Ekki hægri/vinstri heldur heimsvaldastefna/anarkí

Flestir halda að ég sé vinstri sinnuð en sannleikurinn er sá að kapítalisminn höfðar að mörgu leyti mun betur til mín en sósíalismi. Ólíkt mörgum anarkistum trúi ég því að verðmæti séu sjaldnast áþreifanleg, og að viðskipti virki og geti m.a.s. verið siðleg, jafnvel þegar þau skila hagnaði.

Gallinn við arðhyggjuna er sá að hún getur af sér vald og manneskjan misnotar alltaf vald sitt. Mér finnst gott mál þegar menn uppgötva nýjar leiðir til að nýta gæði jarðarinnar til góðs og það er gaman að eiga helvítis helling af peningum. Alveg þar til maður áttar sig á því að meðvitað eða ómeðvitað erum við alltaf að beita einhvern yfirgangi. Það byrjar kannski bara sem smávegis frekja en hún vindur upp á sig og viðhorfið okkars uppgötvuðum að landið býr yfir einhverju sem við viljum fá, þar með er okkars drullusama þótt ykkars þurfi að flytja eða hafið ekki lengur aðgang að drykkjarvatni, nær yfirhöndinni. Kapítalismi getur þannig af sér heimsvaldastefnu og svokallaða alþjóðahyggju sem byggist á því viðhorfi að sumar þjóðir séu rétthærri en aðrar.

Þótt sósíalisminn virðist að mörgu leyti mannúðlegri, endar hann að sama skapi í yfirgangi. Okkars hafa búið við kúgun svo lengi að nú mega okkars kúga ykkars um ókomna tíð og þeir sem eru ósammála eru svikarar Ég var reyndar búin að missa trúna á því fyrir síðustu kosningar að það væri mögulegt að byggja upp réttlátt samfélag með því stjórnkerfi og efnahagskerfi sem nú er við líði en áður kaus ég VG, þótt ég telji mig ekki sérlega vinstri sinnaða, út á afstöðu þeirra til umhverfis- og mannréttindamála. Sú stefna var auðseld fyrir nokkra ráðherrastóla, því þegar upp er staðið snýst pólitík vinstri manna líka um völd og eiginhagsmuni. Félagshyggjustjórnin svokallaða getur ekki falið sitt rétta andlit með því að kalla helstu kúgunarstofnun flóttamanna Mannréttindaráðuneyti, þykjast ekki bera ábyrgð á stóriðjustefnunni sem er í fullum gangi eða segjast ætla að leggja varnarmálastofnun niður einhverntíma seinna.

Í síðustu viku hlustaði ég á fyrirlestur Websters Tarpley um utanríkisstefnu Obama. Fyrirlesturinn var áhugaverður og ég hvet alla til að kynna sér rök Tarpleys fyrir því að Obama sé hættulegasti maður í heimi. Mér þótti þó ekki síður áhugaverð sú hugmynd Tarpleys að hugtökin hægri og vinstri skipti ekki svo miklu máli lengur heldur þurfi fólk að taka afstöðu með eða móti heimsvaldastefnu en hún sé við líði jafnt meðal hægri manna og vinstri. Nákvæmlega! hugsaði ég og mér þótti þessvegna mjög sorglegt að heyra að Tarpley er gjörsamlega glórulaus um það hvað anarkismi gengur út á, hann heldur eins og flestir aðrir að anarkistar vilji bara hafa allt í upplausn og enga stjórn á nokkrum hlut.

Ég er ekki hrifin af merkimiðum en samkvæmt skilgreiningum hlýt ég að flokka sjálfa mig sem anarkista í dag. Að vísu er anarkismi afskaplega loðið hugtak, hefur álíka margar ólíkar merkingar og orðið feminismi og mér gengur jafn illa að staðsetja mig innan ákveðinnar greinar anarkismans og að flokka mig sem hægri manneskju eða vinstri. Það skiptir þó ekki öllu máli hvort ég er umhverfisanarkisti, anarco feministi eða eitthvað annað, það sem allar greinar anarkismans eiga sameiginlegt er djúpstæð andúð á valdi. Þýðingin stjórnleysi er ekki lýsandi, stjórnvaldsleysi eða yfirvaldsleysi er nær lagi. Megin hugmyndin er sú að enginn eigi að þurfa að sætta sig við kúgun af hálfu einhverskonar yfirboðara, að ríkið eins og við þekkjum það í dag sé beinlínis skaðlegt.

Anarkismi byggist á og felur í sér baráttu gegn hverskyns valdabrölti. Þessvegna er anarkismi eina stjórnmálastefnan sem ég kannast við sem endar ekki fyrr eða síðar í heimsvaldastefnu. Hugtökin hægri og vinstri eiga ekki lengur við. Pólitískar andstæður nútímans eru miklu fremur valdhyggja og yfirvaldsleysi. Eða heimsvaldastefna og anarkí.

 

One thought on “Ekki hægri/vinstri heldur heimsvaldastefna/anarkí

  1. —————————
    Liggur það ekki í eðli anarkisma, að þegar ákveðnum árangri gegn „valdinu“ er náð (þegar mótvægið sem felst í anarksima er orðið sjálft að valdi), þá eru forsendurnar brostnar?

    Posted by: ou | 4.10.2009 | 16:56:39

     —————————

    Jú. Anarkí er ferli fremur en ástand. Það verða alltaf einhverjir sem meðvitað eða ómeðvitað öðlast völd og lenda í leiðtogahlutverkum og þegar það gerist þarf að veita þeim strangt aðhald strax. Það er eðli mannsins að búa sér til valdastrúktúr og ég held þessvegna að samfélag þrífist ekki án andspyrnuhreyfinga.

    Posted by: Eva | 4.10.2009 | 19:44:22

Lokað er á athugasemdir.