Harmur Binga

1554631_10152997029791275_2922438140823586351_nÞegar ég sá viðbrögð Björns Inga Hrafnssonar við stórfrétt þriðjudagsins fór ímyndunaraflið á flug.

„Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“

screenshot-2015-06-04-11-10-04

Ef ég hefði ekki verið búin að lesa fréttirnar áður, hefði ég haldið að einhver hefði orðið fyrir slysaskoti. En ég var búin að lesa fréttirnar og draga þá ályktun að ef systurnar hefðu á annað borð haft einhverjar upplýsingar sem kæmu sér illa fyrir forsætisráðherra, hefðu þær komist yfir þær vegna tengsla Hlínar og Björns Inga. Ég var því í raun ekki undrandi á því að Bingi væri sleginn, en svo dramatískum viðbrögðum átti ég þó ekki von á.

Orð Björns Inga kölluðu fram í huga mér mynd af reiðri konu sem tekur vondar ákvarðanir og karli sem áttar sig fyrst á því þegar hann les þessa óvenjulegu frétt, að hún var miklu, miklu reiðari en hann gerði sér grein fyrir. Ég ímyndaði mér að harmur Binga stafaði af því að þótt ástarsambandi væri lokið, bæri hann ennþá umhyggju fyrir konu sem hafði verið mikilvægur hluti af lífi hans í nokkur ár og honum væri líka hlýtt til systur hennar.

Ég hélt að hann væri að vísa til fyrrum kærustu sinnar og fjölskyldu hennar þegar hann talaði um þá sem eiga um sárt að binda. Mér datt meira að segja í hug að hann byggi yfir einhverjum upplýsingum sem gerðu það að verkum að hann teldi að hægt væri að skýra glæpinn, að minnsta kosti að nokkru leyti, með einhverju öðru en glæpahneigð. Stundum haldast afbrot í hendur við fíkn, sálræn áföll, geðræna kvilla, harða lífsreynslu … við lifum ekki í tómi og oftast eru afbrot í einhverjum skilningi „mannlegur harmleikur“, við bara vitum það ekki eða gerum það ekki að aðalatriði nema þegar bófinn er okkur nákominn.

Ég hugsaði með mér að fyrst maður, sem óstaðfestar fregnir herma að hafi sett sér það markmið að verða valdamesti fjölmiðlafrömuður landsins, væri síkum harmi sleginn, myndi hann sjá til þess að hans eigin fjölmiðlar myndu draga fram allt sem hugsanlega gæti orðið þeim systrum til málsbóta og vanda sérlega vel til frétta sem væru þeim í óhag.

En mér skjátlaðist. Bingamiðlar hafa síður en svo farið mildari höndum um systurnar en aðrir fjölmiðlar. Það þýðir líklega að wannabe valdamesti fjölmiðlafrömuður landsins standi öðrum fjölmiðlaeigendum framar að siðferði og reyni ekki að hafa nein áhrif á fréttaflutning.

Þó gæti líka verið að ég hafi aldeilis misskilið Binga. Hann hafi alls ekki verið að vísa til fjölskyldna Hlínar og Malínar þegar hann bað um aðgát í nærveru sálar, heldur til vinar síns forsætisráðherrans. Það virðist allavega vera túlkun þeirra sem hafa dreift þessari krúttlegu mynd á facebook.

Af fésbókarvegg Björns Inga að ráða er hann á leið í frí til Parísar með tilvonandi eiginkonu sinni. Við óskum Binga og frú góðrar ferðar og vonum að hann jafni sig af harminum í Parísarferðinni.