Fjallganga

Gengum á Móskarðshnjúka í dag. Mouhamed kom með okkur. Ágætt gönguveður, smá vindur en hlýtt.

Ég er vægast sagt í hryllilegu formi og var svosem búin að segja Einari að ég hefði varla úthald í eitt lítið fjall en ákvað að druslast samt með, ekki kemur maður sér í form með því að sitja við tölvuna.

Ég hafði rétt fyrir mér í þetta sinn. Gjörsamlega úthaldslaus. Moui er hinsvegar í fínu formi. Var horfinn langt upp í fjall löngu á undan okkur.

Við vorum ekki komin langt þegar ég sá fram á að verða fram að kvöldmat að komast alla leið og sagði Einari að halda bara áfram á sínum hraða. Ég fór ekki einu  sinni alla leið upp sjálf, tók bara stuttan spöl í einu og hvíldi mig oft á leiðinni. Mér leið pínulítið betur þegar ég sá að tvær ungar stelpur fóru ekkert hraðar yfir en ég en miðað við Einar og Mouhamed er ég eins og gamalmenni. Ég held að ég hljóti að hafa verið í skárra formi þegar við vorum í innanhússklifrinu í vetur sem leið en ég hef náttúrulega ekkert hreyft mig síðan. Varla farið út í búð, hvað þá lengra.

Þetta gengur ekki, í alvöru. Ég hef aldrei haft áhuga á fjallgöngum en nú verð ég bara að fara að hreyfa mig áður en ástandið verður orðið þannig að ég hætti að geta gengið stiga. Svo er ég líka orðin feitabolla og mér finnst það bara ekkert fara mér vel. Ekki svo að skilja að ég haldi að maður grennist við það að ganga en maður fitnar allavega ekki rétt á meðan. Það er þó eitthvað.

Einar tók myndirnar