Eigi skal efast

nauðgunarmenning

Viðbrögðin við hæstaréttardómnum í vítisenglamálinu, sem engir vítisenglar voru viðriðnir, afhjúpar þá útbreiddu skoðun að kynferðisbrot séu annars eðlis og miklu alvarlegri en annað ofbeldi.

Síðustu daga hef ég nefnt ýmis dæmi um ofbeldi sem ekki telst kynferðisbrot en felur engu að síður í sér niðurlægingu og brot gegn sjálfsákvörðunarrétti fórnarlambsins.  Ég hef spurt hversvegna brot gegn kynfrelsi sé í eðli sínu alvarlegra en annað ofbeldi þar sem brotið er gegn sjálfsögðum réttindum fólks. Enginn hefur svarað því en sumir segja að með spurningunni sé ég að gera lítið úr kynferðisofbeldi og fórnarlömbum kynferðisofbeldis.

Einmitt það: Þótt enginn geti útskýrt hvað sé svona sérstakt við kynferðisofbeldi, þá er það bara einfaldlega verra en allt annað ofbeldi. Af því bara. Ef ég voga mér að biðja um rök, er það árás á fórnarlömbin.

Fleiri spurningar sem eiga ekki rétt á sér

Þegar vinkona mín var lítil hélt hópur drengja henni niðri á meðan einn þeirra kitlaði hana þar til hún pissaði í buxurnar. Þremur áratugum síðar hefur hún enn ekki orðið fyrir verri niðurlægingu auk þess sem þetta var rifjað upp reglulega alla hennar grunnskólagöngu. Sá sem spyr hvort sé óumdeilanlegt að stúlkan sem varð fyrir því að strákur kippti niður um hana buxunum fyrir framan bekkinn, hafi orðið fyrir verra áfalli gerir lítið úr kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi er svo rosalega spes af því að það felur í sér niðurlæginu.

Vinur minn var lagður í einelti í barnaskóla. Eitt af því sem þótti mjög fyndið var að kaffæra hann í snjó. Við skulum ekki voga okkur að spyrja hvort brot gegn öndurnarfrelsi manneskju jafnist á við brot gegn kynfrelsi. Spurning af því tagi er árás á fórnarlömb kynferðisbrota.

Ég hef kynnst fórnarlömbum pyntinga; manni sem ber varanleg örkuml eftir margra daga vist í litlu búri þar sem hann sat í hnút og gat sig lítið hreyft; öðrum sem glímir við geðsjúkdóm eftir að hafa verið sviptur svefni dögum saman. Við skulum ekki spyrja hvort brot gegn hreyfifrelsi eða svefnfrelsi geti haft jafn slæmar afleiðingar og brot gegn kynfrelsi. Sá sem leyfir sér hvílík helgispjöll er í herferð gegn fórnarlömbum kynferðisglæpamanna.

Spyrjum heldur ekki hvort svelti, þvinguð lyfjanotkun, samskiptatálmun, frelsissvipting, líflátshótanir, líkamsmeiðingar eða hvaða ofbeldisglæpir sem maðurinn hefur hugarflug til að fremja, geti undir einhverjum kringumstæðum haft verri afleiðingar en kynferðisbrot. Sá sem spyr svo óguðlegra spurninga er að taka afstöðu með nauðgurum.

Af hverju segir fólk ekkert? 

Það er skiljanlegt að hreyfingin sem rauf þögnina um kynferðisofbeldi telji að sér vegið þegar einhver bendir á að umræðan sé komin út í rugl.  Og þá er gott þöggunartrix að halda því fram að gagnrýnin beinist gegn brotaþolum í nauðgunarmálum en ekki þeirri hreintrúarstefnu sem miðar að takmarkalausri fórnarlambsvæðingu kvenna.

Síðustu daga hef ég fengið mörg bréf frá fólk sem er ánægt með að einhver skuli leyfa sér efast um algera sérstöðu kynferðisglæpa en þorir samt ekki að segja neitt sjálft. Hvernig stendur á því á tímum tjáningarfrelsis að almennur borgari þarf sérstakan kjark til að segja að kannski sé nauðgun ekki hræðilegri en annað ofbeldi? Það versta sem getur gerst er að einhver haldi því fram að maður sé að níðast á fórnarlömbum nauðgara og það ætti að vera einfalt að láta slíka vitleysu sem vind um eyrun þjóta. En það er greinilega nógu þungbær dómur til þess að flestir kjósa frekar að þegja.

Ein tegund ofbeldisfórnarlamba er talin verðskulda meiri samúð en þolendur annarskonar ofbeldis. Það telst siðferðilegur glæpur að benda á að dómstólar líti kynferðisbrot af hálfu nuddara jafn alvarlegum augum og það að berja mann ítrekað í höfuðið með kylfu. Það er árás á nauðgunarfórnarlömb að efast um að varanleg örorka eða dauði sé neitt skárri örlög en áfallastreituröskun. Mig grunar að ástæðan sé sú að flestir þolendur kynferðisglæpa eru konur og nauðsynlegt þyki að viðhalda þeirri mýtu að örlög kvenna séu alltaf ömurlegri en örlög karla.

Kynferðisofbeldi er það versta sem getur komið fyrir: Þannig hljóðar hið heilaga orð. En er ástæðan fyrir því að þessar efasemdir eru tabú sú að þær geri lítið úr fórnarlömbum kynferðisofbeldis? Eða felst glæpurinn í því að storka kennivaldinu?