Getur stelpa borið strákanafn?

Djöfull finnst mér gott mál að til sé fólk sem lætur ekki yfirvaldið vaða yfir sig. Hvað í fjáranum eru yfirvöld annars að skipta sér af því hvort fólk gefur börnum sínum nöfn sem hefð er fyrir að hæfi öðru kyninu frekar en hinu? Ríkir ekki kyngervisfrelsi í landinu? Þarf ekki bara líka að skipa nefnd sem fylgist með því að hárgreiðsla og klæðaburður hæfi kyni?

Og hvaða rök eru svosem fyrir því að tiltekið nafn sé drengjanafn fremur en stúlkunafn eða öfugt? Siegfried er karlmannsnafn í öðrum málum, en í íslensku er Sigfríður kvenmannsnafn. Guðmar er strákanafn en bæði Guðný og Dagmar eru stelpunöfn. Á að vera eitthvert vit í þessu eða hvað?

Annars þætti mér gaman að vita hvort yfirvaldið ætlar að halda því fram að kona að nafni Blær, heiti karlmannsnafni. Og ef svo er, heitir þá drengur sem nefndur var Kolur hundsnafni? Hversu margar konur þurftu að ganga í buxum til að gera buxur að kvenmannsfílk? Ætlum við að halda okkur við 19. aldar hugsunarhátt eða sleppa tökunum á fordómunum og líta svo á að Kolur verði mannsnafn þegar það er gefið mannsbarni og Blær stúlkunafn um leið og telpa er nefnd Blær?

Ég gæti skrifað um andstyggð mína á mannanafnalögum í alla nótt en þarf víst að sofa eitthvað líka. En hér eru nokkrir gamlir pistlar um þá undarlegu rökvísi sem þau byggja á.

 

2 thoughts on “Getur stelpa borið strákanafn?

  1. Það er í tízku að nefna stúlkubörn karlmannsnafninu París víða um heim… svo ég sé ekki vandamál við Blæ.

  2. Ég er mjög sammála þér. Mér finnst þessi mannanafnafasismi hérna alveg fáránlegur. T.d. að krefjast þess að kínverji sem flytur hingað og fær ríkisborgararétt skuli taka sér íslenskt nafn. Þetta gæti svosem hafa breyst án þess að ég viti það, en þetta var allavega við líði til skamms tíma. Mér finnst fátt eins undarlegt eins og útlendingur sem varla kann íslensku og heitir Bárður Bjarnason.

    Sumt í þessu landi er ofsalega forpokað. Eins og t.d. að lúpínunni skuli útrýmt vegna þess að hún er ekki íslensk jurt. Þá vil ég heldur hafa fagurbláar breiður fyrir augunum, en örfoka mela. Mér þætti líka gaman að sjá Geysi gjósa, þó að það þurfi dálítið að fikta í honum til að hann haldi því áfram.

    Með sömu rökum og ekki má fikta í Geysi, ætti ekki að fikta í mannanafnahefðinni. Ef framtíðin verður sú að íslenska hefðin víki, þá verður bara svo að vera. Þannig þróast hlutirnir eðliega, og hér er verið að tala um persónulega hagsmuni fólks, en ekki bara einhvern goshver.

Lokað er á athugasemdir.