði. Nágrannar þínir munu álíta að þú sért:
a) óþolandi tillitslaus fáviti.
b) hress gaur.
c) vanur að eiga afmæli á laugardögum.

 

5. Þú leggur bílnum þínum oftar en ekki í tvö stæði. Það er:
a) sjálfsagður réttur þinn.
b) ergilegt fyrir aðra íbúa hússins.
c) nauðsynlegt fyrir þann sem er með jafn langa fótleggi og þú.

 

6. Þú leggur bílnum þínum jafnan við gulu línuna fyrir framan innganginn. Það er:
a) sjálfsagður réttur þinn.
b) allt í lagi fyrst enginn annar virðist vilja nota þetta fína stæði.
c) tálmi fyrir sjúkrabíl eða aðra sem gætu af öryggisástæðum þurft að komast alveg að inngangnum.

7. Sígarettustubbar fyrir framan anddyrið eru:
a) hluti af því að búa í borgarsamfélagi.
b) hættulegir smábörnum og að flestra mati sóðaskapur.
c) verðugt verkefni fyrir þann sem þrífur sameiginina.

8. Þú tekur eftir því að sorprennan er stífluð. Þú ættir að:
a) fara alla leið niður með sorpið til að forðast að gera ástandið verra og láta þann sem á að sjá um sameignina vita.
b) troða sorppokanum fremst í rennuna því það er hvort sem er ekki komið að þér að sjá um sameignina.
c) skilja bara ruslapokann eftir í stigaganginum.

9. Húsfélagsfundir eru:
a) góður vettvangur til að spjalla saman um daginn og veginn.
b) kjörinn vettvangur til að ræða almennt tillitsleysi fólks í næstu húsum eða dugleysi bæjaryfirvalda.
c) til þess ætlaðir að ræða þau mál sem eru á dagskránni og hægt er að leysa innan húsfélagsins.

10. Húsfélagsfundir heppnast best:
a) þegar fólk er ekkert að stressa sig á tímanum.
b) þegar sem flestir eru virkir á fundinum, taka t.d. undir með síðasta ræðumanni í löngu máli, skjóta inn hnyttnum athugasemdum hvenær sem færi gefst og segja ítarlegar reynslusögur til að skýra mál sitt.
c) þegar fólk drullast til að mæta á réttum tíma, halda sig við dagskrána og steinhalda kjafti ef einhver annar er þegar búinn að benda á það sem maður vildi sagt hafa.

 

One thought on “Krossapróf fyrir fjölbýlisfólk

  1. ————————————————

    enginn lofar einbýlið eins og sá sem reynt hefur fjölbýlið.

    Posted by: baun | 6.05.2007 | 22:34:06

    ————————————————

    úff hvað ég er fegin að búa ekki í fjölbýli…

    Posted by: hildigunnur | 9.05.2007 | 13:23:36

    ————————————————

    Sama hér!

    Snilldar texti Eva!

    Posted by: Þorkell | 14.05.2007 | 21:23:17

Lokað er á athugasemdir.