Kerlingarskarð

Og skarðið sem við sáum ekki (en það stoppaði mig ekkert í því að tala um það)

kerlinginVið fórum ekki Kerlingarskarðið því þá hefðum við þurft að vakna kl 7 og ég stóð auk þess í þeirri trú að kerlingin sæist frá veginum. Kerlingin er klettadrangur sem líkist kerlingu með silungakippu á bakinu. Myndina tók RAX, ég set hana hér svo við getum bara ímyndað okkur hana fyrst við misstum af henni. Sagan segir að tröllkerling nokkur hafi verið við silungsveiðar í Baulárvatni um nóttina en orðið heldur sein og dagað uppi á heimleiðinni.

8556851561_1c3a9b2b32

8556851561_1c3a9b2b32 Hér sést kerlingin í skarðinu. Smellið á myndina til að sjá hvaðan hún er fengin.

Eftirfarandi sögur fann ég í lokaritgerð Hjördísar Pálsdóttur til MA prófs í hagnýtri menningarmiðlun en ritgerðin er birt hér. Tvær fyrri sögunar eru teknar beint upp en söguna af Skriðu-Fúsa, sem einnig er þar rakin, kunni ég fyrir og hún er endursögð.

Vegfarandi fyrir bíl í Kerlingarskarði
Um og eftir 1930 sinnti bóndinn á Vegamótum fólksflutningum úr Borgarnesi og vestur eftir. Sagan segir svo frá:

Það kom einu sinni fyrir hann [Jón Aðalstein], er hann var á suðurleið, við annan mann í bílnum og kominn upp á Kerlingarskarð, að þeir sjá allt í einu gangandi mann fyrir framan bílinn. Skipti það engum togum, að maður þessi varð undir bílnum áður en Jóni tókst að stöðva hann. Fóru þeir Jón og farþeginn strax út úr bílnum að gá að hinum slasaða manni, en þar fannst enginn maður og engin spor eða neitt, sem benti til þess að maður hefði verið þar á ferð. Varð Jóni Sigurgeirssyni svo mikið um þetta, að kunnugir fullyrða, að hann hafi aldrei lagt einn á Skarðið eftir þetta.

Draugafarþegar
Eftirfarandi saga er einnig tekin úr lokaverkefni Hjördísar Pálsdóttur:

Öðru sinni kom það fyrir, að annar bílstjóri þurfti að fara frá Stykkishólmi suður yfir Skarð, með átján manna fólksbíl, tóman. Með honum var aðeins einn maður, bóndi úr Miklaholtshreppi, á leið heim til sín.

Þegar þeir voru komnir upp á Kerlingarskarðið fóru þeir að finna til einhverra óþæginda, og fannst þeim helzt eins og þeir væru ekki lengur einir í bílnum. Litu þeir þá um öxl, og sýndist þá bílstjóranum að bíllinn væri fullsetinn af fólki. Greip þá geigur mikill, og bílstjórinn herti aksturinn eins og bíllinn þoldi mest. Kom að því að bóndanum ofbauð keyrslan, og segir hann þá við bílstjórann: „Þetta nær engri átt, það endar með því að við steindrepum okkar á þessari keyrslu. – Okkur væri skrattans nær að snúa okkur við og rukka þá um fargjaldið!“ Litu þeir þá aftur í bílinn og sáu, að nú voru öll sætin auð, og urðu þeir einskis varir það sem eftir var leiðarinnar.

Skriðu Fúsi
Á melhrygg á Kerlingarskarði stutt frá upptökum Köldukvíslar eru Fúsaskriður, kenndar við umrenning sem hét Vigfús og varð þar úti. Sagan segir að Fúsi hafi verið hinn versti dólgur sem abbaðist gjarnan upp á fólk með ósæmilegri hegðun, einkum þegar kvenfólk var annars vegar. Fyrir þá háttsemi hlaut hann dóm sem fól í sér bann við því að hann gengi uppréttur þar sem mannaferða var von. Hann fékk því vinnu sem smali því þannig gat hann gengið uppréttur en varð þó alltaf að henda sér á hnén þegar hann varð var við ferðalanga.

fusaskur_ir

fusaskur_ir Hebba sagði okkur síðar um daginn frá þessu listaverki sem nemendur á Grundarfirði gerðu og er staðsett við Fúsaskriður. Ég fann myndina á netinu. Smellið á hana til að sjá upprunann.

Þrátt fyrir þessi örlög var Fúsi ekki af baki dottinn heldur tók hann upp á því að tæla til sín aumingjagóðar konur með því að emja eymdarlega þegar þær áttu leið hjá. Góðar konur viku til hans til að gæta að honum og gat þá farið illa enda þótt hann stæði ekki uppréttur.

Eitt sinn var Skriðu-Fúsi á ferð yfir Kerlingarskarð að vetri til þegarletta óveður mikið skall á og varð hann úti. Þessa sömu nótt dreymdi bóndann á Hjarðarfelli að Fúsi kom á baðstofugluggann og kvað:

Skriðu-Fúsi hreppti hel
hálfu fyrr en varði.
Úti dó — það ei fór vel —
á Kerlingarskarði.

Þar sem götur ganga á víxl,
glöggt má að því hyggja,
lítinn spöl frá Köldukvísl,
kveð ég hann Fúsa liggja.

Fúsi fannst dauður í kvíslum á miðju fjallinu og draga þær nafn sitt af honum. Þar þykir mjög reimt og hefur mönnum oft orðið illt eða óglatt á þeim stað og bílar bilað upp úr þurru. Margir hafa orðið þar úti.