Ævintýri handa allmáttugum

Einu sinni voru tveir fyllikallar sem hættu að drekka. Ku það hafa verið hið besta mál enda hendir það gjarnan drukkið fólk að vanvirða hið helga boðorð; þú skalt ekki drepa náunga þinn úr leiðindum.

Svo sem títt er um fyllibyttur, töldu okkar menn næsta víst að þeirra aðferð væri sú besta, réttasta og sannasta. Gott ef ekki sú eina. Mun þetta enda í fyrsta sinn í mannkynssögunni sem fyllibyttur láta af drykkjuskap sínum en þetta var minnir mig árið 1934 eða var það 1935?

Nema hvað. Þessir fyrrum fyllikallar sem þóttust nú vissir um að hafa krakkað kódann, stofnuðu í kjölfarið sértrúarsöfnuð og hófu að boða fagnaðarerindið um heim allan. Tilbiðja áhangendur þeirra gvuð sem heitir Æðrimáttur og á að sögn ekkert skylt við þann gvuð sem í máli kristlinga kallast Almáttugur. Fylgjendurnir kallast ekki fylgjendur eða sóknarbörn heldur sjúklingar. Líta þeir á sig sem fórnarlömb einhverskonar ills anda sem heitir Fíkn. Til að halda Fíkn í hæfilegri fjarlægð, fremja þeir vikulegt ritúal sem felst í því að segja öðru fólki sömu þrautleiðinlegu söguna af fyrri eymingjaskap sínum.

Einhvernveginn hefur þessum sértrúarsöfnuði tekist að telja alþýðu manna trú um að ástæðan fyrir óhófsneyslu áfengis og annarra eiturefna, sé sjúkdómur sem heiti alkóhólismi. Sannleikurinn er nú samt sá að alkóhólismi er ekki læknisfræðilegt hugtak. Hugmyndin um ofdrykkju sem sjúkdóm og þá lækningu að blaðra endalaust um það, tilbiðja Æðrimátt og lýsa yfir vanmætti sínum, er ekki afsprengi vísindalegra rannsókna. Það voru ekki læknar sem komust að þessari niðurstöðu, heldur fyllibytturnar sjálfar. Gott ef „rannsóknir“ þeirra fór ekki fram í kapellu eða einhverju afdrepi í kirkju, það er eins og mig minni það.

Nú veit ég að einhver grípur andann á lofti og þusar eitthvað um „samtök sem hafa hjálpað þúsundum…“ rétt eins og það geri þau heilög. Ég efast ekkert um að þessi söfnuður hefur átt þátt í að bjarga mannslífum. Ég er ekkert á móti því að þessi samtök séu starfrækt. Fínt fyrir þá sem geta notað sér eitthvað költ til að hætta að hegða sér eins og fávitar. Eftir standa samt þær þúsundir sem ekki hafa breytt hegðun sinni með því að treysta á Æðrimátt og trúa jafnvel ekki einu sinni á hann. Eftir standa þó nokkuð margir sem hafa bara hætt þessu rugli, þrátt fyrir að hafa aldrei kynnt sér stefnuskrá fyllibyttusafnaðarins. Eftir stendur sú staðreynd að það er einfaldlega lygi að aðferð þessa safnaðar sé eina leiðin til að halda sig frá eitri. Líklega getur hún ekki einu sinni talist sérstaklega áhrifarík.

Er ekki tímabært að læknamafían stígi fram og annað hvort viðurkenni alkóhólisma sem sjúkdóm og ráðleggi þá læknisfræðilega meðferð við honum (en ekki trúarlega) eða þá mótmæli þessari alþýðuskýringu og bendi á atferlismeðferð fyrir þá sem ekki geta stillt sig um að gúlla í sig óhóflegu magni eiturs.

Ja ég bara spyr?