Ílát

Ég tala um há ílát með loki sem bauka, sérstaklega ef þau eru úr málmi. Baukur sem er hlutfallslega mjög hár er staukur, einkum ef gert er ráð fyrir að maður noti hann til að strá eða hella innihaldinu úr. Málmílát sem ekki er hægt að loka aftur og lægri bauka kalla ég dósir og þau sem eru meiri á vídd en hæð heita box. Það er líka hægt að tala um platbox og pappabox en ef það er ekki tilgreint nánar er box úr málmi. Stór málmílát heita dunkar.

Dunkur

Gler- og leiríílát eru krukkur ef þau eru með loki en krúsir eru opnar eða kannski með korktappa en aldrei skrúfuðu loki. Plastílát kalla ég oftast dalla eða dollur. Ílát með haldi heita fötur. Dósir og baukar eru yfirleitt ekki úr plasti, allavega ekki mjúku plasti og dollur helst ekki úr málmi en þó möguleiki, einkum ef það er lélegt ílát. Falleg, skreytt ílát eru skrín. Öskjur geta verið úr hverju sem er en þær eru yfirleitt meiri á vídd en hæð.

Einar kallar öll ílát bauka núorðið en hann gerði það ekki þegar við kynntumst. Líklega tók hann upp á því að nota eingöngu orðið baukur um ílát, af því að honum fannst eitthvað fyndið við að heyra mig tala um bauk-ha með hörðum framburði. Ég hafði aldrei hugsað út í það fyrr en ég fór að búa með Einari hvað ég hef ákveðnar en ekki endilega rökréttar hugmyndir um heiti mismunandi íláta.

Ég gerði ófomlega athugun á þessum orðaforða meðal Facebookfélaga. Fékk m.a. það svar að dós væri með loki en dolla ekki. Spurði hvor niðursuðudós hætti þá að vera dós þegar búið væri að opna. Ekki stóð á svarinu: „Jebb. Þú rífur lokið af dósinni og bara dollan eftir“. Ég efast. Tel mig hafa hent mörgum tómum niðursuðudósum.

Einhver sagði þann mun á drykkjardós og niðursuðudós að drykkjardós gæti verið baukur en niðursuðudós ekki. Mér skilst að fyrir norðan sé eitthvað um að fullorðnir tali um drykkjardósir sem bauka. Erla, seinni kona Reynis Leóssonar, notaði það orð í myndinni sem var sýnd milli hátíðanna. En ég efast. Tel víst að baukur sé með  loki.

Bent var á að klósett væri stundum kallað dolla en aldrei dós. Það styður þá tilgátu sem einhver annar setti fram, að dolla sé neðar í virðingarstiganum.

Ílát með málningu heitir ýmist málningardós eða málningardolla og einhver benti á að að ef hún fer yfir 2,5 lítra yrði hún málningarfata. Kannski er það af því að svo stór ílát eru með haldi?

En hvað í ósköpunum heita há, ferköntuð plastílát með loki, eins og þessi á efstu myndinni?