Kenningagrundvöllur Þjóðkirkjunnar

Þegar börn fermast, fara þau með ákveðna trúarjátningu. Með henni lýsa þau trú á margskonar þvælu sem afskaplega fáir trúa í raun, t.d. meyfæðinguna. Einnig viðurkenningu á heilagleik kirkjunnar, semsagt því að ekki skuli efast um kenningargrundvöll hennar og túlkun yfirmanna hennar á Biblíunni. Reyndar má vel draga í efa að 14 ára börn hafi forsendur til þess að skilja hvað felst í því að lýsa yfir trú á heilagleik stofnunar en ekki er síður gagnrýnivert að þau eru látin lýsa þessu yfir þótt þau hafi sáralitla þekkingu á kenningagrundvelli hennar og hafi ekki einu sinni lesið Ágsborgarjátninguna frá 1530, sem var þó ætlað að rökstyðja það sem á þeim tíma taldist frjálslyndi.

Börnum er þannig ekki kynnt sú afstaða kirkjunnar að hún fordæmi:
– muslimi,
– þá sem ekki játa að maðurinn sé fæddur syndugur,
– endurskírendur (t.d. Amishfólkið) og aðra þá sem hafna því að barnsskírnin sé nauðsynleg til að manneskjan verði hólpin (m.ö.o. þá sem trúa því ekki að börn fari til Helvítis ef þau deyja óskírð)
– þá sem trúa því að menn geti öðlast guðdómlega opinberun eftir öðrum leiðum en í gegnum uppfræðslu kirkjunnar og sakramenti hennar
– þá sem trúa ekki á eilífa vist í Helvíti
– og lýsa vanþóknun á þeim sem líta á alatissakramentið eingöngu sem tákræna athöfn og hafna því að það komi fólki raunverulega í snertingu við blóð og líkama Krists.

Fermingarbörnum er heldur ekki kynnt sú afstaða:
– að þrátt fyrir að mönnum sé skylt að hegða sér vel, hafi góð verk engin áhrif á velþóknun Gvuðs, heldur hljóti menn náð fyrir það eitt að trúa.
– að vondum mönnum sé heimilt að úthluta sakramentum (sem merkir að barnaníðingar  og morðingjar mega starfa sem prestar)
– að þótt með skriftum innan lúthersku kirkjunnar sé ekki átt við tíundun á öllum yfirsjónum eins og Kaþólsku kirkjunni, sé prestum samt sem áður skylt að ganga úr skugga um að sóknarbörn megi ekki taka þátt í altarisgöngu nema hafa áður gengið til skrifta.

Hægt væri að tína til margt fleira úr kenningagrundvelli Þjóðkirkjunnar, sem er algerlega úr takti við tíðarandann og sem meirihluti skráðra meðlima Þjóðkirkjunnar er algerlega ómeðvitaður um.

Hversvegna í ósköpunum er Þjóðkirkjan ekki löngu búin að hafna formlega nær 500 ára gömlu samkomulagi sem er algerlega úr takti við hugmyndir langflestra Íslendinga um miskunnsemi, kærleika og ýmsa aðra eiginleika sem guðdómnum eru eignaðir?

Væri ekki bara eðlilegast að Þjóðkirkjan lýsti yfir fráhvarfi sínu frá evangelisk-lútherskri Biblíutúlkun og semdi nýja stefnu sem samræmist alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og almennum siðferðishugmyndum?

Í alvöru talað, enginn heilvita maður trúir því að Biblían komi frá Gvuði, ekki heldur þeir sem trúa á persónulegan gvuð. Langflestir Íslendingar trúa heldur ekki á persónulegan gvuð, heldur hafa flestir trúaðir Íslendingar einhverja óljósa hugmynd um yfirskilvitlegt afl sem hafi frekar lítinn áhuga á kynlífi fólks og beiti refsingum í hinu mesta hófi. Best gæti ég trúað því að fleiri hefðu áhuga á að sækja kirkju ef sá skilningur væri yfirlýst stefna kirkjunnar.

Hér má lesa um kenningagrundvöll Þjóðkirkjunnar en þar er m.a. Ágsborgarjátningin talin.

 

21 thoughts on “Kenningagrundvöllur Þjóðkirkjunnar

  1. Sæl þrumunorn! Hvernig getur þú sagt: ,,Fermingarbörnum er heldur ekki kynnt sú afstaða….“
    Hefur þú verið í fermingartímum hjá mér? Þar er allt undir. Þú ert velkomin. Kv. Baldur

  2. Takk fyrir svarið Baldur. Ég hef ekki spurt neinn sem hefur sótt fermingarfræðslu há þér en ég hef spurt mikinn fjölda unglinga út í það efni sem þeim hefur verið kynnt í fermingarfræðslu í öllum landsfjórðungum og aldrei hitt fermingarbarn sem vissi að Þjóðkirkjan fordæmir muslimi og þá sem trúa því ekki að óskírð börn fari til Helvítis. Heldur ekki fermingarbarn sem vissi að kirkjan trúir því að dauðir sofi í gröfum sínum til dómsdags og þar með er hinn sterki spíritismi sem viðgengst á Íslandi í hrópandi ósamræmi við kenningu kirkjunnar.

    Þegar sonur minn var í fermingarfræðslu reyndi hann ítrekað að fá þrjá presta til að ræða kenningu kirkjunnar um upprisuna, Helvíti, syndaaflausnina og fleira óþægilegt. Talinu var í öllum tilvikum eytt án þess að nokkur svör fengjust.

    Fræðir þú þín fermingarbörn um það að óskírð systkini þeirra fari til Helvítis nema Gvuð miskunni sig sérstaklega yfir þau, að afi þeirra og amma séu sofandi í gröfum sínum og muni ekki láta á sér kræla fyrr en Jesús kemur til að dæma þau og að kirkjan fordæmi muslima og amishfólk?

  3. Áhugavert umræðuefni og takk fyrir tenglana Eva.

    Ég verð að taka undir með Evu að eitthvað virðist vera bogið við kristna fermingarfræðslu. Mín reynsla er jafnvel sú að fermd ungmenni viti ekki einu sinni hvað kirkjan þeirra heitir (þ.e. hin evangelíska-lútherska)

  4. Ef ég skil lúterskuna rétt þá eru hvorki góð verk né trú nægileg til að tryggja vist í Himnaríki. Það er sá gamli, duttlungafulli sem fellir dóminn.

  5. Egill Másson: ég er nokkuð viss um að það er kalvinismi þar sem guð hefur slíkt duttlungarvald.
    Lúther er nokkuð klár á að trúin skipti máli.

  6. Svona færslu er ekki hægt að tækla í stuttu máli. Takk fyrir að spyrja og leyf mér að taka á einu orði í sambandi við 1. gr. Ágsborgarjátningarinnar, þegar þú bendir réttilega á að söfnuðirnir, sem stóðu (og standa) að henni fordæmi Muslimi (meðal annarra).

    Við fordæmum ýmislegt enn þann dag í dag. Til dæmis orð sem við upplifum sem hatursáróður, eins og Snorri fv. Betelprestur fær að upplifa þessa dagana. Við fordæmum líka ógagnsæa stjórnarhætti, spillingu og sum okkar fordæma bókstafstúlkun biblíunnar og laga (sbr. Jónas Kristjánsson, sem þreytist ekki á að kalla tiltekna lögfræðinga « lagatækna »).

    Ágborgarjátningin og söfnuðirnir segja og meina að með því að fordæma Muslimi, hallast þeir ekki að nýrri opinberun Guðs orðs sem sé Jesú Kristi æðra (eins og Múhammeð gerði). Hinir, s.s. Aríusarsinnar, Manikear o.s.frv. standa fyrir hugmyndir og stefnur sem lútherskar kirkjur gera ekki að sínum eigin.

  7. Takk fyrir að benda á það, sem skiptir mestu máli, Egill. Skoðum aðeins hvað Ágsborgarjátingin (CA) hefur að segja.

    CA: « Menn geta ekki réttlæst fyrir Guði af eigin kröftum, verðleikum eða verkum, »

    Mönnum er ómögulegt að ganga í augun á Guði, þannig að þeir geti orðið eins og þeir eiga að vera (réttlátir) frammi fyrir honum.

    CA: « heldur réttlætast þeir án verðskuldunar vegna Krists fyrir trúna »

    Guð gefur þeim það að gjöf að fá að vera eins og þeir eiga að vera (réttlættir) vegna Jesú Krists, sem krafðist þess að þeir trúðu.

    CA: „er þeir trúa því, að þeir séu teknir til náðar og syndirnar séu þeim fyrirgefnar vegna Krists, sem með dauða sínum hefur fullnægt fyrir syndir vorar. »

    Trúin felur í sér að þeir treysta Jesú Kristi til að færa þá frá fordæmingu til náðunar, fyrir það sem Jesús gerði með lífi sínu og dauða.

    CA: „Þessa trú reiknar Guð til réttlætis fyrir sér, Róm. 3. og 4. (Rm 3.21nn; 4.5.).“

    Líf með Guði, trúin sjálf gefur okkur nýja byrjun frammi fyrir Guði.

  8. Carlos: Ég veit að margir prestar ríkiskirkjunnar (og annarra kristinna safnaða) fordæma mannréttindabrot af öllu tagi, og sumir standa þar framarlega í flokki í umræðunni. Það er gott.

    Ég skil hins vegar ekki af hverju í ósköpunum þið lýsið yfir að þið lítið á Biblíuna „sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.“ Í þessari Biblíu stendur nákvæmlega það sem Snorri er að segja (fyrir utan alls konar annan viðbjóð).

    Af hverju eruð þið ekki samkvæm sjálfum ykkur og gefið út nýtt trúarrit, sem inniheldur það sem þið raunverulega trúið á og/eða eruð sátt við? Eða gefið a.m.k. út lista yfir það í Biblíunni sem ykkur finnst ekki í lagi?

    Ég hef enn engin svör heyrt við þessu frá ykkur (þessu kirkjufólki sem allir vita að vill vel og hefur enga af þeim fordómum sem Biblían er full af) við þeirri spurningu, sem mér finnst svo hrópandi.

    Eruð þið virkilega ekki tilbúin til að viðurkenna umyrðalaust að margt af því sem stendur í Biblíunni (og sú hugmyndafræði sem það byggir á) er manneskjufjandsamlegt, og ekki sæmandi nokkuri góðri manneskju að skrifa undir, hvað þá að dreifa á prenti?

  9. Jájá og fordæmingin á þeim sem trúa ekki að börn séu fordæmd ef þau deyja óskírð, merkir líka eitthvað allt annað en það sem stendur í Ágsborgarjátningunni. Það er nefnilega þannig með Þjóðkirkjuna að þegar viðhorfin samfélagsins breytast, þá bara halda talsmenn Þjóðkirkjunnar því fram að allir hafi um aldir og jafnvel árþúsund, misskilið boðskapinn og hann merki eitthvað allt annað en orðin segja.

    Væri nú ekki heiðarlegra að viðurkenna bara að þessi rit eru úrelt og gefa frekar út nýja yfirlýsingu um það hvað Þjóðkirkjan boðar, og hætta að ljúga því að fólki að eitthvað sé heilagt við það?

  10. Biblían er lögbók fyrir þann sem leitar að lögum í henni. Hún er saga Hebrea fyrir þá sem það vilja, orðrétt orð Guðs fyrir þá sem það vilja og sumum er hún ekki neitt. Mér er hún vitnisburður kynslóðanna um samskipti Guðs og manna og ég hef bara ekki leyfi eða geð í mér að kasta henni. Frekar vil ég glíma við erfiða texta, takast á við þá og segja frá glímu minni. Vegna þess að í þessari glímu tekst ég á við sjálfan mig og Guð.

    Ég er hræddur um að ef ég kastaði biblíunni eða hreinsaði hana, dálítið eins og Bowdler hreinsaði til í Shakespeare, yrði harla lítið eftir annað en eintal mitt við sjálfan mig í þæginlegu, átakalitlu rými.

    Við skrifum ný trúarrit, Einar. Þú finnur þau m.a. á tru.is. Þau hafa bara ekki sama status og biblían. Góðar prédikanir sem nánast er hægt að nota í stað trúarjátninga verða e.t.v. til einu sinni á öld eða svo. Martin Luther King flutti eina slíka, andspænis kynþáttarmismunun (I have a dream). Hallgrímur Pétursson orti Passíusálmana sem ennþá eru lesnir af því að þeir ná inn í kjarnann. Martin Lúther útskýrði bæn Drottins svo vel fyrir börnum, að fræðin minni eru eitt af játningarritum lúthersku kirkjunnar.

    Við bætum við en hendum ekki. Enginn veit hvernær og hvernig textarnir tala til okkar. Þessvegna túlkum við en endurskrifum ekki (sjá t.d. http://www.lutheranworld.org/lwf/index.php/consultation-bible-interpretation.html).

    Ef þú hefur áhuga á því hvernig einn umdeildasti biskup anglikana tekst á við erfiðustu texta biblíunnar og hvaða ályktanir hann dregur, þá get ég bent þér á John Spong, (http://en.wikipedia.org/wiki/John_Shelby_Spong), sérstaklega bók hans « The Sins of Scripture: Exposing the Bible’s Texts of Hate to Reveal the God of Love »

  11. En hvað er hún fyrir kirkjunni Carlos? Ég sé ekki betur en að kirkjan haldi því fram að Biblían sé „Heilagt Orð Guðs“. Því trúir hinsvegar ekki nokkur heilvita maður, ekki heldur prestar, svo ég er að leggja til að kirkjan viðurkenni að Biblían sé ekki „Orð Guðs“ heldur gamalt, úrelt trúarrit og að í dag sé betra að sníða trúna að þeim siðum og hugmyndum sem fjöldinn fylgir. Er eitthvað sem mælir á móti því?

  12. Ef þetta yrði gert, þá væri ekki jafn flókið að framfylgja lögum gegn hatursboðskap. Eins og staðan er, stangast kenningar sem að nafninu til eru hluti af boðun Þjóðkirkjunnar á við landslög. Það er bannað að fordæma homma, muslimi og aðra minnihlutahópa en á meðan kirkjan boðar beinlínis fordæmingu er fráleitt að prestar séu að hnýta í Snorra í Betel.

  13. Carlos: Í þessari frétt, http://www.visir.is/i-bibliunni-er-baedi-ast-og-hatur/article/2012702189971, er því haldið fram að eitthvað hafi verið fjarlægt úr íslensku Bibliunni á tímabili. Það bendir til að kirkjan líti svo á að það sé hægt að „hreinsa út“ og bæta við. Ef það var hægt í þessu tilfelli, þá skil ég ekki af hverju það ætti ekki að vera hægt að gera það núna.

    Það er líka alveg ljóst að margt af því sem stendur í Biblíunni var túlkað sem boð og bönn, oft um hryllilega hluti, nánast allan þann tíma sem Biblían hefur verið til. Þegar þíð eruð nú búin að snúa baki við þeim boðskap, þá skil ég ekki af hverju þið gerið það ekki algerlega og hættið að dreifa á prenti því sem augljóslega hefur aldrei verið neitt jákvætt, heldur bara ljótur boðskapur.

    Mér finnst þetta einfaldlega óheiðarlegt, og skil ekki hvernig ykkur dettur í hug að reyna að réttlæta þetta. Það er eitt að vilja ekki henda þessari bók, en það er annað að lýsa yfir, eins og íslenska ríkiskirkjan gerir, að þetta rit geymi orð þess Guðs sem kirkjan trúir á að sé almáttugur og sem hún tilbiður.

  14. Eva, hérna eru tvær tilvitnanir í Kirkjan játar eftir Sigurbjörn Einarsson (sá sem kennir trúfræði í guðfræðideildinni).

    Fyrst um gildi játninganna:

    „Nú ríkir trúfrelsi, svo að trúarjátningin er engin réttarregla, heldur hefur svo að segja hlotið aftur sitt upprunalega hlutverk sem hið kristna einkenni. Þess vegna eru þeir sem gegna opinberri þjónustuinnan kirkjunnar, prestar og kennimenn, skuldbundnir til að haga boðun sinni og vitnisburði í samræmi við trúarjátningar kirkjunnar. Er sú skuldbinding orðuð á þá leið, að hver prestur lofar því við vígslu sína eftir því sem Guð vill honum náð til þess veita

    að predika Guðs orð hreint og ómengað eins og það er að finna í hinum spámannlegum og postullegum ritum, og í anda vorrar evangelísku lúthersku kirkju.“ Bls 22

    Svo önnur tilvitnun um fordæmingarnar:

    „Nú á dögum hefur fordæming af þessu tagi einungis kirkjuréttarlegar afleiðingar og tekur fram, hve langt guðsþjónustusamfélagið nái.“ bls 82

    Nú eru ýmsir (ég held flestir) prestar ríkiskirkjunnar fordæmdir í Ágsborgarjátningunni. Það er merkilegt að prestarnir eru utan „guðsþjónustusamfélagsins“.

  15. Takk Hjalti Rúnar. Það er með ólíkindum hvað kirkjan er fastheldin á hugmyndir sem afskaplega fáir fella sig við í raun og veru. Á mannamáli er þetta náttúrulega kallað „rugl“.

  16. Það sem mér finnst merkilegast er að lang-flestir prestar virðats ekki þorfa að segja hreint út að þeir hafni hinu eða þessu ruglinu.

    Í staðinn fáum við allskonar orðaleikfimi. Til dæmis segir Baldur núna að þeir „túlki í burtu“ allt ruglið í biblíunni, í staðinn fyrir að tala t.d. um að þeir taki einfaldlega ekki mark á því þegar biblían ruglar. Þannig er hægt að játast undir biblíuna í orði, en gera það ekki í raun.

  17. Þessi skýring Baldurs segir reyndar mjög mikið um hugsunarhátt Íslendinga. Á sama hátt eru ákvæði stjórnarskrárinnar túlkuð burt þegar þau henta ekki yfirvöldum og þarf Hæstarétt til að slá á puttana. Ákvæði jafnréttislaga túlkuð burt þegar hallar á karlmenn. Almennt siðferði túlkað burt þegar einhver kemst í aðstöðu til að ræna banka innan frá.

  18. « Sem dæmi má nefna að svokallaðar Apokrýfar-bækur Gamla testamentisins voru ekki í íslensku Biblíunni frá 1866 til 1981, en eru þar nú. Það er því ekki eins og Biblían hafi sprottið alsköpuð fram, hún er ritstýrt greinasafn. » Þannig segir í greininni á Vísi sem þú bendir á, Einar. Apókrýfuritin duttu úr íslenskum bíblíuþýðingum um skeið (kannski vegna breskra áhrifa) en eru komin inn aftur. Þau eru hluti flestra biblíuútgáfa í Evrópu en vantar í sumar bandarískar og breskar útgáfur, ef ég man þetta rétt. Eitt ritanna, Síraksbók var vinsæl hér á landi um aldir.

  19. Fyrir nokkrum áratugum var viðurkennt að Biblían væri ekki “Orð Guðs” heldur gamalt, úrelt trúarrit og talið betra að sníða trúna að þeim siðum og hugmyndum sem fjöldinn fylgdi. Biblíunni var því skipt út fyrir nýja bók, Mein Kampf, sem lögð var á altarið. En sú entist ekki að ráði.

  20. Hún entist ekki að ráði af tveimur ástæðum. Hún var almennt ekki álitin heilög og lífsspekin sem hún predikaði var mjög vond. Það er einmitt snilldin við að aflétta helginni af öllum ritum, fólk mun þá fljótlega henda þeim hugmyndum sem stríða mót samvisku þess.

Lokað er á athugasemdir.