Elliðaey og Hrappsey

Elliðaey – myndin er af vef Wikipedia

Elliðaey
Áður en hafmeyjan Þóra í Þórishólma hvarf í hafið eignuðust þau Jón dóttur sem var nefnd Þórunn. Hún bjó í Elliðaey og þótti undarleg. Sat flestum stundum á klettasillu og spann þráð ofan í sjóinn. Sagt er að margir snældusnúðar hafi fundist fyrir neðan klettinn.

Þórunn þessi eignaðist son sem nefndur var Silunga-Björn því hann var öllum mönnum betur syntur og synti gjarnan með silungum í Haukadalsvatni en hann bjó þar í grennd.

13487772_10208663028268614_2124033433_n

Ég held að þetta sé Elliðaey en ég er ekki viss. Eins og sjá má gengur saufé í eyjunum.

13510549_10208663026628573_46570651_n

Það er nú eiginlega bara með ólíkindum að fuglarnir skuli geta troðið sér á þessar litlu syllur en það virðist ekkert fara illa um þá.

Hrappsey
Í Hrappsey var Hrappseyjarprent, fyrsta prentsmiðjan sem prentaði veraldleg rit síðustu áratugi 18. aldar. Í eynni er mikið æðarvarp. Bergsveinn vinur minn segir eftirfarandi sögu úr Hrappsey í Svarta Víkingnum:

Ég þekki dálítið til Hrappseyjar, eyjarinnar þar sem fyrsta prentsmiðja Íslandssögunnar var sett á fót. Hér bjó móðurfjölskylda mín frá 1940–1945; foreldrar móður minnar, Magnús og Aðalheiður, með börnin sín tíu; þau urðu þrettán í allt. Fjölskyldan hefur einatt verið fámál um árin í Hrappsey og smámsaman hefur mér orðið ljóst hvers vegna. Einar, einn móðurbræðra minna, sagði síðar að ef ekki hefði verið fyrir byssu afa míns, hefðu þau haft lítið sem ekkert að borða. Leigan fyrir að fá að búa í Hrappsey var nefnilega 24 kg af hreinsuðum æðardúni ― sem var nákvæmlega það sem eyjan gaf af sér. Á tilteknum tíma árlega átti að afhenda dúninn Magnúsi á Staðarfelli, en hann var forsvarsmaður Háskóla Íslands, sem þá var orðinn eigandi þessa eggvers. Eitt árið náðu þau ekki að safna 24 kílóum. Ekki fóru menn í mál við þau af þessum sökum, en af heimildum að dæma lá þeim við refsingu. Afi fór margsinnis í land og reyndi að semja um að fá leiguna lækkaða en allt kom fyrir ekki.

Allt árið fór í að hreinsa dúninn. Móðir mín (fædd 1938) man að amma var stöðugt upptekin við dúnhreinsunina og börnin hjálpuðu til við að tína stærstu kleprana úr dúninum. Dúninum var núið við kassa sem bönd voru strekkt yfir, þetta var kallað að krafsa dún. Það er sóðaleg vinna við frumstæðar aðstæður. Þótt Mýrgjöll hafi líklega ekki hreinsað dúninn með sömu aðferð, þarf alltaf að grófhreinsa dún ef á til dæmis að nota hann í sængur

Afi minn og amma voru því tekjulaus á meðan þau bjuggu í Hrappsey. Allt vinnuframlag þeirra gekk upp í leigukostnað. Þrælum Erlings Skjálgssonar tókst að safna nægu fé á þremur árum til að kaupa sér frelsi. Afi Magnús hefði hinsvegar aldrei náð því að kaupa sér lausn frá Hrappsey ef hann hefði verið þræll þar.

Afi hafði valið þetta sjálfur. Hann gat farið burt þegar hann vildi og það gerði hann. En þann valkost höfðu Mýrgjöll og flokkur hennar auðvitað ekki. Því er haldið fram að þrælahald hafi verið aflagt á Íslandi á 12. öld en það er ástæða til að ætla að Íslendingar hafi í raun búið við þrældóm mun lengur. Stærsti munurinn var sá að í stað þræls kom það sem var kallað leiguliði.

Snapchat-8452692093354033433

Snapchat-3684711818203794035

Snapchat-2525753319267686739