Fúþarkinn sem verndarhringur

Norræna rúnarófið er kallað fuþark, eftir fyrstu 6 rúnunum. Rúnir voru ekki notaðar til þess að skrifa bækur heldur í áletranir, t.d. á bautasteina, rúmbríkur og kistla og ekki síður til galdraiðkunar. Á Íslandi var aðallega notað 16 rúna róf en þessi norræna gerð rúnarófsins er eldri og að mínu mati bæði fallegri og skemmtilegri.

Röð rúnanna er (að sögn galdrafólks) engin tilviljun því þessi röð hamlar því að slæmu rúnirnar verði virkar. Þursrúnin, sem táknar ógnarkrafta náttúrunnar er t.d. staðsett á milli Úruxans sem er allra rúna óhagganlegust og Áss, sem er tákn menningarinnar (þar með tækni og vísinda) og þessar rúnir halda því aftur af því ógnarafli sem Þursinn býr yfir. Á sama hátt er Nauðarrúnin staðsett milli Hagls, sem táknar skamma hríð, og Íss, sem táknar langvarandi ástand. Nauðarrúnin þrýstir þessum bölrúnum í sundur og þar sem hvor um sig „togar í“ hana nær hún ekki að magna aðra hvora þeirra upp.

Sé rófinu raðað í beina línu eða hring myndar það verndarkeðju. Hér er Dagur sýnd sem síðasta rúnin í rófinu en oft er Óðal höfð síðust. Sú útfærsla stemmir að mínu viti betur við þá hugmynd að rúnirnar eigi að stemma hver aðra af. Ég er reyndar sannfærð um að það er ekki hægt að gera eitt eða neitt með rúnum án þess að ætla sér það svo ég held að þetta skipti ekki máli í reynd en samkvæmt hugmyndinni væri rökréttara að hafa Óðal síðustu rúnina í hringnum. Ef Dagur og Fé standa hlið við hlið getur það táknað fjárhagslega áhættu en Óðalsrúnin er rún stöðugleika og heldur því aftur af kröftum þessara tveggja rúna og ætti því að standa á milli þeirra í hringnum. Ef rófið er dregið í línu skiptir þetta hinsvegar ekki máli.

Ég trúi því ekki að rúnir búi yfir einhverjum krafti í sjálfu sér heldur að þær hafi í reynd virkað sem tákn fyrir óskir og ásetning galdramannsins. Hverju galdramaðurinn sjálfur trúir er annað mál en ég held að það sem við köllum galdur sé fyrst og fremst það sem mannshugurinn kallar fram með væntingum mannsins og áformum hans.