Enginn grátkór þótt málefnin séu alvarleg

mfik

Áttundi mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Fjölmörg samtök og hreyfingar hafa fagnað þessum degi á síðustu áratugum en MFÍK, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna hafa haldið hann hátíðlegan allt frá 1953.  Samtökin voru stofnuð árið 1951 sem deild í Alþjóðasambandi lýðræðissinnaðra kvenna.  Ég ræddi við eina af stjórnarkonum MFÍK, Margréti Pálínu Guðmundsdóttur.

Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna hafa ekki verið sérstaklega áberandi í fjölmiðlum. Út á hvað gengur ykkar starf?

MFÍK er hreyfing sem leggur áherslu á ýmis mál sem tengjast friðar-, mannúðar- og jafnréttismálum. Félagið hefur starfað í meira en 6 áratugi eða frá árinu 1951. Þetta er sjálfboðastarf og felst annarsvegar í því að þrýsta á stjórnvöld um aðgerðir og hinsvegar að styðja við góð málefni. Við hittumst reglulega og ræðum það sem er að gerast á alþjóðavettvangi og hér heima, kynnum það sem friðarhreyfingar eru að ræða annarsstaðar og sendum ríkisstjórninni ályktanir um afvopnunar- og mannréttindamál.

Þannig að ykkar vinna er kannski ekki mjög sýnileg?

Sumt af því sem við gerum fer ekki hátt en við stöndum líka fyrir ýmsum uppákomum og vinnum náið með öðrum hreyfingum, ekki síst Samtökum hernaðarandstæðinga. Þótt við séum að ræða alvarleg mál erum við alls enginn grátkór. Þvert á móti er mjög gaman hjá okkur. Við höldum reglulega fjáröflunarkvöldverði í Friðarhúsinu á Njálsgötu í samstarfi við SH og venjan er sú að bjóða þangað fólki til að flytja stutt erindi um ýmis mál sem snerta hugsjón okkar um alheimsfrið og jafnrétti fyrir alla hópa samfélagsins. Einnig koma oft fram listamenn enda leggjum við líka áherslu á menningu. Þetta er mjög skemmtilegt og verðið hófstillt.

Þótt við séum að ræða alvarleg mál erum við alls enginn grátkór.

Við stöndum fyrir fjórum stórum atburðum árlega. Sá fyrsti er dagskrá á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Dagskráin fer fram í Iðnó að þessu sinni og mjög áhugaverð erindi í boði. Ég hvet fólk til að skoða heimasíðuna okkar og kynna sér dagskrána. MFÍK hefur haldið þennan dag hátíðlegan frá 1953 og lengi vorum við eina félagið sem skeytti eitthvað um þennan dag. Í dag heldur fjöldi hreyfinga þennan dag hátíðlegan og það er mjög ánægjulegt að sjá.

Annar atburðurinn er kertafleyting á Reykjavíkurtjörn þann 9. ágúst, til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna í Hirosima og Nagasaki 1945. Það er falleg athöfn og fleiri friðarhreyfingar taka þátt í þeim atburði.

Svo stöndum við fyrir bókamessu 23. desember. Við leigjum þá sal og bjóðum höfundum nýútkominna bóka að koma og kynna verk sín. Við höfum lagt áherslu á að kynna verk kvenna sérstaklega svo við bjóðum aðeins einum karli. Við seljum veitingar, kaffi og heimabakstur við þessi tilefni og látum ágóðann renna til einhvers góðs málefnis.

Í framhaldi bókamessunnar er svo friðarganga í samstarfi við önnur friðarsamtök. Blysför frá Hlemmi og niður á Ingólfstorg. Þessi ganga er löngu orðinn ómissandi hluti af Þorláksmessu og mjög hátíðleg.

Nú á MFÍK sér langa sögu. En hvernig varð hreyfingin til?

MFÍK konur áttu frumkvæði að því að kynna jafnréttisbaráttuna og þar var launajafnrétti fyrsta og skýrasta krafan.

Okkar hreyfing spratt upp úr alþjóðlegu grasrótarstarfi. Samtökin voru formlega stofnuð árið 1951 og við höfum alltaf haft tengsl og samstarf við alþjóðlegar hreyfingar. Fyrsti atburðurinn sem MFÍK stóð fyrir var fundur um kirkjuna og friðarmálin í Stjörnubíói 8. mars 1953. MFÍK konur áttu frumkvæði að því að kynna jafnréttisbaráttuna og þar var launajafnrétti fyrsta og skýrasta krafan. Það er annars gaman að segja frá því að Auður Ingvarsdóttir sagnfræðingur hefur tekið að sér að skrifa sögu félagsins og við vonumst til að hún geti komið út á næsta ári.

Ég man að þegar mótmælin gegn Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst þá tóku konur úr ykkar hópi þátt í þeim, sumar á áttræðisaldri. Er ekki dálítið sérstakt að standa í aktívisma fram á elliár?

Jú en það hefur alla tíð einkennt hreyfinguna að það eru konur sem synda á móti straumnum sem bera starfið uppi. Fyrstu konurnar sem drógu vagninn voru þekktar konur, rithöfundar og konur sem höfðu afskipti af stjórnmálum. Þær voru ekki vel séðar og fengu oft óblíðar kveðjur frá auðvaldinu. Það þótti ekki við kvenna hæfi á þeim tíma að vera að skipta sér af þessum málum og þótt margt hafi breyst síðan eru það ennþá sterkar konur sem skipa MFÍK.

Það hefur alla tíð einkennt hreyfinguna að það eru konur sem synda á móti straumnum sem bera starfið uppi.

Við höfum haldið starfinu óslitið öll þessi ár en það var orðið býsna erfitt á tímabili. Lítil endurnýjun hafði átt sér stað og meðalaldur í samtökunum var bara orðinn það hár að við áttum erfitt með að gefa út fréttabréf og sinna öðrum verkefnum sem við vildum svo gjarnan. En nú eru komnar inn yngri konur, drífandi og fullar af eldmóði svo það er mikill kraftur í okkur núna.

Hvert eiga konur sem langar að taka þátt í starfi ykkar að snúa sér?

Það er ekkert formlegt umsóknarferli. Við erum með heimasíðu þar sem netfangið okkar kemur fram. Svo eru auðvitað allir velkomnir á fjáröflunarkvöldverðina í Friðarhúsinu og spjalla við okkur og ég tala nú ekki um dagskrána í Iðnó 8. mars. Þetta er mjög spennandi dagskrá og gaman væri að sjá sem flest ný andlit.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu MFÍK