Hvenær verður mannsfóstur manneskja?

20 vikna gamalt mannsfóstur

Alþingi hefur nú samþykkt að veita verðandi mæðrum óskilyrta heimild til að láta rjúfa þungun, allt til loka 22. viku meðgöngu. Forsætisráðherra hefur auk þess gefið það út að hún myndi styðja óskilyrta heimild til fóstureyðingar alla meðgönguna.  Óíklegt verður að teljast að ráðherrann hafi hugsað málið til enda áður en hún tjáði þessa afstöðu sína.

Misræmi í lögum

Fyrst þarf enga réttlætingu nema vilja móðurinnar til að eyða fóstri fram að tiltekinni dagsetningu þá lítur ríkið væntanlega ekki á fóstrið sem manneskju fyrr en á þeim degi (því manneskjur hafa lífsrétt). Samt sem áður eru í lögum ákvæði sem gefa vísbendingu um að fóstur hafi stöðu  mannveru frá getnaði. Erfðaréttur er miðaður við getnað. Barnaverndaryfirvöld hafa skyldur gagnvart fóstrum, rétt eins og börnum, og geta haft afskipti af konu sem stofnar lífi og velferð fósturs í hættu. Venjan er sú að koma líkamsleifum fóstra sem látast eftir lok 12. viku meðgöngu fyrir í kirkjugarði en kirkjugarðar eru eingöngu ætlaðar manneskjum. Þetta ósamræmi er bagalegt. Lítur ríkið á 22ja vikna fóstur sem manneskju eða ekki? Teldist það t.d. vansæmandi meðferð á líki ef fæðingarlæknir setti líkamsleifar 22ja vikna fósturs í spítalasorpið með botnlöngum og afskornum vörtum?

Hvar liggja mörkin?

Ég hef engin haldbær rök fyrir því við hvaða tímamark ætti að vera leyfilegt að binda enda á líf fósturs. Mér finnst 22ja vikna fóstur vera manneskja en ég get ekki útskýrt hversvegna mér finnst í lagi að fyrirkoma 2ja daga gömlu fóstri. Ég hef engin rök því þau eru ekki til, þetta er einfaldlega spurning um það hvaða mörk samfélagið kemur sér saman um. Það er ekki heppilegt að byggja löggjöf á tilfinningarökum eða siðferðisskoðunum nema víðtæk samstaða ríki um þá skoðun. Til skamms tíma ríkti t.d. sú skoðun á Íslandi meðal flestra þeirra sem tjáðu sig um þessi mál opinberlega að fóstureyðing ætti rétt á sér ef fóstrið væri verulega fatlað. Hin raunverulega ástæða fyrir því að ákveðið var að breyta lögunum nú er sú að það ríkir ekki lengur samstaða um að ríkið megi meta líf fatlaðra fóstra til færri fiska en líf ófatlaðra. Það er þó engin samstaða um að mæður eigi að neyðast til þess að ljúka meðgöngu ef barn er fatlað en auðvitað langaði engan þingmann að segja; „eina leiðin til þess að við getum leyft fóstureyðingar á fötluðum fóstrum er sú að leyfa fólki líka að láta eyða heilbrigðu fóstri.“

Þótt ég geti ekki fært sannfærandi rök fyrir því hvers vegna ætti að miða heimild til fóstureyðingar við einhvern annan vikufjölda en 22 vikur, get ég engu að síður velt upp hugmynd um það hvernig mörkin skuli dregin. Þau ættu að miðast við lagalega skilgreiningu á manneskju. Ekki yfirráðarétt móður yfir eigin líkama. Ekki félagslegar aðstæður móður. Einu hagsmunaárekstrarnir sem kæmu til álita væru þá líkur á því að full meðganga ylli konunni líkamstjóni. (Lögum samkvæmt nær líkamstjón einnig til tjóns á geðheilsu.) Af hverju þetta viðmið? Vegna þess að samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi á Íslandi, hafa manneskjur rétt til lífs. Þar með er í raun verið að lögleiða mannréttindabrot ef fóstur sem má deyða (án sérstakrar réttlætingar sem mælt er fyrir um í lögum) telst manneskja. Löggjafinn þarf að ákveða hvenær fóstur verður manneskja og miða öll lög sem lúta að mannsfóstri og meðgöngu við það.

Það gæti verið rökrétt að miða skilgreiningu á manneskju við getnað en það er útilokað að vestrænt samfélag myndi fallast á að tryggja fóstri lífsrétt frá getnaði. Önnur leið gæti verið sú að miða við fæðingu, kannski með 2ja vikna skekkjumörkum miðað við settan fæðingardag. Í því tilviki yrði litið á fóstrið ómanneskjulega lífveru til loka 37. viku. Þar með væri ekkert því til fyrirstöðu að fara „Kanadísku leiðina“ og gefa fóstureyðingar algerlega frjálsar. En það er ekki líklegt að víðtæk samstaða næðist um þá leið heldur.

Hvar sem mörkin eru dregin þarf að vera á hreinu að fóstur sem má deyða er ekki manneskja í augum ríkisins. Alþingi hefur í raun ákveðið að 22ja vikna fóstur teljist ekki manneskja. En auðvitað fæst enginn til að segja það hreint út, hvað þá að lögum sem gefa annað til kynna sé breytt til samræmis við þessa óorðuðu skilgreiningu ríkisvaldsins.

Hver er réttarstaða fósturs sem ekki telst manneskja?

Mögulega væri hægt að skilgreina fóstur sem ekki telst manneskja sem eign móður. Það yrði þó að ganga  þannig frá að staða fósturs yrði likari stöðu dýrs en hlutar. Það mætti t.d. ekki kvelja fóstur að óþörfu. Þótt ekki megi kvelja dýr er það ekki einstaklingsbundinn réttur dýrsins að verða ekki fyrir illri meðferð, heldur siðferðisleg skylda samfélagsins að koma í veg fyrir óþarfa þjáningar. Dýrið er eftir sem áður eign húsbónda síns en ekki einstaklingur með réttindi.

Það væri hægt að fara svipaða leið með fóstur. Þar með mætti verðandi móðir láta binda endi á líf fósturs allt til loka 37. viku meðgöngu, hugsanlega lengur. Heimild yfirvalda til afskipta yrði þá á svipuðum forsendum og inngrip yfirvalda vegna dýravelferðar en ekki á grundvelli barnaverndarlaga. Til þess bær yfirvöld gætu þannig fyrirskipað þungunarrof vegna vanrækslu eða áhættuhegðunar á sömu forsendum og ríkið getur fyrirskipað að dýri skuli lógað ef eigandinn er óhæfur.

Ef þessi leið yrði farin þyrfi einnig að taka afstöðu til þess hvort ætti að skerða rétt móður yfir eign sinni á siðferðilegum forsendum. Mætti hún t.d. selja fóstrið? Einnig yrði að taka skýra afstöðu til þess hvernig fara ætti með fyrirbura sem fæðist lifandi og væri tiltölulega auðvelt að bjarga. Mætti móðirin panta aftöku í slíku tilviki? Ef fóstur hefur ekki lífsrétt þá skiptir ekki máli hvort það er staðsett innan eða utan móðurlífs nema sérstaklega sé gert ráð fyrir því í lögum að fæðing sem ekki er framkölluð af ásetningi breyti stöðu þess.

Hinn frábæri árangur Kanadamanna

Talsmenn óskilyrtra heimilda til fóstureyðinga virðast ekki hafa velt almennilega fyrir sér  hvernig við skilgreinum manneskju. Venjulega fylgir tillögu um óskilyrt frelsi til þungunarrofs fullyrðing á borð við ummæli forsætisráðherra um að konum sé treystandi til þess að nýta rétt sinn af ábyrgð. Er þá jafnan vísað til Kanada en þar hefur hlutfall síðbúinna fóstureyðinga verið mjög lágt þrátt fyrir óheft frelsi til geðþóttaákvarðana móður um þungunarrof.

Þeir hinir sömu skauta algerlega fram hjá því að þrátt fyrir mikið frelsi í orði er aðgengi að fóstureyðingum slæmt í Kanada.  „Pro choice“ samtök kvarta t.d. um að kostaður sé svo mikill að hann standi í vegi fyrir fátækum konum sem vilja enda meðgöngu og að konur þurfi oft að ferðast langan veg til að komast í aðgerð. Árið 2017 buðu innan við 17% sjúkrahúsa upp á fóstureyðingar og á stórum svæðum voru engar einkastofur starfandi. Það skyldi þó aldrei vera að takmarkaðir möguleikar hafi áhrif á tíðni aðgerða?

Það er svosem engin furða þótt fólk fullyrði um árangur Kanada án þess að kynna sér hann sérlega vel. Meira kemur á óvart að það er engu líkara en að Íslendingar hafi aldrei heyrt um konur sem ala fullburða, heilbrigð börn og bera þau út, bana þeim og henda líkum þeirra í sorpgáma eða reyna að losa sig við þau með því að sturta þeim lifandi niður úr klósettinu. Lög sem leggja fólki á herðar skyldur gagnvart afkvæmum sínum eru ekki sett vegna þess fólk almennt noti ekki frelsi sitt og réttindi af ábyrgð, heldur vegna hinna örfáu sem ráða ekki við það. Og forsætisráðherra veit það.