Kaus ekki

Ég kaus ekki. Ég er þegar búin að slíta viðskiptasambandi við Ísland og gefa þannig mjög afdráttarlaust svar um að ég ætli ekki að greiða skuldir einkafyrirtækja sem ég hef aldrei gengist í neina ábyrgð fyrir. Mér finnst rétt að þeir sem ætla að búa á landinu áfram ráði því sjálfir hvort og hvernig þeir borga skuldir annarra. Ég myndi hinsvegar taka þátt í kosningu um málefni sem varða hagsmuni alheimsins.

Ég skil annars ekki hvað íslenskum almenningi virðist ganga illa að átta sig á rót icesave vandans, rót efnahagshrunsins sjálf. Ég hef ekkert á móti því að menn persónugeri vandann því valdamenn bera vitanlega ábyrgð á gjörðum sínum. Það er hinsvegar ekkert nóg að persónugera vandann (eða ‘flokksgera’ hann), heldur þarf að taka á rótinni. Það er einmitt það sem róttækni gengur út á.

Ég álít að langflestir þingmenn bjóði sig fram með góðum ásetningi. Það er hinsvegar margbúið að sýna sig að hversu grandvar og heiðarlegur sem maðurinn er, þá spillist hann um leið og hann fær völd í hendurnar. Það er ekki fólkið á Alþingi sem er stærsta vandamálið, heldur stofnunin sjálf og raunar allt stjórnkerfið og efnahagskerfið. Þessvegna þarf alvöru byltingu. Það mun aldrei breyta neinu sem skiptir máli þótt nýr skipstjóri taki við handónýtum dalli.

Það er heldur ekki fámennið sem er orsök spillingarinnar. Spilling þrífst líka prýðilega í stórum samfélögum. Rót spillingarinnar er sama gamla vandamálið; of fáir hafa of mikil völd. Á meðan Íslendingar búa við stöðugt leynimakk um hluti sem skipta alla máli munu of fáir hafa of mikil völd og öfugt.

Þann 6. mars var Alþingi götunnar stofnað á Íslandi. Þ.e.a.s. í orði. Ég hef enga trú á að þeir sem stóðu að yfirlýsingunni hafi nokkra áætlun um að framfylgja henni, þetta er sennilega álíka mikið blaður og greiðsluverkfall hagsmunasamtaka heimilanna. Það er þó einmitt það sem þarf að gerast, það þarf að stofna Alþingi götunnar í alvöru, færa þau völd sem einn maður hefur til hinna þúsund sem fá ekki einu sinni að sjá þessa fokkans skýrslu.

Ég tók ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni af því að hún snerist um eiginhagsmuni þeirra sem stofnuðu til skuldanna og þeirra sem sjá fram á að þurfa greiða þær. Ég myndi hinsvegar styðja raunverulega stofnun Alþingis götunnar, þótt ég búi ekki lengur á landinu. Það er nefnilega hagsmunamál alheimsins að ein smáþjóð komist út úr þeim hugsunarhætti að best sé að velja örfáa umboðsmenn til að hugsa fyrir sig.