Baukablæti

baukar-Sjáðu hvað ég fann innst í eldhússskápnum! sagði ég, fagnandi.
-Nei sko, fannstu einn baukinn enn, sagði Eynar, það var mikil hamingja.
-Ég get sett baunirnar í þennan.
-Já en eru skáparnir ekki fullir af tómum döllum og baukum sem þú hefðir getað notað undir baunir?
-Jú en ég vil geyma þá.
-Nú? Af hverju?
-Svo sé hægt að setja eitthvað í þá.

Ég setti smjörbaunir í nýja baukinn, huggulega glerkrukku með rauðu loki, og henti svo pokanum utan af baununum í ruslið.
Eynar leit ofan í ruslafötuna.
-Nú? Er teið búið? Sagði hann, undrandi yfir því að mér hefði tekist að þamba 6-7 lítra af tei á tveimur dögum.
-Neinei, ég setti dúsurnar í bauk og henti pakkanum, sagði ég og dáðist að hinum fögru, hvítu smjörbaunum sem nutu sín til fulls í nýju krukkunni.

Stuttu síðar:
-Heyrðu það er ekkert te í tebauknum, ekki heldur það sem var þar fyrir.
-Nei ég setti það sko í litla baukinn.
-Og hvað ætlarðu þá að gera við þennan?
-Setja eitthvað í hann.
-Eitthvað?
-Já, það er alltaf gott að eiga tóma bauka. Ef maður skyldi vilja setja eitthvað í þá.

Eynar yppti öxlum og fékk sér te, opnaði svo kæliskápinn.
-Einhver hefur falið ostinn.
-Já ég faldi hann í dallinum með bláa lokinu.
-Hentirðu umbúðunum?
-Já. Það er snyrtilegra að hafa ostinn í dalli.
-Hmmm… dallurinn er svo djúpur að maður þarf að setja ostinn á disk til að geta skorið hann og þá óhreinkast diskurinn, hvernig er það snyrtilegra?
-Maður notar ekki disk. Maður notar hina háeðlisfræðilegu „losa og hvolfa aðferð“ sagði ég og hvolfdi boxinu þannig að osturinn lenti á lokinu.
-Ókei, en varla er tepakkinn ósnyrtilegur. Má ég spyrja afhverju þú hendir öllum umbúðum? sagði Eynar og horfði á mig með augnaráði þess sem leggur sig fram um að skilja eitthvað sem hann veit þó að ekki er hægt að finna rökrétta skýringu á.
-Ég hendi umbúðunum til þess að setja matinn í dalla og bauka.
Eynar hristi höfuðið.
-Jahérna. Þú ert ekki bara með baukablæti, þú ert með sértæka umbúðaröskun.
-Neinei, ég er ekki með umbúðaröskun, ég legg bara óvenjulega áherslu á umbúðaúrræði.

-En finnst þér óþægilegt að hafa ostinn í næst neðstu hillunni?
-Nei alls ekki.
-Ég sé nefnilega að þú hefur endurraðað í ísskápinn enn eina ferðina.
-Já, það geri ég til að tæma eina hillu.
-Jahá? Og afhverju viltu hafa tóma hillu í ísskápnum?
-Til þess að sé hægt að setja eitthvað í hana.

Eynar dæsti.
-Það væri kannski hægt að skilja þessa ílátaáráttu ef þú værir sjálfri þér samkvæm. En svo opnar maður súkkulaðipakka. Maður dregur plötuna varlega úr pappanum, rífur álpappírinn snyrtilega við endann, brýtur mola af plötunni og rennir henni snyrtilega inn í pappann aftur. Svo kemur þú, rífur pappann í sundur með offorsi, tætir álpappírinn alla leið upp þótt þú takir bara einn mola og skilur svo súkkulaðið eftir óvarið í sárum sínum á borðinu. Hvernig kemur þetta heim og saman við þessa áherslu á að hafa allt í lokuðum baukum?
-Ja, sko, hvað segir þetta okkur?
-Að sértæk umbúðaröskun hafi margar birtingarmyndir?
-Nei elskan. Þetta er óræk sönnun þess að það vanti sérstakan súkkulaðibauk á þetta heimili.

canisters1-300x199Á maður eitthvað að reyna að útskýra þetta? Eynar er allavega búinn að ákveða að vera ekkert að reyna að skilja þetta. Umsamið að þegar við hönnum eldhússinnréttingu sjálf, þá fái ég sérstakan baukaskáp svo ég þurfi ekki að fylla pottaskápinn af tómum döllum. Semsagt fullan skáp af tómum baukum og döllum. Sem er hægt að setja eitthvað í. Eða geyma svo sé hægt að setja eitthvað annað í þá seinna. Það finnst mér góður díll.