Barnaheimilið í Reykjanessbæ

Í Reykjanessbæ er gistiheimilið Fit (eða Fitjar?) Þar eru flóttamenn vistaðir eftir að þeir koma úr fangelsi fyrir skjalafals (en slík refsing stríðr gegn Flóttamannasamningi SÞ) og áður en þeim er synjað um hæli. Þótt formlega sé Fit ekki fangelsi er staðsetningin hamlandi og athyglisvert er að þegar lögreglan hefur komið til að henda mönnum úr landi en gripið í tómt, tala fjölmiðlar um að maðurinn hafi „strokið“, sem segir okkur heilmikið um það hlutverk sem þessar búðir gegna.

Reyndar er staða flóttamanna um margt lík stöðu fanga því þótt þeir geti labbað út í búð eru þeir vegabréfslausir, sem setur ferðafrelsi þeirra verulegar skorður, þeir geta ekki fengið atvinnuleyfi, þeir geta ekki aflað sér menntunar og þar sem þeir vita ekki hvað verður um þá eftir nokkrar vikur eða mánuði, eru möguleikar þeirra á að stofna til ástarsambanda mjög takmarkaðir.

Staða fullorðinna flóttamanna er nógu slæm þótt yfirvöld bæti ekki gráu ofan á svart með því að brjóta gegn mannréttindum þeirra, en að fangelsa flóttabörn, það stríðir ekki aðeins gegn Flóttamannasamningnum heldur einnig gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í gær kom fram í fréttum að tvö börn sem dæmd voru í fangelsi fyrir skjalafals (sem þeim er heimilt sem eru að forða sér frá ofsóknum eða lítilsvirðandi meðferð) hefðu nú verið tekin úr fangelsinu og vistuð á „viðeigandi stofnun“. Ekki hef ég séð skýringar á því hver sú „viðeigandi sofnun“ er sem yngri drengurinn er vistaður á en sá eldri er á Fit. Auk hans eru nú þrír aðrir drengir undir 18 ára aldri vistaðir þar.

Fróðlegt væri að sjá skýringar Innanríksráðherra á því hvernig nákvæmlega það telst „viðeigandi“ að vista börn í flóttamannabúðum með fullorðnum. Njóta þessi börn verndar, umönnunar og menntunar? Þar sem Ögmundur Jónasson hefur hingað til hundsað flest erindi mín til ráðuneytisins, beini ég því til blaðamanna að þeir krefji ráðherra tafarlausra svara um það hvort og þá hvenær ráðuneyti hans hyggist fylgja alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og með hvaða rökum stofnanir sem heyra undir hann telji sér heimilt að brjóta gegn réttindum barna.  Einnig þyrfti að krefja ráðherrann svara um það hvernig það kom til að flóttamannahælið í Reykjanessbæ var gert að barnaheimili og með hvaða hætti þeim ákvæðum Barnasáttmálans sem kveða á um umönnun og vernd barna sé framfylgt þar. Ekki síst þarf að fá fram svör um það hvernig sú málsmeðferð að dæma drengi undir 18 ára aldri í óskilorðsbundið fangelsi fyrir að ferðast á fölsuðum skilríkjum, styrkir vitund þeirra um manngildi, virðingu fyrir mannréttindum og hæfir aldri þeirra, svo sem kveðið er á um í fertugustu grein Barnasáttmálans, en sú grein snýr að dómum yfir börnum.

3 thoughts on “Barnaheimilið í Reykjanessbæ

  1. Þetta auðvitað stríðir gegn öllu sæmilegu.
    Má ég spyrja, hvað er gert við íslensk börn sem verða vís að skjalafalsi? Eitthvað rámar mig í að ég hafi gerst sek um slíkt forðum daga þegar ég falsaði nafnskírteini til að komast inn á skemmtistaði. Það var hirt af mér og ég fékk tiltal. Annað ekki. Það varað vísu Ísland fyrir meira 40 árum eða svo. Á þeim tíma þegar maður var engu að síður skrifaður upp af löggunni ef maður var 7 ára og hjólaði á gangstéttinni. Ætlum við aldrei að ná neinum vitrænum áttum hérna?

  2. Það væri nú fróðlegt að vita hversu mörg börn hafa verið dæmd til óskilorðsbundinnar fangavistar síðustu 40 árin og það án samráðs við barnaverndaryfirvöld.

Lokað er á athugasemdir.