Hvaða hin hlið?

Réttlætingar Útlendingastofnunar´, dæmi hver fyrir sig.

Og neinei, ég er ekki fúl út í neinn fyrir að vera ekki búinn að setja nafnið sitt á undrskriftalistann, það er bara virðingarvert að vilja kynna sér málin fyrst. Ég er hinsvegar hundfúl út í þá sem láta eins og þeim komi þetta ekki við, nenna ekki að kynna sér málið eða þora ekki að taka afstöðu.
Hér er grein sem allir ættu að lesa. Einkum þeir sem eru ekki búnir að skrifa undir. Kíkja líka á þetta takk.

Hér fyrir neðan má sjá svar dómsmálaráðherra sjálfs um meðferð Íslendinga á flóttafólki, dæmi hver fyrir sig.

—-

133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 535 — 335. mál.

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um afdrif hælisleitenda.
Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hversu margir hafa sótt um pólitískt hæli hérlendis árlega frá 2001 til miðs árs 2006 og hversu mörg börn yngri en 16 ára voru þar á meðal? Hver urðu afdrif umsóknanna og hversu mörgum var veitt hæli?

2. Hversu mörg börn hafa hælisleitendum fæðst hér á landi á umræddu tímabili? Hvaða breytingar verða á réttarstöðu hælisleitenda við að eignast barn hérlendis?

Á 130. og 131. löggjafarþingi komu einnig fram fyrirspurnir frá háttvirtum varaþingmanni Reykjavíkurkjördæmis – suður, Álfheiði Ingadóttur, sama efnis.

Á 130. löggjafarþingi var einnig samþykkt beiðni 2. þingmanns Norðvesturkjördæmis, Jóhanns Ársælssonar, um skýrslu um þetta efni og var skýrslunni dreift á þinginu. Er vísað til skýrslunnar. Þá spurði 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis – norður, Guðrún Ögmundsdóttir, um þetta efni á síðasta þingi. Þessi svör eru því að mestu leyti uppfærsla á eldri upplýsingum um þessi mál.

1. Fjöldi hælisleitenda árin 2001–2006.

Árið 2001.
Árið 2001 komu fram 53 umsóknir um hæli hér á landi, þar af voru 12 börn. Afdrif umsóknanna voru þannig að 35 drógu umsókn til baka eða voru fluttir til fyrra umsóknarríkis, þ.m.t. sex börn, átta fengu dvalarleyfi, þ.m.t. þrjú börn og 10 var synjað, þ.m.t. þremur börnum. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2002.
Árið 2002 sóttu 117 útlendingar um hæli hér á landi, þar af voru 25 börn; fimm fengu dvalarleyfi, þar á meðal tvö börn, 36 umsækjendur voru fluttir til fyrra umsóknarríkis, þ.m.t. átta börn, 61 dró umsókn sína til baka, þ.m.t. 13 börn, og 15 umsækjendum var synjað, þ.m.t. tveimur börnum. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2003.
Árið 2003 sóttu 80 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af voru 10 börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þeim 80 umsóknum sem lagðar voru fram á árinu 2003 var ákvarðað um veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum í þremur málum, synjað var um hæli í 21 máli, 26 einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflingarsamningsins eða Dyflinarreglugerðarinnar og 30 einstaklingar hurfu eða drógu umsóknir sínar til baka. Enginn 2 umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2004.
Árið 2004 sóttu 76 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af voru 12 börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þeim 76 umsóknum sem lagðar voru fram á árinu 2004 var ákvarðað um veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum í þremur málum, synjað var um hæli í 37 málum, 16 einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, fjórir einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Norðurlandasamningsins og 15 einstaklingar hurfu eða drógu umsóknir sínar til baka. Nú bíður einn umsækjandi niðurstöðu í máli sínu sem er í kærumeðferð hjá dómsmálaráðuneytinu en umsókn hans um hæli var synjað hjá Útlendingastofnun og hefur meðferð málsins tafist, m.a. vegna heilsubrests viðkomandi. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2005.
Árið 2005 sóttu 87 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af voru 10 börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þeim 87 umsóknum sem lagðar voru fram á árinu 2005 hefurverið ákvarðað um veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum í einu máli, veitingu dvalarleyfis til bráðabirgða í einu máli, synjað um hæli í 50 málum, 24 einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, einn útlendingur var sendur úr landi á grundvelli Norðurlandasamningsins og sex umsækjendur hurfu eða drógu umsóknir sínar til baka. Alls bíða fjórir umsækjendur niðurstöðu í málum sínum hjá Útlendingastofnun. Þá bíður einn umsækjandi niðurstöðu í máli sínu sem er í kærumeðferð hjá dómsmálaráðuneytinu en umsókn hans um hæli var synjað hjá Útlendingastofnun. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2006.
Þann 30. júní árið 2006 höfðu 17 einstaklingar sótt um hæli á Íslandi. Þar af voru fjögur börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þessum 17 umsóknum sem lagðar höfðu verið fram 30. júní 2006 hefur verið ákvarðað um synjun um hæli í 11 málum, tveir umsækjendur voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, einn umsækjandi hefur horfið og þá bíða þrír umsækjendur eftir niðurstöðu í málum sínum hjá Útlendingastofnun. Enginn umsækjanda hefur á þessu ári verið talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og hefur því enginn þeirra fengið hæli hér á landi.

2. Börn hælisleitenda sem fæðast hérlendis og áhrif á réttarstöðu foreldra.

Fáir hælisleitendur hafa eignast barn hér á meðan mál þeirra hafa verið til meðferðar fyrir íslenskum stjórnvöldum. Aðeins er vitað um að tveir hælisleitendur hafi eignast barn hér á landi á undanförnum árum. Annað barnið fæddist hjónum í nóvember árið 2003. Þeirri fjölskyldu var veitt dvalarleyfi af mannúðaraðstæðum og dvelur hún hér enn. Í hinu tilvikinu er um að ræða barn sem fæddist í maí á þessu ári. Maðurinn hafði verið sendur úr landi til Spánar þar sem hann hafði haft dvalarleyfi og lauk þannig hælismeðferð hans. Var það í lok júlí 2005. Eftir að maðurinn var farinn úr landi bárust Útlendingastofnun upplýsingar um að hann ætti von á barni með íslenskri konu búsettri hérlendis.

3
Þá hefur Útlendingastofnun fengið upplýsingar um að hælisleitandi sem lokið hefur hælismeðferð hjá Útlendingastofnun en er með umsókn sína í kærumeðferð hjá dómsmálaráðuneytinu eigi von á barni hér á landi. Bárust þær upplýsingar eftir að máli hans lauk hjá Útlendingastofnun 17. ágúst 2006. Réttarstaða hælisleitenda breytist ekki hér á landi við það að eignast barn á meðan mál þeirra er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Ákvæði í íslenskum lögum taka ekki á stöðu hælisleitenda við þær aðstæður. Rétt er þó að geta þess að með lögum nr. 20/2004 var útlendingalögunum breytt í þá átt að bæta réttarstöðu barns flóttamanns, þ.e. hælisleitanda sem telst flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, fæðist það eftir komu foreldris til landsins. Barnið hefur þá sömu réttarstöðu og foreldri, sbr. 1. mgr. 47. gr. útlendingalaga, nr. 96/2002.

Hvert mál hælisleitanda er metið sérstaklega og þá með hagsmuni hlutaðeigandi barns og réttindi og skyldur foreldris að leiðarljósi og er þar m.a. horft til gildandi laga um börn og barnavernd, mannréttindasáttmála og annarra viðeigandi réttarheimilda.

One thought on “Hvaða hin hlið?

  1. Hvaða hin hlið?

    Flóttamenn hafa ekki verið velkomnir hér og er það skítt en það breytir nú dæminu aðeins að konan sé ólöglega hérna.

    Posted by: Haffi | 4.07.2008 | 23:32:22

    — — —

    Það breytir dæminu ekki baun. Það sem málið snýst um er að maður sem á yfir höfði sér ofsóknir og jafnvel aftöku í heimalandi sínu, leitaði til okkar. Það út af fyrir sig er næg ástæða til að taka við bæði honum og konunni hans.
    Samkvæmt þessu margumrædda Dyflinarsamkomulagi er óheimilt að endursenda hælisleitenda eða flóttamann til síns heima, eða til annars ríkis, ef að ljóst er að þeir eigi í hættu á að verða fyrir pyntingum, lífláti eða annarri ómannúðlegri meðferð. (Hægt er að sjá allt um þetta hér http://www.humanrights.is/ undir tenglinum flóttamenn og hælisleitendur.)

    Posted by: Eva | 5.07.2008 | 9:44:47

    — — —

    Og annað: Ég hef séð fáein dæmi um að fólk sé að velta sér upp úr meintum lygum Ramsesar og stuðningsmanna hans. Það vita allir sem hafa þurft að eiga samskipti við fjölmiðla oftar en einu sinni að í fréttaflutningi skolast oftast einhver smáatriði til og stundum stærri atriði. Orðalag kemst nánast aldrei rétt til skila. Ég hef oft lent í því sjálf að eitthvað væri rangt haft eftir.

    Heldur einhver í alvöru að fólkið hafi logið til um atriði eins og t.d. það hvort barnið er nær því að vera 3ja eða 6 vikna gamalt? Þarna hefur bara orðið smávægilegur misskilningur og sjálfsagt er það líka fyrir misskilning sem fjölmiðlar sögðu frá því að hann hefði verið handtekinn á heimili sínu. Þessi atriði breyta vitanlega engu um alvarleika málsins en hann er fólginn í því að íslensk stjórnvöld hafa skotið sér undan þeirri skyldu sinni að taka tillit til mannúðarsjónarmiða.

    Og auðvitað var maðurinn í vinnu. Að sjá sér og sínum farborða hlýtur að vera mikilvægara en að virða reglu um atvinnuleyfi.

    Posted by: Eva | 5.07.2008 | 9:50:04

    — — —

    Ég er bara rosalega sammála þér.

    Posted by: Hulla | 5.07.2008 | 10:23:08

    — — —

    Ég er hjartanlega sammála þér, Eva. Er eiginlega ómeðvitað búin að forðast að taka afstöðu í málinu en eftir að vera búin að kynna mér málið í fjölmiðlum og víðar eru gjörðir Ramses mjög skiljanlegar. Auðvitað vinnur hann, auðvitað þurfa þau pening, auðvitað vilja þau vera saman. Ég vil nú helst t.d. búa í sama landi og maðurinn minn, hvað þá þegar barnið okkar fer að fæðast.
    Íslensk stjórnvöld eru afar lagin við að varpa frá sér ábyrgð í þessum efnum.
    Ég vann í dönsku asyl center um tíma og þar var 80% hælisleitenda vísað frá (oft eftir að málsmeðferðin hafði tekið mörg ár). Mér fannst sú tala ákaflega sár og erfitt að takast á við að kveðja fólkið sem var á þeim tíma m.a. sent til Íraks.
    Hlutfallið hér á Íslandi í sama flokki er til skammar, og ótrúlegt í raun og veru að stjórnvöld skuli varpa frá sér ábyrgð út af „tæknilegu“ atriði…

    Posted by: Hildur Ýr Ísberg | 5.07.2008 | 14:09:39

    — — —

    Ehem.
    Ég ákvað að svara fyrst þú varst sérstaklega að auglýsa eftir skoðunum lesenda. Ég kíki hér við mjög reglulega og hef gaman af pælingum þínum um tilveruna og daglega lífið. Þegar málin hins vegar fara að snúast um (vinstri-græna) rétthugsun þá dregur verulega úr skemmtanagildinu. Þetta tiltekna mál er einmitt þannig vaxið. Maður sem hefur ekki dvalarleyfi á Íslandi en fær engu að síður konu sína kasólétta til þess að fara frá landi þar sem hún hefur dvalarleyfi til þess eins að hún og barn þeirra verði sjálfkrafa ólöglegir innflytjendur, hann hefur ekki mína samúð. Þegar svo sami maður nýtir sér ekki andmælarétt sinn (en notar sér engu að síður alla fresti sem hann getur mögulega fengið vegna fjölskylduaðstæðna), þá á hann ekki rétt á neinni sérmeðferð. Og það er fráleitt ástæða til þess að æða inn á alþjóðaflugvöll og reyna að stoppa flugvélar eins og hálfviti.
    En þú ert nú talsvert mikið tengd því máli og þess vegna nokkuð ljóst að þú munt ekki sjá málin frá þessum sjónarhóli ..
    Svo, hvers vegna að vera að skrifa komment ???

    Posted by: Hugz | 5.07.2008 | 22:18:20

    — — —

    Finnst þér semsagt tilgangslaust að halda uppi umræðu við aðra en þá sem eru þér sammála?

    Samkvæmt 1 mgr. 33.gr. flóttamannasamnings SÞ er óheimilt að endursenda hælisleitenda eða flóttamann til heimalands síns, eða annars ríkis, ef að ljóst er að hann eigi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri meðferð. Það hvort flóttamaður á enga konu, ólétta konu eða ólöglega konu, breytir engu um skyldu okkar til að hjálpa fólki í neyð.

    Ég hef nú reyndar ekki heyrt það fyrr að flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna sé byggður á vinstri grænni rétthugsun. Það er þá væntanlega líka vinstri græn rétthugsun að þér beri að koma nágranna þínum til bjargar ef maki hans beitir hann ofbeldi, jafnvel þótt sé einhver annar nágranni sem gæti hugsanlega tekið það að sér. Samkvæmt þessu þekki ég mikinn sæg sjálfstæðis- og samfylkingarfólks sem hefur tileinkað sér vinstri græna rétthugsun. Og var reyndar búið að því löngu áður en vinstri hreyfingin grænt framboð varð til.

    Posted by: Eva | 5.07.2008 | 23:10:49

    — — —

    Og fyrir þá sem er svona óskaplega annt um lagabókstafinn, bendi ég á þessa grein:http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/entry/584589/

    Lög eru ýmist sett til þess að vernda fólk eða tryggja vald. En það er engu líkara en að tilteknum einstaklingum í ríkisstjórn og hjá útlendingastofnun, finnist fyrra markmiðið ekki skipta sérlega miklu máli.

    Posted by: Eva | 5.07.2008 | 23:18:39

    — — —

    Umræddur „flóttamaður“ var ekki sendur til síns heimalands heldur til annars lands innan Schengen svæðisins. Hvað varðar „hin ríku mannúðarsjónarmið“ þá eiga þau að gilda um alla, ekki bara vini þeirra sem finnst flott að hlaupa inn á flugbrautir alþjóðaflugvalla. Eða vini Framsóknarmanna.
    Það er ljóst að viðkomandi fékk tækifæri til andmæla, nýtti það ekki, og er nú kominn til þess Schengenríkis sem upphaflega veitti honum vegabréfáritun.
    Nú heyrði ég í fréttunum áðan að VG þingmenn eru að reyna að nota þetta mál í pólitískum tilgangi til þess að vekja athygli á sér. Er ekki rétt að álykta að þessi einkennilega túlkun á alþjóðalögum sé frá þeim komin ?

    Posted by: Hugz | 5.07.2008 | 23:39:29

    — — —

    Reyndar á ákvæði flóttamannasamningsins við um heimaland EÐA ANNAÐ RÍKI og ég trúi því varla Hugz að þú vitir ekkert um ástandið í málum flóttamanna á Ítalíu. Ég trúi því ekki heldur að þú myndir neita að hjálpa fólki í neyð af því að einhver annar gæti hugsanlega gert það. Þetta er aum tilraun til útúrsnúnings.

    Hvernig er þessi túlkun á alþjóðalögum undarleg? Geturðu útskýrt þetta? Ég sé nefnilega ekki að sé verið að túlka eitt eða neitt. Það er bókstaflega tekið fram í öllum lögum og reglugerðum sem ég hef séð um meðferð flóttamanna að mannúðarsjónarmið skuli höfð að leiðarljósi og hvert einstakt tilvik skoðað.

    Þar sem þú setur orðið flóttamaður í gæsalappir má ætla að þú álítir það rangnefni. Það væri þá kannski viðeigandi af þér að skýra það nánar. Hefurðu kannski ekkert heyrt af átökunum milli fylgismanna Kibaki og Odinga?

    Já það hlýtur auðvitað helst að vaka fyrir þeim sem mótmæla þessum gjörningi að vekja athygli á sér. Það getur bara ekki verið að nokkrum manni ofbjóði sú staðreynd að aðeins einn af þeim rúmlega 380 sem sóttu um hæli frá 1998 til 2004, hafi fengið stöðu flóttmanns. Líklega hafa allir hinir verið í gæsalöppum, sótt hingað af því að þeir fréttu af veðurblíðunni og verðlaginu á matvælum. Heldurðu það í alvöru Hugz? Eða er flokkshollustan að þvælast fyrir þér?

    Posted by: Eva | 6.07.2008 | 0:17:44

    — — —

    Ég veit ekkert um innflytjendamál á Ítalíu utan það sem hefur komið fram í fréttum um að þeir eigi í álíka miklum vandræðum með flóttamannastrauminn og flestar aðrar Evrópuþjóðir.
    – Það hvort ég myndi hjálpa fólki í neyð eða ekki kemur þessu máli bara ekkert við.
    – Öll lönd sem eiga aðild að þessu blessaða Schengen samkomulagi líta á það sem meginreglu að það land sem gefur fólki vegabréf/vegabréfsáritun, beri ábyrgð á viðkomandi. Það er bara staðreynd, ekki túlkunaratriði.
    – Flóttamaður innan gæsalappa því ég hef ekki heyrt af því að neinn til þess bær aðili hafi rannsakað mál Pauls og komist að þeirri niðurstöðu að gefa honum statusinn „pólitískur flóttamaður“ eða yfir höfuð að hann sé flóttamaður (hvað svo sem það orð þýðir í þessu samhengi). Sjálfsagt fara Ítalirnir í að skoða það.
    – Mér ofbýður nú ekkert sérstaklega að við skulum ekki reka hér flóttamannabúðir líkt og helstu grannríki okkar. Mér ofbýður heldur ekkert sérstaklega að hér skuli ekki þekkjast (hingað til alla vegana) : sæmdarmorð, skipulögð hjónabönd, umskurður kvenna, sharia lagabókstafur og fleira skemmtilegt. Mér finnst reyndar ágætt að við séum laus við þessi „aðlögunarvandamál“.
    – Ég er engum stjórnmálaflokki hollur og því þvælist ekkert slíkt fyrir mér. Mér finnst þó stjórnmálaflokkar misjafnlega jarðtengdir og mis skaðlegir og má hafa mínar skoðanir á því.

    En ástæða þess að ég kommenteraði hér in the first place var nú bara sú að þú varst að auglýsa eftir viðbrögðum.
    Ég held að þeir sem eru sammála þér nenni ekki að kommentera en þeir sem eru ekki sammála skilji að það hefur engan tilgang því þú trúir því að íslenskt yfirvald sé vont og í samsæri gegn þér og hinum „aðgerðasinnunum“.
    Og maður rökræðir ekki trúmál við trúaða …
    kveðja,
    Hugz

    Posted by: Hugz | 6.07.2008 | 18:48:12

    — — —

    „Og maður rökræðir ekki trúmál við trúaða…“

    Þetta væri kannski rétt ef að markmið rökræðna væri alltaf að fá hinn til að skipta um skoðun.

    Mér finnst hins vegar að maður ætti að rökræða til þess að skipta sjálfur um skoðun. Og einmitt þess vegna rökræðir maður trúmál við trúaða.

    Posted by: Ásgeir | 8.07.2008 | 15:59:30

    — — —

    Mér finnst meginmarkmið rökræðu vera að fá fram ólík sjónarmið til þess að vera betur í stakk búinn til að taka upplýsta afstöðu.

    Hitt er svo annað mál að þegar maður hefur myndað sér ákveðna skoðun á máli sem manni finnst mikilvægt, þá hlýtur tilgangurinn að verða sá að fá aðra til að horfa á hlutina frá sama sjónarhorni.

    Svo er auðvitað líka til í dæminu að fólk rökræði einfaldlega til að reyna með sér og það er í sjálfu sér ekkert ómerkilegri keppni en íþrótt eða spurningakeppni. Slíkar rökræður fara þó oft út í þrætur þar sem rökleysum er beitt til að ná yfirhöndinni.

    Posted by: Eva | 8.07.2008 | 16:43:28

Lokað er á athugasemdir.