Í framhaldi af bréfi til Höllu

Í framhaldi af þessum pistli

Áhugamenn um málefni hælisleitenda, ættu að kynna sér handbók um réttarstöðu flóttamanna sem gefin er út af flóttamannahjálp SÞ. Hana má finna í íslenskri þýðingu hér. Takið sérstaklega eftir grein 196:

Það er almenn meginregla lögfræðinnar að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem leggur fram kröfu. Oft getur umsækjandi hins vegar ekki stutt framburð sinn með skriflegum gögnum eða öðrum sönnunum. Það er undantekning frekar en regla að umsækjandi geti fært sönnur á allan framburð sinn. Oftast kemur sá sem flýr ofsóknir aðeins með alnauðsynlegustu eigur sínar og án persónulegra skjala sinna. Af þessu leiðir að þótt sönnunarbyrðin hvíli á umsækjanda þá er það sameiginleg skylda umsækjanda og viðkomandi stjórnvalds að komast að raun um staðreyndir málsins og að meta þær. Í ákveðnum tilvikum getur það jafnvel verið á herðum stjórnvaldsins að beita öllum tiltækum ráðum til þess að leggja fram nauðsynleg gögn sem styðja umsóknina. Sjálfstæð rannsókn af þessum toga getur þó verið án árangurs en einnig getur verið erfitt að færa sönnur á þann framburð sem fyrir liggur. Við þessar aðstæður ber að láta umsækjanda njóta vafans ef frásögn hans virðist trúverðug nema góðar og gildar ástæður mæli á móti því.

(Leturbreyting mín)

 

Sú kynþáttahyggja sem tíðkast hjá Útlendingastofnun, flokkast ekki sem „góðar og gildar ástæður“ og hugboð einhvers starfsmanns Útlendingastofnunar um að umsækjandi sé hugsanlega ekki í lífshættu í heimalandi sínu er það ekki heldur.

Auk þess legg ég til að sem flestir kynni sér 45. grein útlendingalaganna. Fyrsti hluti hennar hljóðar svo:

Ekki má samkvæmt lögunum senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

 

Ekki verður annað séð en að Íslendingar hafi hvað eftir annað þverbrotið gegn þessum samningi.

Ég veit ekki hversu margir flóttamenn sem staddir eru á Íslandi eiga það á hættu að vera endursendir til svæðis þar sem engin trygging er fyrir því að þeir fái réttláta málsmeðferð. Ég veit þó um einn mann sem er í þeirri stöðu og það er Mohammed Lo. Norðmenn hafa þegar neitað honum um hæli og verði hann sendur aftur til Noregs, merkir það að frændur okkar þar munu reka hann aftur til Máritaníu.

Mohammed er einstæðingur í veröldinni. Eini eftirlifandi ættingi hans sem hann hefur nokkurn tíma séð, er systir hans sem nú er í Senegal. Mohammed þekkir engan í Noregi. Hann þekkir heldur engan í Máritaníu nema eyðimerkurþræla. Eina von hans um að komast af ef hann verður sendur þangað er sú að aðrir leysingjar komi honum til bjargar. VIð erum að tala um fólk sem lifir við þessar aðstæður, flest ólæst og hefur nánast enga þekkingu á réttindum sínum. Miklu líklegra er þó að hann verði aftur hnepptur í þrældóm og refsað fyrir strokið með geldingu.

Þið sem sjáið óréttlætið í því að Innanríkisráðherra haldi Mohammed í gíslingu mánuðum saman á meðan hann er að velta fyrir sér möguleikanum á því að hætta að brjóta gegn mannréttindum hans, í hamingjunnar bænum, hjálpið okkur. Látið Höllu Gunnarsdóttur vita af því að þið hafið lesið þennan pistil og annað sem fram hefur komið um mál Mohammeds og aðra flóttamenn sem óttast um öryggi sitt og frelsi, og að þið séuð ekki sátt. Prófið það endilega. Það virðist nefnilega tilgangslaust að reyna að tala við Ögmund.

Kannski er eina von Mohammeds sú, að Halla setji hin kvenlegu gildi ofar þjónkun við þjóðernishyggju. Þá þjóðernishyggju sem ávalt setur þægindi innfæddra, ofar lífi og velferð okkar allra minnstu bræðra.

Netfang Höllu er halla.gunnarsdottir@irr.is