Klukk

Zorglubb „klukkaði mig“. Mér skilst að það merki að ég eigi að opinbera af handahófi einhverjar fimm misómerkilegar staðreyndir um sjálfa mig.

Vandinn er sá að allt sem lesendum gæti hugsanlega þótt áhugavert í fari mínu er þegar komið fram (nema kannski það sem er hvort sem er ekki blogghæft). Á hinn bóginn skilst mér að þessar staðreyndir þurfi alls ekki að vera áhugaverðar, tilgangurinn sé alveg eins sá að sýna fram á hvað maður er mikill meðaljón.

Hér eru allvega 5 atriði sem flestir vita ekki um mig.

Fáir vita:

1  -hvernig ég er í rúminu
Svarið er: venjulega sofandi.

Ég borða aldrei í rúminu. Ég horfi aldrei á sjónvarp í rúminu. Ég les mjög sjaldan í rúminu og þá aðeins ef ég er veik og það gerist sjaldan. Það eina sem ég geri í rúminu fyrir utan að sofa er að ráða krossgátur eða spila scrabble við sjálfa mig. Það er ekki af því að ég hafi ekki áhuga á að gera sitthvað fleira í bælinu en það er tímafrekt að spila scrabble.

Ég sef nánast á grúfu, tala oft upp úr svefni og fer þá gjarnan með mikla speki er mér sagt.

2 -hvað ég geri í frístundum

Ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir félagsleg samskipti og afgreiði félagslegar þarfir mínar yfirleitt í kaffi- og hádegishléum. Aðeins þeir fáu vinir mínir sem nenna að tala við mig þótt ég sé með nefið ofan í krossgátu, eða að vafra á vetinu á meðan, vita hvað ég geri þegar ég er í fríi.

Ég hef í rauninni engin sérstök áhugamál. Ég hef enga ánægju af búðarápi og fer sjaldan inn í verslun nema vita hvað ég ætla að kaupa. Mér finnst leiðinlegt að fara út „að skemmta mér“ og horfi ekki á sjónvarp nema c.a. 1-2 klukkutíma á mánuði.

Mér finnst gaman að fara í leikhús, lesa vel skrifaða pistla og fylgjast með umræðum um samfélagsmál á netinu. Mér finnst líka alveg ofsalega skemmtilegt að eiga samræður við fólk sem er nógu klárt og skemmtilegt til að koma mér á óvart eða leggja eitthvað nýtt til málanna en flestir hafa ekkert nýtt að segja.

3. -hvað ég óttast

Ég er ekki sérlega óttaslegin að eðlisfari. Finnst ótti nánast góð tilfinning og fátt betra fyrir svefinn en góð hrollvekja.

Einu sinni var ég brjálæðislega hrædd við rottur. Ég er komin yfir það versta. Mér brygði örugglega illa við að fá rottu upp í buxnaskálmina en ég get horft á þær í sjónvarpi án þess að líði yfir mig.

Mér finnst samsetningin eldur og óviti ógnvekjandi en það er bæði rökrétt og frekar auðvelt að komast hjá þeim aðstæðum. Ef ég skrifa einhverntíma hrollvekjuhandit ætla ég að hafa pyndingaatriði þar sem fórnarlambið er fest við trimformtæki og einum tveggja ára hleypt í takkana. En fyrir utan fullkomlega rökréttan ótta, t.d. við vopnaða geðsjúklinga, reiða nashyrninga og að sitja í bíl með systur mína hina bensínkátu undir stýri er ég eiginlega ekki hrædd við neitt sérstakt.

Það eina sem ég man eftir í augnablikinu sem veldur mér verulegri skelfingu er tilhugsunin um að ég muni kannski líkjast móður minni með aldrinum.

4 – hvað ég er sérvitur

Mér er alveg sama hvar ég sit og úr hvaða könnu ég drekk en sérviska mín birtist bara á öðrum sviðum og hlýtur að vera óþolandi fyrir þá sem verða fyrir henni. Af almennum mannúðarsjónarmiðum reyni ég að halda tiktúrum mínum leyndum. Ég hugsa að jafnvel vinum mínum komi á óvart hvað ég er í rauninni sérvitur.

Ég er frekar umburðarlynd gagnvart slæmri umgengni en samt mjög fastheldin á hluti sem skipta minna máli, t.d. það hvernig ég vil láta brjóta þvottinn minn saman og raða í eldhússskápana. Ef einhver annar geri það „laga“ ég það í laumi síðar.

Sumt af því sem fer í taugarnar á mér sem er beinlínis fáránlegt að taka inn á sig. Ég finn t.d. til reiði (ekki pirrings heldur svona heilagrar reiði) ef sá sem þvær upp skilur eftir rusl í vaskinum og ef einhver drepur í sígarettu á mataríláti er fyrsta hugsun mín sú að verða mér úti um góða öxi og missa hana í ennið á viðkomandi. Ég þoli varla að horfa á fólk setja hníf upp í sig og svo mætti lengi telja.

Sérviska mín varðandi málfar veldur mér stundum vandræðum í vinnu. Þegar ég er að prófarkarlesa leiðrétti ég iðulega svo mikið að höfundur verður sármóðgaður.

5. -á hvaða sviðum ég er raunverulega biluð

Stundum er hugsun mín algerlega úr takti við raunveruleikann.

Dæmi: Ég er í lægri mörkum kjörþyngdar og hef verið í sömu þyngd frá 16 ára aldri. Ég hef alltaf getað étið eins og hross án þess að þurfa að hafa áhyggjur af holdafari mínu. Samt get t.d. aldrei gengið fram hjá auglýsingum um megrunarlyf án þess að skoða þær gaumgæfilega. Ég hef m.a.s. keypt mér megrunartöflur. Henti þeim auðvitað þegar ég kom heim. Hversu geðveikt er það?