Aðförin að samningafrelsinu

hannes-g-sigurdsson-a-vef-688x451

Þær eru gersamlega óþolandi allar þessar árásir á samningafrelsið.

Einu sinni ríkti fullkomið samningafrelsi á Íslandi. Það voru góðir tímar, sérstaklega fyrir auðvaldið. En svo risu upp efnahagslegir hryðjuverkamenn; svokallaðir verkalýðsleiðtogar sem með aktívisma og annarri lögleysu kúguðu yfirboðara sína til að greiða nógu há laun til þess að gera þeim mögulegt að draga fram lífið. Ekki nóg með það heldur tók löggjafinn virkan þátt í samsærinu og skipaði þrautpíndri útgerðinni að leyfa sjómönnum að hvíla sig sex klst. á sólarhring. Já, ég sagði það, heila sex tíma! Ekki höfðu útgerðarmenn minnsta áhuga á þeim díl en þeir voru ekkert spurðir álits heldur bara valtað yfir samningsfrelsi þeirra.

Seinna misstu menn sig í einhverja væmni gagnvart börnum. Þann ósóma tóku kommúnistar og kerlingar upp eftir nágrannaþjóðunum, það voru víst Bretar sem fyrstir stóðu fyrir efnahagslegum hryðjuverkum á borð við þau að banna sóturum að hneppa götubörn í þrældóm og takmarka frelsi verksmiðjueigenda til að ráða börn í hættulega vinnu. Endalausar tilskiparnir og reglugerðir hafa leitt til þess að auðmönnum verður nánast ekkert gagn af ungmennum lengur og það er hreinlega bannað að ráða smábörn til vinnu. Bændur sem setja 9 ára börn á dráttarvélar geta átt á hættu að verða ofsóttir af dómstólum ef krakkinn slasast og það er óþekkt með öllu að drengir fari sinn fyrsta túr á togara strax eftir fermingu eins og algengt var fyrir nokkrum áratugum – og öllum varð gott af.

Stöðugt hefur verið þrengt að samningsfrelsi atvinnurekenda síðustu 100 árin. Nú er svo komið að sjómenn fá ekki bara að sofa heldur líka að dóla sér klukkutímum saman – í vinnunni. Lögbundinn lágmarkshvíldartími sjómanna er nú 10 klst á sólarhring og ekki hafa útgerðarmenn fengið neinar bætur vegna þess. Atvinnurekendum er einnig gert að kosta fokdýran öryggisbúnað, greiða veikindadaga og orlof og ýmsan annan hégóma sem þeir hefðu aldrei samið um ef löggjafinn væri ekki alltaf með nefið ofan í þeirra málum, fremjandi hvert hryðjuverkið á fætur öðru.

Afleiðingarnar af öllum þessum efnahagslegu hryðjuverkum eru skelfilegar. Hugsið ykkur bara hversu miklu fleiri milljarða meðal-útgerðargreifinn ætti í dag ef hann mætti láta sjómenn vinna allan sólarhringinn og þyrfti aldrei að endurnýja öryggisbúnað eða greiða slysabætur. Hugsið ykkur bara hversu vel landsbyggðin myndi blómstra ef mætti ná þeirri vinnu út úr börnum sem mögulegt er og hvað iðnaðurinn væri í miklu betri málum ef meðal vinnuvikan væri 75 stundir og ekkert hámark. Því segi ég; hlustum á Hannes G. Sigurðsson, þann skynsama mann. Virðum samningafrelsi auðvaldsins og látum ekki stytta vinnuvikuna enn meira með tilheyrandi hörmungum. Nóg er víst af hryðjuverkunum fyrir.