Bylting – og hvað svo?

Ég er búin að hugsa svo mikið um þetta. Það er semsagt fullkomlega eðlilegt að skilja ekki vexti, vísitölur og önnur hagfræðihugtök, þau eru nefnilega fullkomlega óeðlileg og álíka gagnleg og flatlús.

Í hugum flestra merkir bylting í raunninni ekkert annað en smávægilegar umbætur á örfáum sviðum. Bylting í merkingunni kerfisbreyting hljómar ógnvænlega. „Bylting já, og hvað svo?“ spyr fólk og verður bara óttaslegið við tilhugsunina um að þurfa að taka afstöðu til þess sjálft hvernig samfélag það vilji byggja. Við vitum hvað við höfum og það virðist útilokað að fá eitthvað skárra. Hugmyndin um að minni iðnvæðing, minni framleiðsla, geti skilað meiri velferð, virðist órökrétt enda þótt allir viti að vandamálið er ekki ónóg framleiðsla heldur misskipting auðs. Það er engu líkara en að fólk haldi að það sé náttúrulögmál að ein fjölskylda í þorpinu geti sölsað undir sig allar eignir annarra þorpsbúa og geri það.

Þegar ég segist vilja byltingu, ekki í þeirri merkingu að ég vilji nýtt fólk heldur vilji ég nýtt kerfi, fjármálakerfi sem virkar þannig að eitthvert samræmi sé milli þess sem fólk leggur af mörkum og þess sem það ber úr býtum, stjórnkerfi þar sem stjórnendur hafa ekki völd yfir fólki heldur sinna fyrst og fremst skipulagsvinnu, hristir fólk höfuðið. Fyrstu viðbrögð eru þau að þetta sé útópía, það sé bara ekkert hægt að skapa anarkískt samfélag, nema þá með sjálfsþurftarbúskap þar sem allir lifa rétt yfir hungurmörkum, þjónusta verði á steinaldarstigi og glæpaklíkur fái að vaða uppi hömlulaust.

Hingað til hef ég átt erfitt með að færa rök fyrir því að það sé hægt búa til kerfi þar sem eignalaust, tekjulágt fólk getur eignast land, húsnæði eða fyrirtæki, án þess að borga háa vexti. Ég hef svarað því að það sé ekki í mínum verkahring að svara því hvernig það sé hægt, ekki frekar en að ég þurfi að kunna að framleiða umhverfisvæna plast(líkis)poka til að vilja að þeir verði framleiddir. Og þá hristir fólk hausinn aftur. Ef ég get ekki útfært lausnina sjálf, þá hef ég semsagt ekki rétt til þess að koma auga á vandamálið. Málið dautt, valið snýst um hægri stjórn eða hægri sinnaða vinstri stjórn, framsóknarmenn allra flokka sameinist og kallið klíkuna ríkisstjórn því það hljómar eitthvað svo lýðræðislega.

Mér hefur gengið betur að útskýra hversvegna ég er tortryggin gagnvart erfðabreyttum matvælum, líklega bara af því að ég hef meiri áhuga á hagfræði sem „meikar sens“ en þessu skrímsli sem við köllum fjármálamarkað. Það er semsagt ekki vegna þess að ég haldi að það sé í sjálfu sér eitthvað slæmt við ný afbrigði af ávöxtum, heldur finnst mér óréttlátt að stórfyrirtæki slái eign sinni á erfðabreytt korn og kippi rekstargrundvellinum undan smábændum sem geta ekki lengur rekið búskap sinn með því að geyma útsæði, heldur þurfa að kaupa það dýrum dómum. En jafnvel þótt þetta sé mun skiljanlegra en stýrivextir og kjölfestufjárfestar, beinist umræðan alltaf frá því sem málið snýst um, þ.e. rétti bóndans til að sjá sér farborða og fer út í kenningar um að það sé hvort sem er ömurlegt að vera bóndi í þriðja heiminum og að þeir yrðu nú bara betur settir með því að vinna hjá kapítalinu. (Ekkert ólíkt því að þegar maður krefst þess að vændiskonur fái frið fyrir forsjárhyggjunni, þá fer umræðan alltaf út í það hvort maður haldi virkilega að það sé skemmtilegt starf og að innst inni vilji þær nú sennilega frekar skúra og skeina.)

En nú hafa þessar ágætu konur, Margrit Kennedy og Vandana Shiva útskýrt að hagvöxtur er ekki nauðsynlegur og sennilega mjög skaðlegur. Að það er vel hægt að reka banka sem þjóna viðskiptavinum sínum í stað þess að ræna þá. Að velferðarkerfi þarf ekki nauðsynlega að snúast bara um opinbera styrki. Að völdin sem stórfyrirtæki hafa yfir stjórnvöldum, eru svo óhugnanleg að jafnvel réttur okkar til að afla matar er í höndum þeirra. Að frelsi snýst ekki bara um rétt til að bera pappaskilti heldur er hæpið að tala um lýðræði þar sem 10% borgaranna eiga 90% allra gæða og örfá fyrirtæki stjórna því á hverju við nærumst. Að öll þessi iðn- og einkavæðing í matvælaframleiðslu er ekki leið til að draga úr hungri heldur auka það.

Anarkismi er að vinna á, á öllum sviðum. Að því leyti gerði hrunið okkur gott að fleiri áttuðu sig á því að það er kerfið sjálft sem er vandamálið. Okkur vantar ekki nýja rassa í ráðherrastólana eða fleiri konur í stjórnir stórfyrirtækja. Okkur vantar ekki forvirkar rannsóknarheimildir eða meiri vígbúnað handa löggunni. Ekki heldur fleiri virkjanir og álver, meiri hagvöxt og fleiri bílastæði.

Okkur vantar hinsvegar tvennt; fréttamenn sem afla frétta í stað þess að gegna bara hlutverki hljóðnemastatífs og fleiri anarkista sem hafa áhuga á hagfræði.