Háskólanemar hættir að kaupa námsbækur

11873418_10153696662500809_4710618910325254526_n-688x451

Um helgina varð ég vitni að umræðu þar sem háskólakennari viðraði áhyggjur sínar af því að nemendur við íslenska háskóla lesi ekki þær bækur sem skráðar eru á kennsluáætlun.

Kennarinn sagði hlutfall keyptra bóka móti skráðum nemendum bera þessari þróun vitni en yfirlit yfir sölutölur hjá Bóksölu stúdenta sýni um 43 seldar bækur móti 100 stúdentum í hverju námskeiði og hlutfallið fari lækkandi í öllum deildum. Hann taldi upp nokkrar aðrar aðferðir til að nálgast námsefni en áleit þó augljóst að hluti nemenda læsi bara ekki grunnefnið. Hann lagði svo til að kennarar brygðust við þessu, t.d. með því að láta nemendur kynna einstaka kafla í kennslubókum og hátta námsmati þannig að ekki væri hægt að komast hjá því að lesa þær kennslubækur sem eru á leslista.

Þessar hugmyndir eru enganveginn í takt við tímann. Háskólakennarar verða að fara að átta sig á því að nemendur þeirra hafa flestir alist upp við stöðuga notkun internetsins og til að mæta kröfum þeirra þarf námsefni að vera ódýrt og aðgengilegt á rafrænu formi.

Afturhaldssöm afstaða til náms og kennslu

Vel má vera að of margir nemendur lufsist í gegnum háskólanám án þess að lesa sér til gagns en það eru nokkur atriði í innleggi kennarans sem mig langar að gera athugasemdir við.

Í fyrsta lagi er það ekki áhugahvetjandi háskólakennsla sem felst í að þvinga þá nemendur sem minnstan metnað hafa til þess að lesa nákvæmlega þær bækur sem kennarinn mælir með, og láta þá „kynna“ grunnefni fyrir öðrum nemendum, sem eru fullfærir um að lesa það sjálfir.

Í öðru lagi samræmast tillögur um námsmat sem byggir á því að prófa nemendur sérstaklega úr texta tiltekinna bóka, illa þeirri hugmynd að háskólanám eigi að efla sjálfstæði í hugsun og þjálfa fólk í góðum vinnubrögðum. Hlutverk háskólakennara ætti að felast í því að kynna nýja þekkingu, leiðbeina við verkefnavinnu og benda á heppilegt lesefni. Háskólakennari sem lítur á sig sem einhverskonar yfirvald sem yfirheyrir nemendur um efni einstakra bóka, stuðlar ekki að þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum. Ef námsmat byggir á krefjandi verkefnum, fremur en prófum í einangrun, þá komast nemendur ekki hjá því að kynna sér efnið vel, hvort sem þeir lesa einmitt þær bækur sem kennarinn setur á lista eða afla sér vitneskju með öðrum hætti.

Í þriðja lagi er óvarlegt að draga miklar ályktanir um lestur af sölutölum Bóksölu stúdenta. Það eru ekkert bara áhugalausir nemendur sem láta ekki kúga sig til að kaupa bækur sem þá langar ekki að eiga. Í dag höfum við nefnilega aðgang að svokölluðu alneti, sem geymir upplýsingar á ýmsu formi og nútímatækni gerir okkur kleyft að safna upplýsingum endurgjaldslaust.

 

Þessvegna kaupi ég fáar bækur

Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart að sala á námsbókum hafi dregist saman. Ég kaupi sjálf eins fáar bækur og ég kemst upp með. Það þýðir þó alls ekki að ég lesi lítið.

Þótt kostnaðurinn hafi sitt að segja er stærsta ástæðan fyrir því að ég kaupi fáar námsbækur sú að ég vil geta tekið bækurnar með mér hvert sem ég fer. Ég vil geta lesið í rúminu, flugvélinni og á biðstofu tannlæknisins og ég vil ekki þurfa að bera með mér 600 blaðsíðna doðrant. Ég vil geta fundið setningu eða efnisorð í hvelli. Ég vil ekki þurfa að fletta upp í atriðisorðaskrá því það er fljótlegra að slá orð inn í leitarglugga. Sorglega lítill hluti námsefnisins er til á rafrænu formi.

Önnur ástæða fyrir því að ég reyni að komast hjá miklum bókakaupum er sú að í þeirri grein sem ég er að læra, úreldast bækur oft hratt. Ég vil ekki verja peningum til kaupa á bók sem er þegar úrelt og helst vil ég komast hjá því að setja mikla peninga í bækur sem ég á allt eins von á að þarfnist endurskoðunar innan fárra ára. Allra síst vil ég kaupa illa prófarkarlesin fjölrit sem ætlunin er að gefa út með lagfæringum ári síðar. (Ég lít reyndar á slíka námsefnisútgáfu sem hálfgerða misnotkun kennara á stöðu sinni en það er efni í annan pistil.)

Það er mun auðveldara í dag en fyrir 20 árum að komast hjá því að kaupa bækur. Nokkurn hluta þeirrar þekkingar sem er að finna í bókunum er hægt að nálgast löglega á internetinu, án þess að borga krónu, og þekkingin er sú sama þótt hún sé í einhverri annarri bók eða grein en þeirri sem kennari mælir með. Auk þess sem nútíma tækni gerir nemendum fært að skanna bækur, eiga margir snjallsíma og með þeim er einfaldlega hægt að ljósmynda hverja opnu fyrir sig. Þegar maður er kominn í æfingu er það fljótlegra en að nota skanna.

 

Önnur lestrarhvetjandi aðferð

Það er óvíst að samdráttur í bóksölu miðað við fjölda nemenda gefi áreiðanlega mynd af því hversu hátt hlutfall nemenda leggur sig fram við námið. Hvað sem því líður er auðvitað góðra gjalda vert að hvetja nemendur til að lesa sem mest. Ég vona þó að fáir háskólakennarar aðhyllist þær 19. aldar aðferðir sem umræddur kennari heldur á lofti. Það hljóta að vera til heppilegri leiðir til að hvetja stúdenta til að lesa námsefnið.

Ein þeirra gæti verið sú að veita nemendum, og helst bara öllum heiminum, endurgjaldslausan, rafrænan aðgang að öllu því námsefni sem kennarar útbúa, hvort heldur eru glósur, greinar eða kennslubækur. Það er að minnsta kosti einfalt og ódýrt að prófa það. Mun ódýrara en að prenta bækur og geyma þær á lager.

Ég ætla ekki að lofa því að netvæðing námsefnis myndi skila meiri lestri en er ekki líklegra að háskólar nái þeim árangri með því að færa kennsluhætti og námsmat fram til 21. aldarinnar en aftur til hinnar nítjándu?