Er skólaskylda nauðsynleg?

Jón Gnarr nefnir möguleikann á því að afnema skólaskyldu og eins og venjulega þegar anarkískar hugmyndir ber á góma, grípur fólk um hjartað og sér fyrir sér allsherjar kaos. Dettur helst í hug að skólanir verði skyndilega opnaðir og börnunum hleypt út eins og kúm að vori, Fermingjardrengir látnir taka afstöðu til þess hvort þeir ætli að gefa frekara nám upp á bátinn og snúa sér þess í stað að fíkniefnaneyslu af fullum krafti. Mæður neyðast til að hætta í vinnunni til að koma heim og sinna uppfræðsluhlutverkinu og smábörn einangrast félagslega. Og þar sem það gengi ekki til lengdar að troða konum aftur bak við eldavélina myndu spretta upp einkaskólar og tilheyrandi kapílísk mismunun.

Eins og ég er almennt hrifin af frjálsræði þá er tvennt sem ég sé stax sem stóra galla við að afnema skólaskyldu og taka upp heimakennslu í staðinn. Í fyrsta lagi: Heimakennsla merkir ekki að barnið hefði val, heldur að foreldaranir hefðu val. Vel má vera að það sé góð hugmynd en þá ætti heldur ekki að tala um möguleikann eins og hann sé hagsmunamál barna. Í öðru lagi: Það eru líka til börn sem hafa ekkert meiri áhuga á að læra hjá foreldrum sínum en í skólanum. Börn sem þurfa kannski bara eitthvað allt annað en bóknám.

Ég efast um að það að afnema skólaskyldu hviss bang myndi leysa mörg vandamál en ég hef heldur ekki trú á að Jón Gnarr vilji endilega fara þá leið. Og hefur annars einhver sýnt fram á að skólaskylda sé nauðsynleg? Eða bara gangleg? Yrði lægra hlutfall barna læst og skrifandi um 15 ára aldurinn ef við leggðum skólaskyldu niður? Yrðu fleir börn óhamingjusöm? Myndi eineltismálum fjölga? Ef ekki, af hverju má þá ekki allavega velta þessu fyrir sér?

Mér finnst reyndar liggja meira á því að skapa skóla sem hentar börnum sem víkja aðeins frá norminu í heðgun og hugsun (ekki svo að skilja að ég viti hvernig á að fara að því) en að leggja niður skólaskyldu en ég er hreint ekki frá því að heimakennsla henti sumum börnum betur og ég hefði valið að kenna mínum strákum sjálf ef ég hefði átt kost á því. Fjöldi barna kemur út úr grunnskóla án þess að kunna neitt sem þau hefðu ekki lært betur hjá foreldrum sínum og já, fólk á að fá að mennta börnin sín án afskipta yfirvalda ef því sýnist svo. Hitt er svo annað mál að ég hef minnstar áhyggjur af þeim börnum sem eiga kennaramenntaða foreldra. Hvað með þau börn sem eiga ekki foreldra sem eru einfærir um að mennta þau (þá er ég ekki að hugsa um þekkingarskort heldur frekar félagsleg vandamál) og þrífast heldur ekki í skólakerfinu, hvað á að gera við þau? Ég vil leggja skólaskyldu niður já en fyrst vil ég sjá skólakerfi sem er þannig úr garði gert að flest börn kjósi að nýta sér það.

Mér þætti annars áhugavert að sjá hvað kæmi út úr því ef mætingaskylda yrði gefin frjáls og kennari gæti jafnframt vísað nemanda út ef hann er ekki að sinna því sem til er ætlast í kennslustund (það þarf helvíti mikið að ganga á til að það teljist viðeigandi í dag.) Ætli það fyrirkomulag myndi skila betri eða slakari námsárangri og ætli það myndi skila ánægðari eða óánægðari nemendum?

Ég held að það væri óráðlegt að afleggja mætingaskyldu skyndilega í 8. bekk, hvað þá að gefa börnunum kost á að hætta bara alveg en af hverju ekki að prófa að afnema mætingaskyldu í fyrsta bekk í nokkrum skólum og fylgjast með því hvað gerist? Ekkert að vera mikið að ræða þetta við krakkana, bara ganga út frá því að það sé normalt að mæta í skólann en ef einhver er þreyttur í dag eða óþekkur í dag þá bara fer hann heim, alveg eins og ef hann þarf að mæta til tannlæknis. Ef fjarvistir þessarra barna yrðu miklu fleiri en í öðrum sambærilegum bekkjum þá hættum við tilrauninni eftir fyrsta veturinn, annars prófum við sama hópinn áfram í öðrum bekk.

Þetta yrði ekki mikil áhætta og ef kæmi á daginn að skólaskylda sé ekki stæsta ástæðan fyrir því að börn mæta í skólann,þá mætti næst athuga hvað gerist ef skólinn býður í þokkabót upp á námsfyrirkomulag sem hentar órólegum börnum, hlédrægum börnum o.s.frv. Kannski væri bara hægt að skapa skóla fyrir alla án þess að þvinga neinn til neins? Mætti ekki allavega reyna það?

 

One thought on “Er skólaskylda nauðsynleg?

  1. ———————————–

    Mjög góð hugmynd. Nú er bara að láta hana velkjast í nefnd í nokkur ár;)
    Mig óar við afnámi skólaskyldu ef ríkið er leyst undan þeirri skyldu að taka við krökkum í skóla. Hér í Frakklandi er frekar sniðugt kerfi fyrir börn 3-6 ára. Það er ekki skylda að setja börnin í leikskólann, en það er skylda ríkisins/sveitarfélaganna að taka við öllum þeim börnum sem innrituð eru. Undanfarið hafa heyrst raddir um að ríkið/sveitarfélögin séu að sligast undan þessu kerfi og að það verði afnumið. Mér líst afar illa á það og efast um að það fari hljóðlega fram.

    Posted by: Kristín í París | 25.08.2011 | 9:56:56

    ———————————–

    Everything must be based on voluntarism and not force – everything!

    Posted by: Frikki | 19.09.2011 | 13:18:18

Lokað er á athugasemdir.