Búin að kæra Stefán

Í dag fékk ég ábendingu um að mjög vafasamt væri að það stæðist upplýsingalög að neita almenningi um aðgang  að skýrslu Geirs Jóns Þórissonar um búsáhaldabyltinguna. Ég sendi því inn kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, svohljóðandi:

Kæra vegna synjunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu – og krafa um aðgang.

Vísað er til svars lögreglustjóra, Stefáns Eiríkssonar þar, sem hann synjar undirritaðri um aðgang að gagni, sem til er í vörslu embættis hans. Um er að ræða samantekt eða skýrslu um svokallaða ´Búsáhaldabyltingu´.

Hinn 15. september sl. skrifaði ég lögreglustjóra tölvupóst og er meginefni hans eftirfarandi: 

Ég óska hér með eftir upplýsingum um það hvert ég á að snúa mér til að fá afrit af nýútkominni skýrslu lögreglunnar um Búsáhaldabyltinguna?“

 Svar Stefáns barst næsta dag, og er (utan kveðjuorða) svohljóðandi:

Það sem þú vísar til er samantekt sem unnin var upp úr skráningum í málaskrá lögreglu. Með hliðsjón af því er ekki hægt að senda þér þessa samantekt.“

 Eins og sést eru engin rök með svarinu og hvergi vísað til laga í synjuninni. En þar, sem Stefán vísar til málaskrár lögreglu er gert ráð fyrir að hann sé að vísa sé til þess, að í „samantektinni“ sé að finna persónuupplýsingar, sem hann telur undanþegnar aðgangi. Í því sambandi skal þess getið að undirrituð telur ólíklegt að í umræddu skjali sé að finna persónuupplýsingar, sem undanþægar gætu verið – og tekið skal fram, að undirrituð óskar ekki eftir neinu slíku. Sem og að ef svo vill til að slíkar upplýsingar megi þar finna ber að að veita ber aðgang að öðru efni skjalsins, sbr. 7. uppl. 50/1996. Er því stjórnvaldinu í lófa lagið að afmá nöfn einstaklinga og önnur persónugreinaleg einkenni, sem eigi er heimilt að veita aðgang að vegna ákvæða laga um persónuvernd, úr skjalinu.

 Hér með er gerð sú krafa að nefndin felli synjun Stefáns úr gildi og úrskurði að veita beri aðgang að samantektinni í heild – en til vara að veittur verði aðgangur að hluta skjals, sbr. það sem fram kemur hér að ofan og 7. gr. upplýsingalaga.

Virðingarfyllst
Eva Hauksdóttir

  

 

2 thoughts on “Búin að kæra Stefán

  1. Ef þú ert í sjálfstæðisflokknum þá áttu möguleika á að fá gögnin !
    Annars getur þú gleymt þessu !

  2. Sæl Eva.

    Ég gæti best trúað að þú fáir neikvætt svar frá áfrýjunarnefndinni – vegna formgalla. Þú baðst Stefán ekki beint um aðgang að skjalinu. Hann er löglærður og nýtti tækifærið til að svara öðru en þú spurðir um.

    Ég geri ráð fyrir að þú hljótir að eiga kunningja meðal vorra göfugu lögfræðinga og mæli með að þú leitir aðstoðar (kostar ekkert, símtal dugar).

    En lögin sjálf eru auðvitað ekki nógu góð. Upplýsingalög ættu að vera einföld og auðskilin öllum almenningi.

    Takk fyrir framtakið – Jón Dan

Lokað er á athugasemdir.