Kosningaréttur kvenna o.fl.

alþýðufólk

Þótt feministar séu búnir að runka sér svo rækilega á feðraveldishugtakinu að það er nánast orðið ónothæft, á hugmyndin sér vissulega sögulegar rætur. 

Frá landnámi ríkti feðraveldi á Íslandi í þeim skilningi að karlar réðu hag kvenna. Sterkast var karlveldið á tímum Grágásar sem afnumin var 1270. Ekki má þó gleyma því að Íslendingar, líkt og aðrar germanskar þjóðir, áttu jafnt ættmenni í karllegg og kvenlegg, höfðu hefndarskyldu, framfærslu- og erfðarétt í báðar ættir. Kona var áfram hluti ættar sinnar þótt hún gengi í hjónaband. Því var tiltekinn hópur kvenna sem ekki laut valdi karlmanna en það voru ekkjur.

Konur stóðu körlum auðvitað ekki jafnfætis en þær voru nú samt ekki eins kúgaðir og flestir virðast halda. Konur máttu eiga goðorð til forna, en kona sem átti goðorð varð að að fela karli að fara með það. Hún réði því sjálf hverjum hún fól það. Með Járnsíðu 1270 var bannað að gifta konu nema með vilja hennar og skýrar kveðið á um það í Jónsbók 1281 en það var einnig bannað samkvæmt kirkjulögum að gefa konu nauðuga.

Það var heldur ekkert lögmál að konur væru upp á menn sína komnar fjárhagslega. Séreign gilti í hjónabandi og kona réði þar eign sinni í samráði við frændur og síðar syni og þær höfðu erfðarétt. Í þeim efnum sem flestum öðrum stóðu karlar að nokkru leyti betur að vígi því konur erfðu útjarðir en karlar höfuðból. Jafnrétti til erfða var komið á um 1850.

Alþingi samþykkti margsinnis kosningarétt sjálfstæðra kvenna til sveitastjórna 1850-1900 en því hafnaði ávallt danska stjórnin/konungur. Hugsunin var þessi: Skattgreiðandi hafi atkvæðisrétt. Þetta tafði ásamt öðru kosningarétt kvenna og stórs hluta karla til Alþingis til 1916 því að ráðamenn þorðu ekki að veita konum kosningarétt meðan stór hluti karla hafði hann ekki.

Í umræðunni um kosningarétt kvenna er oftast litið fram hjá þessari augljósu skýringu á því hversvegna konur höfðu ekki kosningarétt. Það hentar enda dólgafeministum að halda á lofti þeirri ímynd að karlar hafi tekið sig saman um að halda þessum réttindum frá konum og það gera þeir feministar, sem þó vita betur, hiklaust. Auðvitað voru konur settar skör neðar en karlar en veruleikinn er nú samt sem áður örlítið flóknari. Það sama á við um önnur réttindi kvenna. Karlveldið var ekki hannað sérstaklega til að kúga konur og í raun hafa vel stæðar íslenskar konur alla tíð notið meira frelsis og réttinda en fátækir karlar.