Ferðalok

Þegar við vorum komin í gegnum Hvalfjarðargöngin ók Áttavitinn til baka í átt að Hvalfirði. Við fórum nú samt ekki lengra en að Meðalfellsvatni en þar leituðum við lengi dags að gamla kofanum afa og ömmu sem Hulla uppástóð að hefði verið færður og stæði þar einhversstaðar enn. Við stelpurnar vorum þar mikið sem börn og oft var pabbi með líka. Ekki fundum við bústaðinn (eða öllu heldur kofann) enda vafalaust löngu búið að rífa hann.

loa3

Hinsvegar fundum við stað til að drekka bjór í sæmilegu skjóli og höfðum nokkra skemmtan af heiðlóu sem taldi víst að við værum hreiðurræningjar. Hún var staðráðin í að afvegaleiða okkur og þóttist vera ægilega slösuð. Hún var reyndar ágætur leikari, allavega trúði ég henni í byrjun. En hún reyndist ágætlega fleyg þegar til kom.

 

img_0561

Þessa mynd fann ég á netinu (smellið á hana til að sjá slóðina). Bátaskýlið lengst til vinstri er gamla bátaskýlið hans afa Jóa.

ÍtalíaVið enduðum ferðina á því að fara út að borða á Ítalíu. Einar hitti okkur þar og ég fór að segja honum ferðasöguna en gætti ekki að því að skrúfa niður í hávaðanum í mér. Við næsta borð sat ungur maður og kona á aldur við mig og ég áttaði mig ekki á því að ég truflaði þau fyrr en sá ungi setti ofan í við mig. Allt í lagi með það og sjálfsagt að taka tillit til þess en hann talaði til mín af nokkrum hroka, með athugsemdum um að það mætti bara halda að þeim kæmi það eitthvað við sem ég var að segja, og var svo með stæla þegar mér varð það á stuttu síðar að missa hnífinn minn í gólfið. Skítt með það, við héldum bara áfram að spjalla í hálfum hljóðum en þau töluðu nógu hátt til þess að við komumst ekki hjá því að heyra samræður þeirra sem snerust um fjölskylduvandamál (mætti bara halda að okkur kæmi þeirra fjölskyldudrama eitthvað við). Samtali þeirra lauk með því að konan gekk út í fússi.  Drengstaulinn hefur líklega séð að sér því hann kastaði á okkur kveðju þegar hann fór.
Einar hafði dálitlar áhyggjur af því að við myndum panta einhverja vitleysu en við fengum okkur pizzur og pasta og ég held að allir hafi bara verið nokkuð sáttir.

mynd3

Þessi ferð var í alla staði æðisleg og nú stefnum við bara á Afríku næst. Hulla þarf ekki að galdra sól í Afríku svo hún getur einbeitt sér að því næstu 5 árin að galdra pening.

Elsku pabbi, takk fyrir að eyða með okkur þremur, ógleymanlegum dögum. Við erum þegar farnar að hlakka til næsta ferðalags.