Ljóð handa konum á uppleið

Sjaldan hafa þeir bræður Gáski og Háski
vikið frá mér spannarlengd
á hlaupum mínum niður stigann.
Skottast ýmist á eftir
og skella mér á rass
flissandi,
eða ryðjast fram fyrir
og búast til að bregða fyrir mig fæti.

Á uppleiðinni fer minna fyrir þeim,
skjögra mér að baki,
þunglamalega
og nöldra iljum
við gólfdúkinn.

Hvíld er það
mikil ósköp.
Og þó bíð ég þess alla leiðina
að annar þeirra
glefsi geðvonskulega í hæl mér.

Ævintýr hins ósagða

Löngum hafa nöfn mín
hrakist fyrir vindum
og hvítur stormurinn felur í sér
fyrirheit um frekari sviptingar.

Án sektar
án sakleysis
hef ég gefið honum eitt þeirra á vald,
hrifist með hvini hans
að endimörkum frumskógarins
þar sem höggormurinn hringar sig
utan um sólina
og barn hefur stigið sín fyrstu skref
út á brúna
sem skilur veröld hugsunar og tungu.