Hvað er tröll nema það?

Hún kom inn um gluggann sem kveldriða forðum
á kústi og barði þig ómyrkum orðum
en vissi ekki vitaskuld tilveru þinnar
-og vituð þér enn eða hvað?

Hún aldrei því trúir sem augljósast sýnist
í orðum hún lifir, í ljóðum hún týnist,
hún skrifar þér örlög
og skarar í deyjandi eld
-hvað er skáld nema það?

Hún leggur þér spil og hún spáir þér ljúfu,
hún spinnur þér orðastreng, engill með húfu,
með álagahendur
en auglit sem nývakið barn
-hvað er norn nema það?

Af fordæði og ergi hún fremur þér galdur,
í fjötra þig hneppir um ævi og aldur,
hún tryllist og hamast
og tælir þig ungan á fjall
-hvað er tröll nema það?

Og sjálf er hún óhræsi og álögum bundin
og elskar þá síst sem hún leiðir í lundinn,
þó biður hún sátta
og býður þig velkominn heim
-hvað er blóm nema það?