Að stela deginum

Fyrsti maí er ekki baráttudagur verkalýðsins. Frídagur kannski en ekki baráttudagur. Eins og bent hefur verið á er það ekki verkalýðurinn heldur hernaðarandstæðingar, umhverfissinnar, vinir Palestínu og feministar sem ganga 1. maí. Það er ekki hátt hlutfall verkalýðsins sjálfs sem mætir á hátíðasamkomur. Festir kjósa fremur að nota daginn til að vinna á yfirvinnukaupi eða skemmta sér með einhverjum sem þeir eiga meira sameiginlegt með en verkalýðsforystunni sem býr svo sannarlega ekki við nein verkamannakjör. Verkalýðsforkólfar ættu að hafa meiri áhyggjur af því hversu margt verkafólk gefur skít í 1. maí en því að aðrir hópar eigni sér daginn.

Ég dreg í efa gildi sérstakra baráttudaga. Þegar þeir sem ættu að taka til sín mótmæli og kröfur vita að einn tiltekinn dag á ári mun fólk fylkja sér um málstaðinn, verða þær aðgerðir bara eitthvað sem menn reikna með fyrifram og kippa sér ekki upp við. Slíkar aðgerðir eru líka yfirleitt allt of smekklegar og friðsamlegar til þess að bera árangur. Ef mótmæli og kröfur eiga að hafa áhrif þurfa aðgerðirnar að vera truflandi, vekja þá sem þær beinast gegn til umhugsunar og vekja ótta um að það kunni að hafa slæmar afleiðingar að taka ekki tillit til þeirra.  Ég mætti aldrei í göngu eða á hátíðasamkomu á þessum degi á meðan ég var verkakona. Hversvegna hefði ég átt að gera það? Hafa göngur og ræðuhöld 1. maí einhverntíma haft áhrif á kjör verkamanna? Ekki í minni tíð að minnsta kosti.

Í gær lýsti Gylfi Arnbjörnsson því yfir að “verkalýðshreyfining” væri jákvæð gagnvart nýrri þjóðarsátt. Hann var væntanlega að vísa til samkomulagsins milli atvinnurekenda og verkalýðsfoystunnar 1990, samnings sem þjóðin var aldrei spurð álits á. Hvaða verkalýðshreyfing skyldi það nú vera sem er svona áfjáð í sáttasex með atvinnurekendum í þetta sinn? Gylfi sjálfur eða einhverjir sem búa raunverulega við kjör verkamanna?  Hvenær voru aðrir meðlimir verkalýðshreyfingarinnar en Gylfi sjálfur spurðir álits á nýrri “þjóðarsátt” og hvenær voru þeir spurðir um reynslu sína af síðustu “þjóðarsátt” eða það hversu sáttir þeir voru við útkomuna? Nei ég er ekki að segja að “þjóðarsáttin” hafi ekki haft einhver jákvæð áhrif heldur að benda á þjóðin átti engan hlut að henni. Ég er ekkert hissa á því að fólk nenni ekki að taka þátt í “baráttu” einhverra skrifstofukalla sem telja sig hafa umboð til að gefa yfirlýsingar um sátt heillar þjóðar við aðgerðir sem hún hefur ekkert um að segja.

thjodarsatt
Þjóðin tekur í höndina á sér, svona líka sátt

Fyrsta maí göngur hafa engin áhrif á atvinnurekendur eða stjórnvöld. Þær eru bara skrúðgögnur. Fyrsti maí er nefnilega enginn baráttudagur heldur hátíðisdagur verkalýðsforystunnar, dagur sem verkalýðsforkólfar nota til að reyna að gera sig gildandi. Og þessvegna og aðeins þessvegna finnst mér bara fínt að umhverfissinnar og aðrir baráttuhópar hafi stolið deginum. Þeir stálu honum nefnilega ekki frá uppvaskaranum á veitingahúsinu eða þeim sem skúra sjúkrahúsin og viðhalda götum og gangstéttum, heldur frá Gylfa Arnbjörnssyni og félögum. Satt að segja finnst mér það pínulítið gottáðá.