Hver er afstaða kirkjunnar til samkynhneigðar?

Nokkrir virkir meðlimir í starfi Þjóðkirkjunnar, bæði prestar og leikmenn sem lýsa sjálfum sér sem trúuðum, hafa talað um það opinberlega að þeir líti ekki á samkynhneigð sem synd. Það finnst mér hið besta mál.

Í þessari yfirlýsingu liggur sú afstaða að Biblían sé ekki orð Gvuðs, heldur gamalt trúarrit sem megi og eigi að endurtúlka í samræmi við tíðarandann. Mér finnst þetta mjög jákvætt því hvað sem allri skynsemi líður er fullt af fólki sem viðurkennir nútímahugmyndir um mannréttindi en vill líka dýrka Jesús og mæta í messur. Auðvitað á fólk fullan rétt á trú og tilbeiðslu og bara frábært að fólk geti iðkað trú sína án þess að ganga á rétt annarra.

Hinsvegar er það nú svo að Íslenska þjóðkirkjan tilheyrir evangelisk-lúthersku kirkjudeildinni og sú kirkjudeild túlkaði lengst af Biblíuna á þann veg að samkynhneigð sé synd og a.m.k. í Bandaríkjunum er sú túlkun enn í fullu gildi.

This church regards the practice of homosexual erotic behavior as contrary to God s intent for his children. It rejects the contention that homosexual behavior is simply another form of sexual behavior equally valid with the dominant male/female pattern.

Sumar kirkjudeildir hafa smámsaman verið að falla frá þessari ógeðslegu skoðun og það gleður mig að heyra að margir trúmenn líti á hana sem úrelta. Vandamálið er að ólíkt skoðun þessara frjálslyndu, kristnu manna eru skoðanir Snorra í Betel í fullu samræmi við túlkun Evangelista. Það eruð þið, kæru mannréttindasinnar sem eruð sjálfum ykkur ósamkvæm. Snorri aftur á móti er trúr þeirri sannfæringu sem trúarsöfnuður hans byggir á. Löglegur trúarsöfnuður. Ef á að fordæma orð Snorra, hlýtur því fyrst að þurfa að fordæma Evangelísku kirkjuna og aðrar kirkjur sem halda fram sömu skoðunum. Það er dálítið erfið aðstaða fyrir skólayfirvöld sem og presta og virka meðlimi Þjóðkirkunnar að fordæma evangelíska biblíutúlkun, allavega á meðan við höfum evangelísk-lútherska þjóðkirkju.

Þegar prestur stígur fram og fordæmir afstöðu Snorra í Betel til samkynhneigðar, vakna eðlilega spurningar um það hver hans biblíutúlkun sé eiginlega. Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem deilt er um túlkun Þjóðkirkjunnar og hennar manna á þeim versum sem fordæma mök tveggja karla og nú vil ég bara fara að fá þetta á hreint.

Það er, í alvöru talað, ekki hægt að bjóða almenningi upp á það mikið lengur að vita ekki hvort Þjóðkirkjan lítur á mök samkynhneigðra sem dauðasynd eður ei. Það er heldur ekki hægt að bjóða prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar upp á það.

Eðlilegast væri að Þjóðkirkjan lýsti sig fallna frá evangelísk-lútherski heimssýn og tæki upp þá trúarstefnu sem séra Baldur Kristjánsson og sennilega yfirgnæfandi meirihluti trúaðra Íslendinga aðhyllist í raun, þ.e. þá skoðun að Biblían sé ekki heilög ritning, heldur gömul bók sem eigi fremur að umgangast sem þjóðsagnasafn en lögbók og að trú og kirkjustarf eigi að taka breytingum í samræmi við þróun mannréttinda og almennra siðferðishugmynda. Með því yrði auðvitað fallið frá þeirri meginreglu að kirkjan eigi að leiða sauðina en ekki öfugt en þar sem sauðirnir virðast í mikilvægum málum öllu réttsýnni en yfirstjórn kirkjunnar, ættu menn að taka þeim breytingum fagnandi.

33 thoughts on “Hver er afstaða kirkjunnar til samkynhneigðar?

  1. Takk fyrir að spyrja, – ég held að spurningar þínar liggi á mörgum og margir séu orðnir ringlaðir. –

    Skrifaði pistil í febrúar 2010 um Biblíuna sem „Orð Guðs“ .. eða ekki.
    http://naflaskodun.blog.is/blog/naflaskodun/entry/1015566/
    Þetta tengist inn á þitt efni, þar sem efni úr henni var stillt upp orðrétt í athugasemdum hjá mér gegn samkynhneigðum, en fékk beiðni frá mbl.is um að fjarlægja þær athugasemdir þar sem þær stönguðust á við hegningarlög. –

    Nákvæmlega svona orðað í tölvupósti:

    „Að mati lögmanns Morgunblaðsins eru þessar setningar brot á ákvæðum 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er því óheimilt að birta á mbl.is „

  2. Þetta má finna í samykktum þjóðkirkjunnar:

    Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.

    Er ekki tímabært að endurskoða þetta, ef meirihluti presta og félaga Þjóðkirkjunnar líta á a.m.k. stóran hluta Biblíunnar, ekki síst Gamla testamentið, sem safn fornra, áhugaverðra og inspirerandi sagna, frekar „orð Guðs“ og heilagan sannleika?

  3. Takk fyrir gott innlegg Jóhanna. Það er náttúrulega mjög undarleg staða að halda uppi þjóðkirkju sem boðar hugmyndir sem brjóta í bága við almenn hegningarlög. Og sérstaklega bagalegt kristinn maður má ekki vitna í Biblíuna nema taka sérstaklega fram að hann sé á móti því sem í henni stendur.

  4. Íslenska þjóðkirkjan er með þeim fyrstu í heiminum, sem viðurkenna og blessa sambúð samkynhneigðra para. Það gerði hún eftir að ríkisvaldið ákvað að viðurkenna þetta sambúðarform, óháð kynhneigð.

    Við þetta er að bæta, að kirkjan getur ekki og mun ekki framkvæma helgiathafnir, sem hún getur ekki staðið við trúarlega. Opinber afstaða kirkjunnar er s.s. sú að hún vígir/blessar sambúð samkynhneigðra para og sú sambúð er ekki sambúðarform « í synd ».

    Að þessu sögðu er prestum gefið frjálst hvort þeir vígi sambúð samkynhneigðra para. En það breytir því ekki að björninn er unninn, kynhneigð samkynhneigðra og sambúð er jafnhrein, jafngóð tjáning ástar manna og gagnkynhneigð hliðstæða hennar. Þetta réttlætir Þjóðkirkjan gagnvart biblíunni með því að horfa á trúnaðarloforð paranna sem vilja ganga í sambúð, enda er loforð loforð, óháð kynferði og kynhneigð.

  5. Mér finnst það mjög fyndið karaktereinkenni á Jehóva Gamla testamentisins að vera alltaf að hamra á því að hann sé Drottinn. Einræðisherra á páerflippi er ekki jafn upptekinn af rétti sínum til að setja hin undarlegustu lög. Maður hefði haldið að sá sem er almáttugur ætti ekki að þurfa á slíkri sjálfsstyrkingu að halda.

  6. Biblían er barn síns tíma og kaflarnir í Levítíkusi skrifaðir fyrir bráðum þrjúþúsund árum. Ég er hræddur um að því fólki sem þá bjó finndist við bulla herfilega, ef það hefði orðið vitni að því hvernig við umgöngumst hvert annað, treystum á pappíra, eignumst eitt eða tvö börn o.s.frv.

    Síðan er ágætt að vita, áður en þú ræðst á einangraða parta fornra bókmennta, úr hvaða hugarheimi þeir koma. En það gerirðu ekki, Einar. Fólkið sem skrifaði biblíuna var lengstum minnihlutahópur og einangraður meðal (óvinveittra) þjóða og þurfti að halda sérkennum sínum.

    Ég þurfti að taka íslenskt nafn þegar ég varð Íslendingur. Eftir á að hyggja er það ekki minna skrýtið en að mega ekki skera sig eða húðflúra.

  7. Biblían var skrifuð af fólki sem var eitt um að vera eingyðistrúar meðal þeirra þjóða á íbúðarsvæði sínu, Eva. Það er ekkert skrýtið við það að þjóð, hertekin í fjölhyggju- og fjölgyðisumhverfi hamri á sérstöðu sinni.

    Íslendingar halda sín þorrablót og tala íslensku á erlendri grund. Tóku þangað til fyrir skemmstu með sér Ora baunir þegar þeir fóru erlendis. Það er ekkert öðruvísi en að biblían hamri trúna á einn Guð.

  8. Ef það er rétt túlkun, jafngildir það þá ekki yfirlýsingu um að kenningagrundvöllur kirkjunnar (þ.e. túlkun evangelísk-luthersku kirkjudeildarinnar) sé brostinn? Um aldir var það alveg á hreinu að kirkjan fordæmdi kynhegðun sem braut í bága við hugmyndir Evangelista og Lútherssinna. Þarf ekki að endurskoða ýmislegt fleira og jafnvel bara að leggja Biblíunni sem lögbók?

  9. Það merkilega við þetta allt er, að sambúðarformið « karl-kona » eins og við þekkjum það varð ekki gert að játningarmáli í lúthersku siðbótinni, ólíkt kaþólsku kirkjunni þar sem hjónabandið er eitt sjö sakramennta. Þessvegna var auðvelt að breyta hjúskaparbæninni/-vígslunni, þar sem hún hvílir einmitt ekki á játningu kirkjunnar (Ágsborgarjátningin talar ekki um hjónabandið sem slíkt, sbr. http://www2.kirkjan.is/node/88).

    Fyrir tuttugu árum síðan gat prestur í systurkirkju okkar ekki gefið saman hjón, af því að hann var sjálfur kvæntur fráskildri konu. Fyrir tveimur kynslóðum síðan var óhugsandi að kona þjónaði sem prestur, hvað þá biskup.

    Sérhver heilvita og hugsandi einstaklingur hlýtur að sjá að fleira en bókstafur biblíunnar skilgreinir kristna trú og kristna kirkju, líka fyrirbæri eins og þjóðkirkju Íslands.

  10. Smá viðbót:

    « Auk þess hefur Guð stofnað hjónabandið, til þess að það væri læknislyf handa veikum mönnum. Sjálf kirkjulögin segja, að nú á seinni tímum verði vegna veikleika manna að slaka á hinum forna strangleika. Væri æskilegt, að svo verði og varðandi þetta mál. Annars virðist svo sem prestaskortur geti orðið í kirkjunni, ef prestum er lengur meinaður hjúskapur. »

    Þetta segir Ágborgarjátningin um hjónaband presta, sem fram að miðöldum gátu kvænst. Taktu eftir orðalaginu í fyrstu setningunni. Hjónabandið er til að hjálpa fólki að vera heilt. Veikleiki manna einskorðast ekki við samkynhneigð, eða hvað?

  11. Það sem er skrýtið er það að Þjóðkirkjan skuli ekki hafna þessari einveldishugmynd.

  12. Carlos það er enginn að deila á það að það að þessar hugmyndir hafi verið við lýði fyrir þúsundum ára, heldur á hitt að enn í dag skuli kirkjan játa þessi rit sem heilaga ritningu.

  13. Auðvitað sér það hver maður. Þessvegna er alveg með ólíkindum að kirkjan skuli ekki bara ganga alla leið í að viðurkenna það og hafna löngu úreltum hugmyndum formlega.

  14. Jú, ég geri það. Mér finnst það hinsvegar vera nokkuð bagalegt hvað ofstækiskristnir í dag hamra á hommafrasanum en ekki tattú, óhlýðni (spara ei vöndinn…), svínakjötsáti etc… Vottar fyrir hræsni imho.

  15. Skal bregðast við síðarI upptekinn nú! Annars er afstöðu mína víða að finna. Kv.

  16. Þú vilt skilja af hverju kirkjan hafnar ekki bara biblíunni og tekur upp einhvern annan mælikvarða, t.d. stjórnarskrá lýðveldisins (af því að hún er þjóðkirkja) eða mannréttindayfirlýsingu Evrópu eða SÞ (af því að hún er hluti alþjóðlegrar stofnunar)?

    Kirkja er íhaldssamt fyrirbæri. Hún byggir á næstum því þrjúþúsund ára ritunarhefð, órofinni. Kjarni hennar er trú á einn Guð sem á samskipti við fólk. Það fólk skrifaði og skrifar reynslu sína. Biblíu. Skýringarit.

    Biblían er full af mótsögnum, vegna þess að enginn sem kom að henni var nógu hrokafullur til að henda einhverju sem fyrri kynslóðir höfðu ritað, ef það rataði á annað borð í heilaga ritningu. Þessvegna túlka menn. Reyna að skilja og reyna að láta það sem þeir lesa leiða sig áfram.

  17. Skil þig, Einar og er sammála.

    Eva, þekkir þú ekki mun heilagrar ritningar og lögbókar? Biblíunni er ekki ætlað að vera lögbók heldur veita innblástur.

  18. Guð á páverflippi? Kirkjan að leggja eingyðið niður? Áhugaverð hugmynd, Eva. Þá opnast dyr að Búddisma, sem er í sjálfu sér guðlaus átrúnaður … ég held að ÞAÐ væri fyrst skrýtið.

  19. Mig langar aðallega að vita afstöðu þína til þeirrar hugmyndar að kirkjan hafni því með öllu að Biblían sé heilög og hafni öllum mannfjandsamlegum kenningar hennar, kenningu Lúthers og öðrum úreltum trúarstefnum.

  20. Það er nokkuð ljóst að þetta er afstaða „heilbrigðra“ trúmanna, en við þessa afstöðu vaknar ein spurning og ein athugasemt:

    Spurningin er: Af hverju er þessi afstaða þá ekki gerð opinber og hnykkt á henni? Sömuleiðis, hví er kirkjan svona feimin við að afneita sem sannleik þeim hlutum bíblíunnar sem eru mannfjandsamleg eða eru (afsakið frönskuna) argasta bull?

    Athugasemdin: Meðan kirkjan tekur ekki skýra afstöðu, og í raun heldur fram heilagleika og guðleika ritningarinnar, þá er ekki nokkur furða að fólk sem vill gefa líf sitt Guði eins mikið og eins vel og það getur taki orð bíblíunnar bókstaflega. Kirkjan gerir ekkert til að þagga niður í þeim sem nota bíblíuna sem réttlætingu á hatri og fordómum. Hún heldur sig mest til hlés í slíkum umræðum og virkar því frekar hræsnisfull í siðferðisumræðum IMO.

  21. Góð spurning, Einar. Af hverju er « heilbrigða afstaðan » til biblíunnar ekki gerð að opinberri stefnu Þjóðkirkjunnar?

    Leyfðu mér að snúa spurningu þinni við og setja hana í samhengi. Prestsmenntun lúterskrar kristni felst í 5 ára masternámi í guðfræði við viðurkenndan háskóla. Síðan tekur við starfsnám og meðan að menn þjóna, eru prestar hvattir til að leita sér framhaldsmenntunar í viðurkenndum háskólum eða starfsskólum.

    Biblíuvísindin eru tengd við sagnfræði, bókmenntir, fornleifafræði, lestri fornra tungumála, trúarbragðasögu, félagsfræði, sálfræði og fleiri háskólafög. Menn neyðast, á einn eða annan hátt að gera biblíutextum heiðarleg skil.

    Opinber afstaða lútherskrar kristni til túlkunar biblíunnar felst í því að hún treystir prestum hennar og öllum sem kunna að lesa ritningarnar að gera það. Orð Guðs þarf að heyrast, skiljast, móttakast og lifast. Þá er ég ekki að tala um Biblíuna heldur það sem gerist þegar maður heyrir eða les í henni. Sérhver biblíulesandi og -heyrandi skilur og tekur við orði Guðs á eigin forsendum.

    Saman, í samfélagi manna (t.d. þjóðkirkjunni) mótast síðan stefna kirkjunnar. Í máli hjúskapar samkynhneigðar breyttist afstaða kirkjunnar á nokkrum árum frá því að hafna að kirkja geti lagt blessun sína við hjúskap annarra en gagnkynhneigðra. Þannig sérðu afstöðuna til biblíunnar og túlkunar hennar í verki.

    Kirkjan hafnar á sama hátt hinu arga bulli, sem þú kallar. Hún gerir það með háttum sínum. Hún gerir það með starfsmannastefnu, þar sem hatursáróðri og mismunun t.d. gegn konum er hafnað. Hún leitast við að vera fyrirmynd. Tekst það reyndar ekki alltaf, enda er tekið eftir því þegar falstónar heyrast og ábyrgðarfólk kirkjunnar misstígur sig.

  22. Í samþykktum Þjóðkirkjunnar segir: Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.

    Hvaðan hefurðu það Carlos að „Heilög ritning“ og „Orð Guðs“ sé ekki eitthvað sem ber að hlýða heldur bara ætlað að veita innblástur?

  23. Hvar nákvæmlega hefur kirkjan lýst því yfir að Biblían sé ekki lögbók heldur viðmið? Og hvað merkir viðmið í þessu sambandi?

  24. Carlos: Þú segir m.a.:

    „Sérhver biblíulesandi og -heyrandi skilur og tekur við orði Guðs á eigin forsendum.“

    Það hljómar afar sérkennilega. Er Guði alveg sama hvernig orð hans er túlkað? Er þetta í raun afstaða þjóðkirkjunnar? (Eða tilheyrir þú henni ekki?) Ef ég túlka orð Guðs (sem ég geri ráð fyrir að þú álítir að Biblían sé) þannig að hér sé um að ræða samsafn þjóðsagna og kúgunarboðskapar sem ritstýrt hafi verið vandlega í gegnum aldirnar af valdaklíkum til þess að kúga almenning, er það þá að „taka við orði Guðs á mínum forsendum“? Og er það samrýmanlegt því að vera kristinn?

    „Í máli hjúskapar samkynhneigðar breyttist afstaða kirkjunnar á nokkrum árum frá því að hafna að kirkja geti lagt blessun sína við hjúskap annarra en gagnkynhneigðra. Þannig sérðu afstöðuna til biblíunnar og túlkunar hennar í verki.“

    Já, sem betur fer, þótt kirkjan hafi hér, eins og nánast alltaf, látið neyða sig til að bæta ráð sitt, eftir að hafa stundað hatursboðskap löngu eftir að almenningur var búinn að fá nóg af honum.

    Því spyr ég aftur: Úr því að þið eruð (mörg) svo algerlega mótfallinn þeim viðurstyggilegu hugmyndum sem birtast víða í Biblíunni, af hverju breytið þið ekki þessu trúarriti ykkar?

    Mér finnst ósiðlegt af ykkur að hampa ennþá bók með manneskjuhatri af ýmsu tagi, og þá er engin afsökun að fólk hafi ekki vitað betur áður fyrr. Sömu röksemdafærslu er hægt að nota til að réttlæta hvaða viðbjóð sem er.

    Auk þess hefur Biblíunni verið breytt gegnum aldirnar. Það þýðir að þið getið ekki haldið fram að það sé ekki hægt. Þið hafið gert það, og því er það hægt. Því get ég ekki túlkað óvilja ykkar til að breyta henni til hins betra nú öðru vísi en svo að þið berið allt of mikla virðingu fyrir afstöðu fólks og stofnana sem bera ábyrgð á óhugnanlegri kúgun og manneskjufyrirlitningu.

  25. Mér hefur aldrei dottið í hug að hreinsa til í Biblíunni eða sleppa henni alveg, eins og þið Einar, Eva og Baldur stingð upp á. Þannig að hér eru aðeins ómótaðar hugsanir. Annars vegar hafa nokkrir trúarhópar gert þetta, Muslimir, Vottar Jehóva, Mormónar. Hinsvegar inniheldur Biblían sögu þjóðar og fólks og samskiptum þess við Guð, jákvæðum og neikvæðum. Réttlátum og ranglátum og allt þar á milli. Ég sé ekki hverju það þjónar að henda Biblíunni ef sagan og hugmyndirnar glatast.

  26. Það er enginn að leggja til að Biblían verði bannfærð eða að menn sleppi henni alveg, heldur að heilagleik hennar verði aflétt. Að Þjóðkirkjan viðurkenni opinberlega að það sé ótækt að byggja réttlæti og siðferðisviðmið nútímans á eldgömlum þjóðsögum. Hún fái þannig svipaða stöðu og Íslendingasögurnar, sem rit sem við kynnum börnum að einhverju leyti sem hluta af menningararfinum en ekki sem sannleika.

  27. Mormónar og Vottar hafa ekki „hreinsað til í Biblíunni“: Ekki frekar en Þjóðkirkjan.

    „Hinsvegar inniheldur Biblían sögu þjóðar og fólks og samskiptum þess við Guð…“

    Undarleg skoðun. Inniheldur Kóraninn, Mormónsbók (og svo framvegis) ekki líka „samskipti [fólks] við Guð“? Eða eru þessi samskipti bara í bókum eins og t.d. Jósúabók þar sem samskiptin eru á þá leið að guð er að fyrirskipa þjóðarmorð?

  28. Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í siðfræði við Guðfræðideild HÍ er einn helsti talsmaður þessa, Eva. Að siðferði verði að byggjast á góðum upplýsingum og góðum heimspekilegum grunni, óháð opinberun æðri máttarvalda.

Lokað er á athugasemdir.