Fyrir þá sem ekki eru á fb

Á facebook gengur nú bréf sem varðar mál Mohammeds Lo og mér finnst rétt að nái einnig til þeirra sem ekki eru þar.

Þeir sem hafa áhuga á að liðsinna Mohammed Lo, eru hvattir til að skrifa yfirvöldum. Skrifið t.d. Útlendingastofnun utl@utl.is Innanríkisráðherra ogmundur.jonasson@irr.is eða aðstoðarmanni Innanríkisráðherra halla.gunnarsdottir@irr.is.

Þeir sem ekki hafa tíma til að skrifa eða eiga erfitt með að stíla bréf, geta nýtt sér bréf sem Jóhann Páll Jóhannsson skrifaði og er svo elskulegur að leyfa frjáls afnot af.

Ég birti bréfið hér fyrir þá sem ekki eru á fb og bið ykkur um að dreifa því sem víðast.

 

Sæll/sæl …

 

Ég hef miklar áhyggjur af flóttamanninum Mohammed Lo og finnst skelfilegt til þess að hugsa hvers lags meðhöndlun hann hefur fengið. Mohammed fæddist sem þræll og flúði eiganda sinn eftir að hafa verið beittur hrottalegu ofbeldi. Síðan hefur hann hrakist um Evrópu en verið  synjað um dvalarleyfi í tveimur löndum af furðulegum ástæðum.

Mohammed hefur fengið tvö atvinnutilboð hér á landi, hann dauðlangar að vinna og á vini sem eru tilbúnir að hjálpa honum að koma sér upp heimili. Því er engin ástæða til að ætla að Mohammed verði nokkurs konar samfélagsbaggi.

Mohammed er í felum eftir að lögregla tjáði honum að hann yrði sendur nauðugur til Noregs. Þaðan verður hann að öllum líkindum sendur aftur í hendur kúgara síns í Máritaníu þar sem hann væntir þess að verða geldur eða drepinn. Kona að nafni Eva Hauksdóttir hefur gert ævi hans og örlögum skýr skil í samantekt sem finna má hér: http://www.pistillinn.is/?p=478

Ég hvet þig eindregið til að veita Mohammed dvalarleyfi og jafnframt slaka á þeim hömlum sem lagðar eru á hælisleitendur sem sækja um dvalarleyfi á Íslandi.

 

Kveðja,

Einnig má hvetja stofnanir og samtök sem ekki hafa vald til að veita dvalarleyfi til að beita sér í málinu. T.d. má biðja mannréttindaskrifstofu Íslands um liðsinni. Framkvæmdastjórinn er með netfangið margret@humanrights.is en einn starfsmanna Jóna Aðalheiður Pálmadóttir er sérfróð um mansal barna og ætti því að vera sérlega umhugað um mann sem er fæddur til ánauðar, hennar netfang er jona@humanrights.is.  Einnig er reynandi að skrifa deildum Rauða krossins, reykjavik@redcross.is o.s.frv. (nánari upplýsingar hér.) Auðvitað má svo skrifa hvaða alþingismanni sem er og hvetja hann til að beita áhrifum sínum.