Boðið pláss í Konukoti, eftir 13 ár á biðlista hjá borginni

lykill

Framkvæmdirnar við Grettisgötu hafa ekki aðeins vakið reiði vegna fyrirætlana um að rífa hús og fella tré, heldur kemur yfirgangur hins nýja eiganda einnig illa við íbúana. Nýi eigandinn er Nordik lögfræðiþjónusta sem samkvæmt upplýsingum Kvennablaðsins er leppur fyrir þýska fjárfesta.

Anna Stefánsdóttir hefur búið að Grettisgötu 17 frá árinu 2002 en hefur nú misst heimili sitt vegna framkvæmdanna.

„Ég hef reyndar verið með umsókn um húsnæði hjá Reykjavíkurborg í 13 ár, því ég réði ekki við að borga svona háa leigu og því miður þá er bara ekkert ódýrara í boði. Ég hef svo ofan á það verið í mikilli óvissu frá því að eigandinn missti eignina ásamt fleiri eignum við Grettisgötu í kjölfar hrunsins. Landsbankinn yfirtók eignirnar og um tíma stóðu vonir til þess að eigandinn gæti keypt þær aftur. Landsbankinn hafnaði því hinsvegar og seldi Nordik þær í staðinn.

Ég gerði 6 mánaða leigusamning við Nordik en áttaði mig ekki á því að með því að skrifa undir tímabundinn samning væri ég að afsala mér öllum réttindum. Ég hef búið þarna allt frá 2002 og það bara hvarflaði ekki að mér að það væri hægt að henda fólki út eftir svo langan tíma. Þann 28. apríl hefur svo lögfræðingur Nordik samband við mig og segist vera að koma til að sækja lyklana.” segir Anna.

Anna segist hafa reiknað með að fá samninginn framlengdan en enda þótt hún hefði ekki í nein hús að venda hafi tilslakanir ekki komið til greina af hálfu Nordik.

„Þeir hömuðust á mér allan maímánuð og hótuðu að láta bera mig út. Það var einfaldlega ekkert húsnæði að hafa svo ég leitaði til Reykjavíkurborgar og sagði þeim að ég væri á götunni. Þar á bæ fékk ég þau svör, þrátt fyrir að hafa haft hjá þeim umsókn um húsnæði í 13 ár, að það væri ekkert hægt að hjálpa mér. Mér var ráðlagt að kanna möguleikann á að fá herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði í húsnæði þar sem pólskir verkamenn búa og þegar mér leist illa á það var mér boðið pláss í Konukoti!”

Önnu bauðst að lokum húsnæði uppi á Grafarholti, án tilstuðlunar Reykjavíkurborgar.

„Það er lán í óláni en þetta er engin lausn fyrir mig. Leigan er 165.000 kr á mánuði og ég ræð ekki við þessa fjárhæð. Ég er orðin 57 ára og fékk örorkumat núna í nóvember, ég á því litla möguleika á hálaunastarfi og hef hreinlega ekki tekjur til að standa undir þessu.”