Freudian slip

Gerði mig seka um freudian slip í dag. Ætlaði að skrifa „órökstudd fullyrðing“ en varð það á að skrifa „órökstudd fullnæging“. Ég er nefnilega þessi sem vil að hlutirnir meiki sens og hef engan áhuga á fullnæginu sem ekki á við góð rök að styðjast. Reyndar má til sanns vegar færa að rakalaus fullnæging sé ekkert sérlega góð. 

Látum það vera þótt maður renni til á freudismanum einu sinni en þegar ég leit á bloggáttina blasti dónaskapurinn allsstaðar við.

„Knús og þvottar eru atvinnugrein“ las ég en við nánari athugun var þetta grein á vefnum knuz.is og fyrirsögnin var „Þrif og þvottar eru atvinnugrein.“ Ég notaði náttúrulega misskilninginn til að skrifa grein um uppáhaldsefnið mitt þessa dagana afglæpun vændis, undir heitinu „Þrif og vændi eru atvinnugreinar.“ Femmurnar segja auðvitað ekki múkk frekar en fyrri daginn enda hafa þær ekkert í mig.

Aftur leit ég á bloggáttina og rak augun í fyrirsögnin af bleikt.is „Vilja koma ungum og óþekktum tónlistarmönnum…“ afgangurinn sást ekki í huganum botnaði ég „…til við sig.“ Ég bara varð að fá þetta staðfest svo ég smellti á tengilinn. Það sem vantaði var „…á kortið.“

Næst þegar ég opnaði gáttina tók ég eftir línunni: „Káfað í Silfrinu.“ Sá fyrir mér unga ljósku káfa á Agli og missti kynhvötina tímabundið. Hin raunverulega fyrirsögn var „Kafað í Silfru.“

Nú er kynferðisleg frústrasjón mín síður en svo dulvituð. Þvert á móti er ég mjög meðvituð um hana og myndi sennilega gera eitthvað í því ef þeir sem vilja mig væru ekki ýmist fávitar eða í útlöndum. En dulvitundin virðist vera að hamra á þessu líka. Nema náttúrulega að það sé klámvæðingin sem fer svona með mig.

One thought on “Freudian slip

  1. Tjásur:

    rakalaus fullnæging….

    og óskarinn fer til …
    Þú ert gull, þetta var hrein snilldarlesning.

    Posted by: Bára | 5.10.2011 | 20:03:11

    Eva, þú ert alveg óborganleg! Ég sit hérna einsömul í útlöndunum um miðja nótt, flissandi eins og fábjáni og skemmti mér alveg rosalega yfir skrifunum þínum. Takk Takk.

    Posted by: Sigríður Halldórsdóttir | 30.10.2011 | 1:59:12

Lokað er á athugasemdir.